Lög UN Women á Íslandi

1. gr. Um félagið

Heiti félagsins er UN Women á Íslandi (UNWÍ).

Félagið starfar samkvæmt landsnefndarsamningi við UN Women í þeim eina tilgangi að styðja vinnu og markmið UN Women.
UNWÍ skuldbindur sig til að fylgja stefnu og reglugerðum UN Women í starfi sínu, í samræmi við landsnefndarsamninginn.

Heimili UNWÍ og varnarþing er að Laugavegi 77, 101 Reykjavík.

Starfsár félagsins er almanaksárið frá 1. janúar til 31. desember.

2. gr. Markmið

Markmið UNWÍ er að:

 • afla fjár til verkefna UN Women
 • kynna og auka áhuga landsmanna á starfsemi UN Women
 • vera málsvari kvenna í fátækari ríkjum heims með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti efnahags- og félagslegrar framþróunar
 • hvetja stjórnvöld til að auka fjárframlög til UN Women
 • skrifstofa UNWÍ sé fjárhagslega sjálfbær.

3. gr. Félagar

Einstaklingar, félög og fyrirtæki geta orðið félagar að UNWÍ. Allir félagar skulu annað hvort greiða árlega félagsgjöld eða gerast ljósberar og greiða mánaðarlegar greiðslur í styrktarkerfi UNWÍ. Þeir einstaklingar sem skrá sig fyrir mánaðarlegum framlögum eru jafnframt skráðir sem félagar. Lágmarksupphæð félagsgjalda skal ákveðin á aðalfundi ár hvert.

4. gr. Heiðursfélagar

Heimilt er að kjósa heiðursfélaga úr hópi félagsmanna og skal kjör þeirra fara fram á aðalfundi. Stjórn félagsins hefur ein rétt til að bera fram tillögu á aðalfundi um kjör heiðursfélaga og skal hún standa einhuga að þeirri tillögu. Áður en stjórnin kynnir slíka tillögu og kunngerir í fundarboði skal hún tilkynna viðkomandi um það. Má því aðeins flytja tillöguna að tilnefndur heiðursfélagi fallist fyrirfram á að taka kjöri.

5. gr. Verndarar

Heimilt er að velja allt að þrjá einstaklinga sem verndara félagins og skal stjórn UNWÍ ákveða það hverju sinni.

Verndari leggur sitt af mörkum til að auka sýnileika UN Women, vekja almenning til vitundar um starfsemi samtakanna og aðstoða UN Women á Íslandi við að ná til mikilsmetandi fólks í samfélaginu. Verndari tekur þátt í tilteknum viðburðum fyrir hönd UN Women á Íslandi, svo sem fjáröflunum, kynningum, ráðstefnum og öðrum tilfallandi viðburðum. Verndarar funda ásamt fulltrúum UNWÍ með stjórnvöldum, fjölmiðlum og öðrum þeim sem þurfa þykir hverju sinni félaginu til framdráttar.

6. gr. Aðalfundur

Aðalfund skal halda fyrir 1. maí ár hvert. Allir félagar UN Women á Íslandi eiga rétt á setu á aðalfundi og hefur hver félagsmaður eitt atkvæði. Aðalfundur skal boðaður með skriflegum hætti til félagsmanna með a.m.k. fjórtán daga fyrirvara. Í fundarboði skal getið dagskrár aðalfundar ásamt tillögum um lagabreytingar skv. 9. gr. ásamt öðrum fram komnum tillögum.

Á aðalfundi skal taka fyrir eftirfarandi mál:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Stjórn UNWÍ skal skýra frá viðfangsefnum félagins og rekstri þess á liðnu starfsári
 3. Rekstrar- og efnahagsreikningar UNWÍ fyrir liðið starfsár skulu kynntir og lagðir fram til samþykktar
 4. Ákvörðun um félagsgjöld fyrir starfsárið
 5. Kjör stjórnar og formanns
 6. Kjör endurskoðanda
 7. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni og tillögur sem löglega eru upp bornar

Framboði til formanns og stjórnar skal skila til skrifstofu UNWÍ fyrir kl. 12 þremur virkum dögum fyrir aðalfund. Allir félagar sem annað hvort hafa greitt félagsgjöld fyrir liðið starfsár tveimur vikum fyrir aðalfund eða greitt mánaðarlega í styrktarkerfi UNWÍ í minnst sex mánuði fyrir aðalfund geta boðið sig fram til formanns eða stjórnar og hafa jafnframt kosningarétt á aðalfundi. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum. Nú verða atkvæði jöfn og ræður þá hlutkesti úrslitum.

Fundargerð aðalfundar skal liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn eigi síðar en tíu dögum frá aðalfundardegi. Aðalfundargerðir skulu varðveittar með tryggilegum hætti.

