Fokk ofbeldi

Home / / Fokk ofbeldi

Fokk Ofbeldi

Fokk ofbeldi herferðin leit fyrst dagsins ljós þegar UN Women á Íslandi hóf sölu á Fokk ofbeldi armböndum árið 2015. Síðan þá hefur ýmiss konar Fokk ofbeldi varningur verið framleiddur og seldur til styrktar verkefna UN Women sem miða að því að útrýma kynbundnu ofbeldi. Frasinn hefur á stuttum tíma fest sig rækilega í sessi sem slagorð í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi.

Vísvitandi var ákveðið að hafa orðalagið ögrandi í von um að það myndi hreyfa við fólki og vekja til vitundar um baráttuna gegn ofbeldi gegn konum. Ef frasinn fer fyrir brjóstið á fólki er mikilvægt að muna að ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og 39 þúsund stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverjum einasta degi.

Armbönd

FO-armböndin mörkuðu upphaf Fokk ofbeldi herferðarinnar veturinn 2015 en þau seldust upp á innan við tveimur vikum. Lyfja var helsti bakhjarl verkefnisins og seldi auk þess armbandið í verslunum sínum. Heildarágóði sölunnar var rúmar fjórar milljónir sem runnu beint í styrktarsjóð Sameinuðu þjóðanna til afnáms ofbeldis gegn konum.

Taupokar

Fyrsti Fokk ofbeldi taupokinn var hannaður af Kötlu Rós Völudóttur og Ragnari Má Nikulássyni í samstarfi við Sögu Sig og íslenska dansflokkinn árið 2015. Þá sátu dansararnir fyrir á myndum þar sem þau stöfuðu Fokk ofbeldi með líkömum sínum og túlkuðu þannig samtakamáttinn sem gerir okkur sterkari í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Í ljósi mikillar eftirspurnar eftir FO- varningi létum við framleiða aðra útgáfu af FO-taupokum sumarið 2016. Þeir eru enn fáanlegir í gjafaverslun okkar eða hér. FO-taupokann má nota sem innkaupapoka, sundpoka, skólatösku og svo mætti lengi telja. 

Hálsklútur 

Í tilefni af 30 ára afmæli landsnefndar UN Women á Íslandi 2019 var ákveðið að framleiða glænýjan Fokk ofbeldi varning. FO-hálsklúturinn var fram svartur með fíngerðu FO-mynstri, úr coolmax efni sem bæði andar vel og þornar hratt. Klúturinn var framleiddur í takmörkuðu upplagi en þú færð hann hér.

Myllumerkið #fokkofbeldi hefur verið notað á samfélagsmiðlum í tengslum við Fokk ofbeldi herferðirnar frá upphafi og við hvetjum þig eindregið til að nota það óspart.

Hægt er að styðja við þolendur kynbundins ofbeldis með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women.

Fokk Ofbeldi húfan 2016-2019

Fokk ofbeldi húfan hefur verið mismunandi frá ári til árs. Sú fyrsta árið 2016 var svört með hvítu FO-merki og 2017 var hún steingrá með hvítu FO-merki á steingráum miða. Árið 2018 var húfan dimmblá með hvítum FO-miða en árið 2019 var ákveðið að breyta til og var húfan svört með stóru FO-merki úr endurskini.

Related Projects