1989-1996

Við lok níunda áratugarins tóku sig saman nokkrar konur hér á landi og stofnuðu UNIFEM landsnefnd. Frumkvöðullinn Sæunn Andrésdóttir kynntist starfsemi UNIFEM á kvennaráðstefnu í Osló árið 1988 og vakti sjóðurinn athygli hennar og áhuga. Í kjölfarið bauðst henni að sækja 3. heimsþing UNIFEM sem haldið var í Finnlandi, sem hún sótti ásamt vinkonu sinni, Kristjönu Millu Thorsteinsson. Að þingi loknu var ekki aftur snúið og stofnuðu þær landsnefnd UNIFEM á Íslandi ári síðar ásamt Grétu Gunnarsdóttur lögfræðingi. Tíu manns mættu á stofnfundinn en þar var kosið í fimm manna stjórn og Sæunn var kjörin fyrsti formaður landsnefndarinnar.

Þróunarmál voru ekki mikið til umræðu á Íslandi á þessum tíma, hvað þá staða kvenna í þróunarlöndum og var áhugi almennings fyrir UNIFEM í takt við umræðuna. Ef það hefði ekki verið fyrir elju og óeigingjarnt starf kvennanna, sem unnu í sjálfboðavinnu á kvöldin og í frítíma sínum að samtökunum meðfram fullu starfi, hefði starf landsnefndarinnar aldrei náð dampi. Sjóðinn kynntu þær með blaðaskrifum, fréttabréfum og morgunverðarfundum. Markmiðið var að kynna landsnefndina fyrir ríkisstjórn Íslands í von um að koma henni á fjárlög.

Heimild: Margrét Rósa Jochumsdóttir, „Landsnefnd UNIFEM á  Íslandi: Saga, áherslur og aðferðir“ MA-verkefni í þróunarfræðum við Háskóla Íslands. 2008.

1996-2008

Fram kom í ársskýrslu félagsins frá árinu 1996 að erfitt hafi verið að komast að í fjölmiðlum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Samkvæmt stofnendum voru fyrstu ár landsnefndarinnar erfið vegna takmarkaðs áhuga og skilnings á málefninu. Árið 1998 tókst loks ætlunarverkið og var landsnefndin sett á fjárlög. Þannig gekk hún næstu árin, með sjálfboðastarfi stjórnarmeðlima og velunnara. Með árunum jókst svo áhugi hjá stjórnvöldum, einkageiranum og almenningi fyrir starfi landsnefndar UNIFEM.

Árið 2004 var ákveðið að UNIFEM og UNICEF á Íslandi myndu deila skrifstofuhúsnæði ásamt Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Árin 2005-2008 var höfuðáherslan í starfinu lögð á ofbeldi gegn konum og alnæmi og hvernig það helst í hendur.

Árið 2006 var fyrsta starfskona landsnefndarinnar ráðin í fullt starf en það var Birna Þórarinsdóttir sem starfaði undir stjórn félagsins. Á sama ári færðist áherslan yfir á einkageirann og bankar og fyrirtæki hófu að styrkja landsnefndina.

Heimild: Margrét Rósa Jochumsdóttir, „Landsnefnd UNIFEM á  Íslandi: Saga, áherslur og aðferðir“ MA-verkefni í þróunarfræðum við Háskóla Íslands. 2008.

2008-2011

Árið 2008 tók Steinunn Gyðu-og Guðjónsdóttir við starfi framkvæmdastýru landsnefndarinnar. Eftir að áhugi fyrirtækja og einstaklinga til þess að styrkja málstaðinn jókst ýtti landsnefndin úr vör fyrstu landssöfnun félagsins, svokallaðri Fiðrildaviku. Hún fól í sér þá nýbreytni að fé var eyrnamerkt ákveðnum löndum. Fiðrildasöfnunin fór fram í mars árið 2008 til styrktar konum í Líberíu, Súdan og Kongó. Til að vekja athygli á málstaðnum voru m.a. sýndar örmyndir um ofbeldi gegn konum í sjónvarpi auk þess sem gengið var til góðs í svokallaðri Fiðrildagöngu. Bauðst fólki að styðja við átakið með því að kaupa hekluð brjóst auk þess sem haldinn var fjáröflunarkvöldverður í húsi frímúrara á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars. Átakið vakti töluverða eftirtekt og söfnuðust heilar 92 milljónir króna.

