Alvogen/Alvotech hafa stutt UN Women á Íslandi dyggilega og staðið straum af kostnaði við tvær stærstu fræðsluherferðir samtakanna.

Zaatari

Árið 2017 studdi Alvogen við Zaatari herferð UN Women til styrktar konum á flótta í Zaatari flóttamannabúðunum. Alvogen gerði samtökunum kleift að fara til Jórdaníu og taka upp viðtöl og gera umfjöllun um griðastaði UN Women í Zaatari búðunum. Efnið er notað til kynningar á Íslandi á stöðu kvenna á flótta sem dvelja í flóttamannabúðum. Þessi stuðningur gerði UN Women á Íslandi kleift að safna um 18 milljónum króna auk þess sem 550 nýir Ljósberar gerðust mánaðarlegir styrktaraðilar.

Stúlka – Ekki brúður

Árið 2019 styrkti Alvogen aftur við samtökin en þá til ferðar til Malaví til að taka upp efni og viðtöl við stúlkur sem hafa verið þvingaðar í barnahjónabönd. Í kjölfarið voru unnin heimildainnslög um starf UN Women og hvernig starfsfólk UN Women vinnur að því að uppræta þennan skaðlega sið. Efnið var notað í fræðslu- og söfnunarþættinum Stúlka – Ekki brúður á RÚV í tilefni 30 ára afmælis UN Women á Íslandi. Í kjölfarið bættust við um 1.300 nýir Ljósberar sem eru bakbein starfs UN Women og styrkja mánaðarlega.