fbpx

Milljarður rís

Heim / / Milljarður rís

Milljarður rís

Milljarður rís er dansbylting gegn kynbundnu ofbeldi á vegum UN Women sem hefur verið haldin árlega frá árinu 2012 á Íslandi. Viðburðurinn er einn sá stærsti í heimi en hann gengur út á það að sameina fólk í yfir 200 löndum í dansi til höfuðs hugrakkra kvenna um allan heim sem berjast gegn óréttlæti, mótlæti, misbeitingu og ofbeldi í daglegu lífi. Á Íslandi er Milljarður rís haldinn í samstarfi við DJ Margeir og tónlistarhúsið Hörpu. Þau gefa vinnu sína og aðstöðu í þágu málstaðarins.

Milljarður rís 2016

Frá upphafi hafa tugir þúsunda Íslendinga um allt land komið saman í hádeginu og látið dansgólf landsins hristast undan samtakamættinum. Landsnefndin hefur skorað á skóla, fyrirtæki og stofnanir að fjölmenna í Hörpu og er áskoruninni ávallt vel tekið. Nemendur á öllum skólastigum hafa mætt dansandi og ýmiss fyrirtæki og stofnanir hafa jafnvel ferjað starfsfólk sitt með rútu svo það geti tekið þátt í byltingunni. Margir frábærir tónlistarmenn og konur hafa lagt viðburðinum lið með því að koma fram og trylla lýðinn. Þá hafa viðstaddir látið til sín taka á samfélagsmiðlunum undir myllumerkinu #milljarðurrís og #fokkofbeldi.

Milljarður rís er magnaður viðburður þar sem við mætum ofbeldi með samstöðu, baráttuanda og gleði.

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi

  • Á hverjum degi upplifa konur kynbundið ofbeldi á borð við netníð, kynferðislega áreitni, heimilisofbeldi og mansal
  • 60% þeirra morða sem framin voru á Íslandi frá árinu 2003 voru heimilisofbeldismál
  • 750 milljónir núlifandi kvenna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur
  • Um 120 milljónir núlifandi stúlkna hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi
  • Rúmlega þriðjungur kvenna í heiminum hafa einhvern tímann á lífsleiðinni verið beittar kynbundnu ofbeldi

Hægt er að styðja við við starf UN Women í þágu þolenda kynferðisofbeldis um allan heim með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili samtakanna.

Milljarður rís 2019

Myndir: Berglaug Petra Garðarsdóttir

Related Projects