7. gr. Stjórn
Stjórn félagsins skal skal skipuð níu stjórnarmönnum. Fjórir stjórnarmenn eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn. Formaður ungmennaráðs er níundi stjórnarmaður. Formaður stjórnar er kosinn í sérstakri kosningu á aðalfundi. Við stjórnarkjör skal tryggja að kynjahlutföll innan stjórnar séu sem jöfnust og að hlutfall hvers kyns sé ekki hærra en 60 prósent. Stjórn skal á fyrsta fundi sínum skipa varaformann og gjaldkera.

Stjórn hefur umboð til að ráða framkvæmdastýru. Aðrir starfsmenn, s.s. verkefnisstjórar, ráðgjafar o.þ.h., skulu ráðnir af stjórn eftir þörfum.
Stjórnin fer með málefni félagsins milli aðalfunda, gerir starfsáætlun, veitir prókúru fyrir félagið og skipar í starfsnefndir.

Stjórnarfundur er lögmætur ef fimm stjórnarmenn eru mættir. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Stjórn fundar að jafnaði níu sinnum á ári. Halda skal stjórnarfund krefjist einhver stjórnarmanna þess. Framkvæmdastýra UNWÍ situr alla fundi. Aðrir skulu sitja fundi stjórnar eftir þörfum.

8. gr. Framkvæmdaráð

Í framkvæmdaráði sitja formaður, varaformaður og gjaldkeri. Framkvæmdaráð starfar í umboði stjórnar og fer með málefni hennar milli stjórnarfunda. Framkvæmdaráð hefur umsjón með starfi og rekstri UNWÍ og er framkvæmdastýru fulltingis hvað varðar útfærslu og framkvæmd á verkefnum og viðfangsefnum sem ákveðin eru á stjórnarfundum. Varaformaður ber ábyrgð á ritun fundargerða framkvæmdaráðs.

Framkvæmdaráð getur með samþykki stjórnar gert tímabundna starfssamninga við ýmsa aðila um tiltekin viðfangsefni vegna starfsemi UNWÍ.

Komi upp ágreiningur innan framkvæmdaráðs skal bera hann undir stjórn svo fljótt sem auðið er.

9. gr. Framkvæmdastýra

Framkvæmdastýra er skipuð af stjórn og starfar samkvæmt þeirri stefnu sem stjórn hefur ákveðið, í umboði og á ábyrgð hennar. Framkvæmdastýra annast meðal annars daglegan rekstur og starfsemi UNWÍ. Framkvæmdastýru ber að veita stjórn og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber.

10. gr. Ungmennaráð

Ungmennaráð starfar í umboði stjórnar og framkvæmdastýra hefur umsjón með starfi þess. Ungmennaráð UN Women á Íslandi hefur það að markmiði að:

 • afla fjár til verkefna UN Women
 • kynna og auka áhuga landsmanna á starfsemi UN Women
 • vera málsvari kvenna í fátækari ríkjum heims með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti efnahags- og félagslegrar framþróunar

Ungmennaráði er skylt að fá samþykki stjórnar UN Women á Íslandi fyrir þeim verkefnum sem þau kjósa að framkvæma. Formaður stjórnar Ungmennaráðs er jafnframt stjórnarmaður UNWÍ. Mun formaður upplýsa um verkefni Ungmennaráðsins á stjórnarfundunum. Stjórn UNWÍ getur kallað eftir upplýsingum um starf Ungmennaráðsins eftir óskum.

11. gr. Fjárhagur

UNWÍ skal starfa samkvæmt fjárhagsáætlun sem samþykkt er af stjórn.

UNWÍ er fjármagnað með styrkjum og fjárframlögum frá einstaklingum, lögaðilum, stjórnvöldum og með árgjöldum félaga.

Reikningsár UNWÍ er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðandi skal kosinn á aðalfundi. Framkvæmdastýra sendir ársreikning, samþykktan af stjórn, til endurskoðanda eigi síðar en einum mánuði fyrir boðaðan aðalfund. Senda skal endurskoðaða ársreikninga til höfuðstöðva UN Women í New York.

12. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Lagabreyting telst samþykkt ef samþykki a.m.k. 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi.

Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund. Tillögur til lagabreytinga skulu sendar félagsmönnum með aðalfundarboði.

13. gr. Ákvörðun um félagsslit

Ákvörðun um félagsslit UNWÍ skal tekin á aðalfundi. Slík ákvörðun verður því aðeins gild að hún hljóti samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða aðalfundar.

Verði UNWÍ slitið skal stjórn gera upp skuldir og eignir og slíta rekstri félagsins að því loknu. Skulu eftirstandandi eignir renna til höfuðstöðva UN Women í New York.