Barnabrúðir

Home / / Barnabrúðir

Afnám ofbeldis gegn stúlkubörnum var helsta áhersluatriði Styrktarsjóðs UN Women árið 2013. Í tilefni af því hrinti íslenska landsnefndin af stað átaki vorið 2013 til að vekja fólk til vitundar um eina algengustu og alvarlegustu birtingarmynd ofbeldis gegn stúlkum; þvinguð hjónabönd. Til að draga fram alvarleika vandans voru þvinguð barnahjónabönd sett í samhengi við fermingar í sláandi ljósmyndaseríu. Rannsóknir sýna að meðalaldur barnabrúða er víða aðeins 14 ára, sá sami og meðalaldur fermingarbarna á Íslandi.

Barnabrúðkaup og þvinguð hjónabönd eru alvarleg birtingamynd ofbeldis gegn konum og stúlkum. Yfir 67 milljónir stúlkna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur þrátt fyrir að hjúskaparlög kveði á um lágmarksaldur. Stundum eru þær svo ungar að þær ríghalda í leikföngin sín á meðan athöfninni stendur. Að gefa ungar stúlkur í hjónabönd hefur víðtæk áhrif á samfélagið í heilsufarslegu-, efnahagslegu- og félagslegu tilliti. Fæstar giftar stúlkur fá tækifæri til að ljúka námi sem leiðir til skertra atvinnutækifæra og möguleika á efnahagslegu sjálfstæði. Gríðarlegur valdamunur milli stúlkunnar og eiginmannsins veldur því að þær verða oft þrælar eiginmannsins og stundum allrar tengdafjölskyldunnar. Þessi óhugnanlegi siður viðheldur fátækt og ofbeldi.

Segja má að stríð sé háð gegn stúlkum. Helsta dánarorsök allra stúlkna í fátækustu löndum heims á aldrinum 15 til 18 ára eru erfiðleikar á meðgöngu eða við fæðingu. Víða er krafa á ungum eiginkonum um að eignast börn áður en að líkamar þeirra eru fullþroskaðir. Einnig er aukin hætta á HIV smiti og öðrum kynsjúkdómum þar sem ung brúður er ekki í aðstöðu til að mótmæla eiginmanni sínum.

Staðreyndir um þvinguð barnahjónabönd

  • 37.000 stúlkur undir 18 ára aldri eru giftar
  • Aldrei hafa jafn margar stúlkur verið berskjaldaðar fyrir því að vera gefnar í hjónaband og nú
  • 1 af hverjum 3 stúlkum í þróunarlöndum er gift fyrir 18 ára aldur
  • 1 af hverjum 9 er gift fyrir 15 ára aldur
  • Með þessu áframhaldi verða um 140 milljónir stúlkna giftar fyrir 18 ára aldur á næsta áratug
  • Um 400 milljónir kvenna á aldrinum 20-49 hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur
  • Stúlkur yngri en 15 ára eru 5x líklegri til að deyja við fæðingu en konur um tvítugt
  • Börn þessara ungu mæðra eru 60% líklegri til að deyja á fyrsta árinu sínu en börn mæðra sem hafa náð 19 ára aldri
Related Projects