1. Mæður og barnshafandi konur:

Vopnuð átök hafa gríðarlega neikvæð áhrif á líf og heilsu barnshafandi kvenna, enda margfaldast tíðni mæðra- og ungbarnadauða á stríðstímum.
Konur á átakasvæðum búa við skerta eða enga heilbrigðisþjónustu, aukið líkamlegt- og andlegt álag og fæðuskort sem allt hefur áhrif á heilsu þeirra og fóstursins.

2. Kynbundið ofbeldi:

Þó karlmenn séu líklegri til að láta lífið í átökum, eru konur líkegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi og nauðgun. Tíðni kynbundins ofbeldis margfaldast í átökum og samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunnum verða rúm 70% kvenna sem búsettar eru á átakasvæðum fyrir kynbundnu ofbeldi.
Þá eru konur á flótta sérstaklega berskjaldaðar fyrir þvinguðu vændi, m.a. til að greiða fyrir húsaskjól, mat og lyf.

3. Ákvarðanataka og sæti við borðið:

Árið 2020 voru konur aðeins 23% þeirra er tóku þátt í friðarviðræðum sem Sameinuðu þjóðirnar leiddu eða höfðu aðkomu að. Sama ár voru konur aðeins 5,2% friðargæsluliða í verkefnum Sameinuðu þjóðanna. Neyðar- og flóttamannabúðir án viðunandi gæslu eru stórhættulegar konum og börnum og auka líkur á mansali, kynbundnu ofbeldi og vændi.

4. Jaðarsettir hópar:

Átök magna upp þann ójöfnuð og þá fordóma sem eru til staðar fyrir. Jaðarsettir hópar upplifa því enn meiri fordóma, jaðarsetningu, ofbeldi og fátækt en á friðartímum. Þá eru ákveðnir hópar sérstaklega berskjaldaðir þegar átök og hamfarir eiga sér stað, þar með talið fólk með fatlanir, aldraðir, ekkjur og einstæðar mæður og fólk sem tilheyrir minnihlutahópum.

5. Grunnþarfir kvenna á flótta:

Helmingur þeirra sem eru á flótta í heiminum í dag eru konur og stúlkur. Þrátt fyrir það gleymast þarfir þeirra alltof oft þegar neyðaraðstoð er veitt í kjölfar stríðs eða hamfara.

Einfaldir hlutir á borð við staðsetningu salernis- og þvottaaðstöðu innan flóttamannabúða geta ýmist lagt líf kvenna í hættu eða bjargað lífum þeirra.

Sameiginleg salernisaðstaða eykur líkur á kynbundnu ofbeldi og það gera sameiginleg svefnrými einnig. Konur með ungbörn og börn á brjósti þurfa jafnframt afmörkuð rými til að geta sinnt börnum sínum og gefið brjóst í næði.

6. Aðgengi að upplýsingum og fræðslu:

Takmarkað aðgengi að upplýsingum getur haft gríðarlega neikvæð áhrif á líf og heilsu kvenna á flótta. Upplýsingar um öruggar leiðir burt af átakasvæðum, hvar og hvernig megi nálgast þjónustu og aðstoð og upplýsingar um stöðu mála eru nauðsynlegar svo fólk á flótta geti tekið upplýstar ákvarðanir og sótt sér þá þjónustu sem í boði er. En hvernig kemur maður upplýsingum á framfæri til kvenna á flótta, sér í lagi þeirra sem eru ólæsar?

Fræðsluvefurinn er styrktur af Utanríkisráðuneytinu