Þegar þarna var komið við sögu hafði margt vatn runnið til sjávar í geiranum og gjörbreyting orðið á viðhorfi Íslendinga til þróunarmála frá upphafsárum landsnefndarinnar.

Næstu árin lagði landsnefndin áfram höfuðáherslu á fjáröflun og vitundarvakningu en hélt þó áfram að þróa nýjar leiðir. Lögð var áhersla á að ná til almennings í starfinu og hvetja Íslendinga til að ganga í Systralagi UNIFEM með því að styrkja starf landsnefndarinnar með stöðugum mánaðarlegum framlögum.

2011-2017

Árið 2011 var stigið stórt skref í sögu landsnefndarinnar þegar UNIFEM sjóðurinn var sameinaður nokkrum smærri rannsóknarstofnunum um kynjajafnrétti innan Sameinuðu þjóðanna. UN Women var sett á fót og markaði söguleg tímamót sem fyrsta stofnun Sameinuðu þjóðanna sem starfar einungis í þágu kvenna og jafnréttis. Með stofnun UN Women sýndu aðildarríki SÞ í verki hve nauðsynlegt það er að sinna jafnréttismálum og vinna að því að valdefla konur í þróunarlöndum og á stríðshrjáðum svæðum.

Um svipað leyti og UN Women var stofnað var Inga Dóra Pétursdóttir ráðin framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi. Upp úr stofnun UN Women hafa jafnréttismál verið í forgrunni utanríkisstefnu Íslands.

Óhætt er að segja að veigamikil vitundarvakning um jafnréttismál hafi átt sér stað á þessum árum og var Ísland margoft í fyrsta sæti á lista World Economic Forum yfir lönd þar sem best er að vera kona.

2017-2021

Árið 2017 hélt Inga Dóra Pétursdóttir á ný mið eftir sex ára farsælt starf sem framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og Stella Samúelsdóttir tók við stöðunni af henni. Helstu áherslur í starfi UN Women á Íslandi í dag eru fjáröflun, vitundarvakning um jafnrétti auk réttindagæslu þar sem samtökin sinna fræðslu friðargæsluliða og annarra útsendra sérfræðinga um ályktun öryggisráðsins 1325 sem snertir konur, frið og öryggi. Árið 2020 var fest í lög félagsins að tryggja að kynjahlutföll í stjórn séu sem jöfnust og að hlutfall hvers kyns sé ekki hærra en 60%.

Fjölgun mánaðarlegra styrktaraðila UN Women á Íslandi hefur verið stöðug á tímabilinu og sendi íslenska landsnefndin hæsta framlag til verkefna UN Women á tímabilinu, óháð höfðatölu. Sú jákvæða þróun hefur einnig átt sér stað að karlmönnum í hópi mánaðarlegra styrktaraðila hefur fjölgað umtalsvert og skipa nú 1/3 þess hóps.

Skrifstofan hefur stækkað og vaxið hratt síðastliðin ár. Í dag sitja níu manns, konur og karlmenn, í stjórn samtakanna og eru fimm starfskonur á skrifstofunni. Þar að auki er fjöldi fólks í hlutastarfi við götukynningar og úthringingar. Í upphafi árs 2020 lauk sérstökum samstarfssamningi við utanríkisráðuneytið og hlaut ekki endurnýjun. Þess ber að geta að UN Women á Íslandi á í góðu samstarfi við tryggan hóp samstarfsaðila víða úr samfélaginu, ekki síst úr einkageiranum.