fbpx

Stúlka – Ekki brúður

Heim / / Stúlka – Ekki brúður

Stúlka – ekki brúður, fyrsti fræðslu- og fjáröflunarþáttur UN Women, var sýndur í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þann 1. nóvember 2019. Í þættinum var sjónum beint að þvinguðum barnahjónaböndum og fólk hvatt til að taka þátt í því að uppræta þennan skaðlega sið með því að gerast ljósberar UN Women. 

Staðreyndir um þvinguð barnahjónabönd

  • Á hverri mínútu eru 23 barnungar stúlkur þvingaðar í hjónaband
  • Tólf milljónir stúlkna eru þvingaðar í hjónaband á hverju ári
  • Barnungar stúlkur sem detta úr námi eru líklegri til að búa við lakari heilsu, eignast mörg börn og festast í viðjum fátæktar
  • UN Women vinnur að því að uppræta þvinguð barnahjónabönd í Malaví og víðar og styðja stúlkur aftur til náms

Í Malaví er tíðni þvingaðra barnahjónabanda með þeim hæstu í heiminum, en þar er önnur hver stúlka gift fyrir 18 ára aldur. UN Women á Íslandi heimsóttu Malaví ásamt tökuteymi og Þóru Karítas Árnadóttur, sem tók viðtöl við stúlkur sem hafa verið þvingaðar í hjónaband á barnsaldri. Úr urðu sex stuttar heimildarmyndir sem voru frumsýndar í þættinum.

Stjórnendur þáttarins voru þau Eva María Jónsdóttir og Guðmundur Pálsson og fengu þau til sín sérfræðinga á borð við Elizu Reid, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Írisi Björgu Stefánsdóttur hjá UN Women í Tyrklandi og Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. Unnstein Manuel Stefánsson og Þóra Karítas Árnadóttir komu í settið og sögðu frá upplifun sinni af heimsókninni til Malaví og gerð heimildarmyndanna. Þá var einnig sýnt viðtal við Jaha Dukureh, aðgerðarsinna og velgjörðarsendiherra UN Women, sem sagði frá reynslu sinni af því að hafa verið þvinguð í hjónaband aðeins fimmtán ára gömul.

Lay Low og Raggi Bjarna, GDRN og Emilíana Torrini fluttu tónlistaratriði en gríninnslög þáttarins voru í höndum Ilmar Kristjánsdóttur og Kötlu Margrétar Þorgeirsdóttir, sem skrifuðu sketsa og léku í þeim ásamt fjölda gestaleikara. Dögg Mósesdóttir leikstýrði en hér má horfa á þá alla.

Related Projects