empwr

Home / / empwr

empwr

EMPWR peysan er samstarfsverkefni UN Women á Íslandi við barnafatamerkið iglo+indi og er hönnuð fyrir bæði börn og fullorðna. Hún er seld til styrktar griðarstaða sem UN Women starfrækir fyrir konur á flótta víða um heim. Empwr stendur fyrir þá valdeflingu og kraft sem konur í erfiðum aðstæðum hljóta á griðarstöðum UN Women. Peysunni hefur verið gríðarvel tekið og í bæði skiptin hefur hún selst upp á örfáum dögum. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að láta framleiða annað upplag af 2018 útgáfunni og er hún fáanleg hér.

Árið 2017 var mynstur peysunnar innblásið frá Kamerún og söluágóði rann til griðarstaða UN Women fyrir konur á flótta í Kamerún, Austur-Kongó og Írak. Auglýsingastofan Pipar\TBWA og _DÓTTIR gáfu vinnu sína við undirbúning átaksins. Auk þess lánaði hljómsveitin East of my Youth átakinu lagið Stronger.

Árið 2018 var peysan pastelbleik og allur ágóði rann til neyðarathvarfs UN Women fyrir Róhingjakonur á flótta í Bangladess. Sem áður gáfu iglo+indi og auglýsingastofan Pipar/TBWA alla sína vinnu við átakið auk Elísabetar Davíðsdóttur sem tók myndir herferðarinnar og Kötlu Sólnes sem leikstýrði myndbandi átaksins.

empwr myndband 2017
empwr myndband 2018

Konur á flótta

  • Í neyð eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi
  • Ein af hverjum fimm konum á flótta hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi
  • Af öllum þeim konum sem deyja á meðgöngu eða af barnsburði deyja 60% þeirra á átakasvæðum
  • Konur og börn eru fjórtán sinnum líklegri til að deyja við slíka neyð og stelpur eru rúmlega helmingi líklegri til að flosna upp úr námi
  • Konum er yfirleitt haldið utan við ákvarðanatökur í neyð
  • Konur í flóttamannabúðum þora gjarnan ekki út úr skýlum sínum til að nota salernis- og baðaðstöðu, hitta annað fólk eða taka þátt í samfélaginu.

UN Women starfrækir griðarstaði og neyðarathvörf þar sem konur fá áfallahjálp, öruggt skjól og atvinnutækifæri. Auk þess dreifir UN Women sæmdarsettum til kvenna í búðunum sem innihalda helstu hreinlætisvörur, teppi, vasaljós og vistvæn kol til matseldar og upphitunar.

Hægt er að taka virkan þátt í að styðja við konur í neyð með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili samtakanna.

empwr herferð 2017-2018

Related Projects