Ólíkir en sammála um kynjajafnrétti

Home / / Ólíkir en sammála um kynjajafnrétti

Ólíkir en sammála um kynjajafnrétti

HeForShe átakinu Ólíkir en sammála um kynjajafnrétti var hleypt af stokkunum í maí 2015. Herferðin samanstóð af sex myndböndum þar sem þekktir íslenskir karlmenn mættust í forvitnilegum aðstæðum. Markmiðið með herferðinni var að vekja karlmenn til umhugsunar um kynjajafnrétti og hvetja þá til þess að gerast mánaðarlegir styrktaraðilar. Á þessum tíma hafði nýleg rannsókn á vegum UN Women leitt í ljós að jafnrétti verður fyrst náð árið 2095 ef við höldum áfram á sömu braut á sama hraða. Með stuðningi stráka og karlmanna er talið að jafnrétti muni nást helmingi fyrr eða árið 2030.

 

Konur hafa hingað til verið stór meirihluti styrktaraðila UN Women á Íslandi. Því vildum við hvetja karlmenn og stráka sérstaklega til að skrá sig. Þegar þú styrkir UN Women hefur þú raunveruleg áhrif á líf milljóna kvenna og stúlkna í fátækustu löndum heims. Mánaðarlegt framlag þitt rennur til verkefna sem stuðla að því að auka mannréttindi kvenna, ýta undir efnahagslega og pólitíska valdeflingu þeirra og uppræta kynbundið ofbeldi í fátækustu löndum heims. UN Women stendur einnig fyrir verkefnum sem felast í því að stuðla að sterkari löggjöf og stefnumótun hvað varðar réttindi og líf kvenna, forvarnaverkefni eins og fræðslu fyrir unga drengi um kynjajafnrétti og bæta aðgengi kvenna að viðeigandi þjónustu, sé brotið á þeim.

Herferðin var unnin af Dögg Mósesdóttur og styrkt af Landsbankanum.

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi

  • Á hverjum degi upplifa konur kynbundið ofbeldi á borð við netníð, kynferðislega áreitni, heimilisofbeldi og mansal
  • 60% þeirra morða sem framin voru á Íslandi frá árinu 2003 voru heimilisofbeldismál
  • 750 milljónir núlifandi kvenna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur
  • Um 120 milljónir núlifandi stúlkna hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi
  • Rúmlega þriðjungur kvenna í heiminum hafa einhvern tímann á lífsleiðinni verið beittar kynbundnu ofbeldi

Hægt er að styðja við starf UN Women í þágu kvenna um allan heim með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili samtakanna.

Related Projects