Við neyðarástand ýmist vegna átaka eða náttúruhamfara breytist líf fólks á augabragði. Fólk missir vini og ættingja, særist líkamlega og/eða andlega, missir heimili sín og innviðir samfélagsins hrynja. Neyð hefur ólík áhrif á líf kvenna og karla og kynjamismunun á sér hræðilegar birtingarmyndir.

Í neyð eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi.

  • 1 af hverjum 5 konum á flótta hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi
  • Af öllum þeim konum sem deyja á meðgöngu eða í barnsburði, deyja 60% þeirra á átakasvæðum
  • Konur og börn eru fjórtán sinnum líklegri til að deyja við slíka neyð og stelpur eru rúmlega helmingi líklegri til að detta úr námi
  • Konum er yfirleitt haldið utan við ákvarðanatökur í neyð

Árið 2021 kom UN Women að að mannúðarverkefnum og neyðaraðstoð í meira en 40 löndum. Stofnunin starfar á vettvangi í þágu kvenna, kortleggur og gerir úttektir á þörfum kvenna og stúlkna í neyð og tryggir að tekið sé mið af þörfum kvenna við gerð viðbragðsáætlana og við veitingu neyðaraðstoðar.

Að sama skapi veitir UN Women konum og stúlkum öryggi, vernd, áfallahjálp og sálræna aðstoð í kjölfar kynbundins ofbeldis og þá aðstoð sem konum er brýnust á hverjum stað fyrir sig. UN Women dreifir sæmdarsettum til kvenna sem innihalda dömubindi og aðrar nauðsynjar sem gera konum og stúlkum kleift að halda í virðingu sína og reisn í erfiðum aðstæðum. Ávallt er tekið mið af þörfum kvenna eftir aðstæðum og er innihald sæmdarsettanna í takt við þær þarfir.

UN Women starfrækti 149 griðastaði fyrir konur og stúlkur á flótta árið 2021. Griðarstaðirnir eru reknir í samstarfi við félagasamtök á hverjum stað. Þar fá konur atvinnutækifæri, fjárstuðning, félagslega aðstoð, jafningjastuðning auk þess sem börn þeirra fá daggæslu. Þá fá konurnar einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Á griðastöðum UN Women gefst konum einnig kostur á að stunda hagnýtt nám t.d. í tungumálum, tölvukennslu, saumi, klæðskurði, hárgreiðslu sem dæmi en námsúrvalið er í takt við svæðisbundinn veruleika.

UN Women starfrækir griðastaði í Úkraínu, í Jórdaníu og víðs vegar um Afríku; í Kamerún, Nígeríu, Níger og víðar. Griðastaði fyrir Róhingjakonur er einnig að finna í Cox’s Bazar flóttamannabúðum í Bangladess sem dæmi. 

DÆMI UM VERKEFNI