fbpx

Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur

Heim / / Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur

UN Women á Íslandi frumsýndi haustið 2018 herferðina Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur. Burðarefni herferðarinnar var myndband þar sem karlmenn voru hvattir sérstaklega til að beita sér gegn ofbeldi gegn konum. Þá voru þeir einnig hvattir til að fordæma kynbundið ofbeldi með undirskrift á unwomen.is

Í myndbandinu komu fram tólf karlmenn ásamt hugrakkri konu sem lánaði átakanlega sögu sína af grófu ofbeldi sem hún var beitt. Karlmennirnir mættu í stúdíó til að leggja átakinu lið með því að lesa upp frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi frá ólíkum löndum. Sögur kvennanna komu frá Víetnam, Úsbekistan, Gambíu, Mjanmar og Íslandi. Það sem þeir ekki vissu var að ein kvennanna yrði á staðnum. Í upphafi átaksins kaus hún að koma ekki fram undir nafni en steig síðar fram í viðtali við Stundina. Í kjölfarið leiddi hún Ljósagöngu UN Women sama ár.

Við hjá UN Women á Íslandi ákváðum að fara vísvitandi ögrandi leið til að hreyfa við karlmönnum í þeirri von að þeir myndu setja sig í spor þolenda. Konur hafa fyrst og fremst rutt brautina og leitt baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi hingað til. #MeToo byltingin sannaði að það er ekki nóg. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi er ekki einkamál kvenna.

Myndbandið fór eins og eldur í sinu um internetið og hreyfði við mörgum. Yfir 300.000 manns horfðu á myndbandið á samfélagsmiðlum og ferðaðist hróður þess út fyrir landsteinana. Þúsundir skrifuðu í kjölfarið undir yfirlýsingu þar sem þau fordæmdu kynbundið ofbeldi.

Verðlaun og viðurkenningar

Herferðin hlaut fjölda verðlauna og tilnefninga, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

  • Verðlaun í flokki almannaheillaauglýsinga á Lúðrinum 2019
  • Verðlaun í flokki herferða á FÍT-verðlaununum 2019
  • Gullverðlaun á Clio awards 2019
  • Silfurverðlaun á Cresta Awards 2019
  • Tilnefning til Glerljóns í Cannes 2019
  • Tilnefning hjá ADC*E – Art Directors Club of Europe 2019

Pipar\TBWA sá um framleiðslu herferðarinnar í samstarfi við UN Women á Íslandi.

TAKTU ÞÁTT

750 milljónir núlifandi kvenna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur. Um 120 milljónir núlifandi stúlkna hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Rúmlega þriðjungur kvenna í heiminum hafa einhvern tímann á lífsleiðinni verið beittar kynbundnu ofbeldi.

Taktu þátt í að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum með því að gerast ljósberi UN Women.

Related Projects