Kynjajafnrétti er keppnis

Home / / Kynjajafnrétti er keppnis

Kynjajafnrétti er keppnis

UN Women á Íslandi og Domino’s deildin sameinuðu krafta sína í HeForShe átakinu Kynjajafnrétti er keppnis í apríl 2015. Burðarefni átaksins var myndband þar sem helstu stjörnur Domino’s-deildar karla voru fengnir í stúdíó til að taka upp auglýsingu fyrir Domino’s deildina. Þegar þeir mættu voru þeir beðnir um að lesa upp setningar sem voru niðrandi í garð körfuboltaiðkunar kvenna. Leikmennirnir slógu í gegn þar sem þeir neituðu að verða við þeirri beiðni eða hlógu að textanum.

Þegar ákveðið var að ráðast í gerð herferðarinnar hafði nýlega verið gerð rannsókn á vegum UN Women á stöðu og þróun jafnréttismála. Rannsókn sú leiddi í ljós að kynjajafnrétti í heiminum yrði ekki náð fyrr en árið 2095 ef við héldum áfram á sömu braut á sama hraða. Til að greiða leiðina að kynjajafnrétti þurfa karlmenn og strákar að taka virkan þátt í baráttunni. HeForShe miðar að því að vekja karlmenn til umhugsunar um hvernig þeir geta lagt baráttunni fyrir kynjajafnrétti lið.

Það hefur verið margsannað að íþróttaiðkun brýtur niður staðlaðar hugmyndir um kynin, eykur sjálfstraust og ýtir undir leiðtogahæfni. Fyrir vikið vorum við sérstaklega ánægðar með þetta frábæra samstarf. Árangur myndbandsins lét ekki á sér leyna en átta dögum eftir frumsýningu þess voru skráningar komnar vel yfir 3.000. Þá höfðu yfir 155 þúsund manns horft á myndbandið á Facebook og yfir 1.400 manns deilt því. Allir helstu fjölmiðlar landsins fjölluðu einnig um myndbandið og herferðin var tilnefnd til verðlauna á Lúðrinum – Íslensku auglýsingaverðlaununum 2015.

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi

  • Á hverjum degi upplifa konur kynbundið ofbeldi á borð við netníð, kynferðislega áreitni, heimilisofbeldi og mansal
  • 60% þeirra morða sem framin voru á Íslandi frá árinu 2003 voru heimilisofbeldismál
  • 750 milljónir núlifandi kvenna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur
  • Um 120 milljónir núlifandi stúlkna hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi
  • Rúmlega þriðjungur kvenna í heiminum hafa einhvern tímann á lífsleiðinni verið beittar kynbundnu ofbeldi

Hægt er að styðja við starf UN Women í þágu kvenna um allan heim með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili samtakanna.

 

Related Projects