fbpx

Gaza: UN Women og Rauði hálfmáninn í Egyptalandi veita konum og börnum á Gaza mannúðaraðstoð

Heim / Fréttir / Gaza: UN Women og Rauði hálfmáninn í Egyptalandi veita konum og börnum á Gaza mannúðaraðstoð

UN Women í Egyptalandi hefur í samstarfi við Rauða hálfmánann í Egyptalandi veitt palestínskum konum og börnum á Gaza nauðsynlega mannúðaraðstoð í formi sjö þúsund neyðarpakka. Níu vörubíla lest fór á dögunum inn á Gazasvæðið með pakka sem innihéldu vörur til að mæta þörfum kvenna og barna.

UN Women teymið fer yfir sendinguna sem samanstendur af neyðarpökkum handa konum og börnum á Gaza. Mynd: UN Women/Menna Negeda

„Samkvæmt neyðarákalli Sameinuðu þjóðanna (e. UN Flash Appeal) fyrir hernumdu landsvæði Palestínu (OPT) hefur UN Women átt í samstarfi við Rauða hálfmánann í Egyptalandi um að styðja við konur á Gaza. Aðgerðirnar eru í samráði við skrifstofur okkar í OPT,“ sagði Christine Arab, landsfulltrúi UN Women í Egyptalandi. „UN Women hrósar egypska kvennaráðinu og palestínska kvennamálaráðuneytinu fyrir öflugan málflutning þeirra gagnvart alþjóðasamfélaginu, um þarfir kvenna og stúlkna á Gaza.“

Síðan 7. október 2023 hefur meira en 1,9 milljónir fólks – eða 85 prósent af heildaríbúum Gaza- verið á flótta[2] og áætlar UN Women að næstum ein milljón þeirra séu konur og stúlkur. Þá benda nýlegar tölur til þess að 70 prósent þess Palestínufólks sem hefur verið drepið hafi verið konur og börn og að tvær mæður séu drepnar á klukkutíma fresti á Gaza. Stríðið á Gaza hefur sett palestínskar konur og stúlkur í hræðilegar aðstæður, án aðgangs að fullnægjandi mat, vatni, hreinlætisvörum og hreinlætisaðstöðu. Þessar aðstæður hafa haft gríðarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu þeirra og reisn.

Þar sem stríðið á Gaza heldur áfram og þörfin fyrir tafarlausa mannúðaraðstoð eykst, er UN Women að innleiða fjölþætta viðbragðsáætlun til 6 mánaða. Þar er lögð áhersla á tafarlausa veitingu mannúðaraðstoðar sem og stuðning við að efla samhæfingu aðgerða á vettvangi til að bregðast við brýnum þörfum kvenna og stúlkna.

UN Women er einnig í samstarfi við samtök undir forystu kvenna til að veita kvenmiðaða þjónustu og til að takast á við mismunandi áskoranir sem konur og stúlkur standa frammi fyrir, þar á meðal hvað varðar vernd og vellíðan.

UN Women heldur áfram að krefjast mannúðarvopnahlés tafarlaust og að allt kapp verði lagt á að tryggja konum og stúlkum vernd, ásamt öruggum og óhindruðum aðgangi að kvenmiðaðri neyðaraðstoð án tafar.

 

Neyðin er gríðarleg – þú getur lagt þitt af mörkum!

UN Women hefur starfað í Palestínu frá árinu 1997 og starfrækt þar ýmis verkefni í þágu kvenna og stúlkna. Við erum á vettvangi og munum áfram veita mikilvægan stuðning og aðstoð.

UN Women á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun fyrir konur á Gaza og fjölskyldur þeirra sem búa við gríðarlega erfiðar aðstæður. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að:

  • Kaupa mömmupakka eða neyðarpakka í gjafaversluninni okkar 
  • Sendu sms-ið KONUR í númerið 1900*
  • Leggðu til frjáls framlög í gegnum AUR í númerið 123-839-0700
  • Leggðu til frjáls framlög í banka:
    • 0537–26–55505
    • 551090-2489

(*hvert sms kostar 2.900 kr – gildir aðeins hjá Símanum, Hringdu og Nova). 

 

 

[2] OCHA, Hostilities in the Gaza Strip and Israel, Flash Update #96, 18 January 2024

Related Posts
Internally displaced women are seen receiving hygiene kits from a volunteer at a shelter in Port Sudan. Photo: Awoon Organization.