fbpx

Jón Jónsson tekur sæti í stjórn UN Women á Íslandi

Heim / Fréttir / Jón Jónsson tekur sæti í stjórn UN Women á Íslandi

Stjórn UN Women á Íslandi árið 2024. Á myndina vantar Sævar Helga Bragason og Fidu Abu Libdeh.

Aðalfundur UN Women á Íslandi fór fram í gær, miðvikudaginn 17. apríl. Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson tók sæti í stjórn samtakanna.

Aðalfundur UN Women á Íslandi fór fram þann 17. apríl í Mannréttindahúsinu við Sigtún 42. Ólafur Stephensen gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eftir fjögurra ára setu og tók Jón Ragnar Jónsson sæti í stjórn í hans stað.

Það er mikill heiður að fá að taka þátt í stjórn svona sterkra samtaka og ég sem faðir, eiginmaður, sonur og bróðir er spenntur fyrir því að láta gott af mér leiða í jafnréttismálum kvenna og stúlkna um allan heim,“ segir Jón Ragnar Jónsson, nýr stjórnarmaður UN Women á Íslandi.

UN Women á Íslandi er þakklát fyrir að Jón Ragnar hafi verið tilbúinn að koma í okkar raðir. Sem fyrirmynd, einarður stuðningsmaður jafnréttismála, og með þekkingu og reynslu í fjármálum sjáum við fyrir okkur að geta nýtt krafta hans vítt og breitt í okkar starfi. Við hlökkum mikið til samstarfsins og horfum fram á ótrúlega spennandi tíma í okkar starfi“ segir Anna Steinsen, formaður stjórnar UN Women á Íslandi.

UN Women á Íslandi með hæsta framlagið áttunda árið

Að loknum aðalfundi er stjórn UN Women á Íslandi nú skipuð: Önnu Steinsen, formanni, Ólafi Elínarsyni, varaformanni, Árna Matthíassyni, Áslaugu Evu Björnsdóttur, Jóni Ragnari Jónssyni, Fidu Abu Libdeh, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Maríu Rún Bjarnadóttur, Sævari Helga Bragasyni og Védísi Drótt Cortez, sem er fulltrúi ungmennaráðs UN Women á Íslandi.

Framlag UN Women á Íslandi til alþjóðlegra verkefna UN Women fyrir árið 2023 nam tæplega 149 m.kr. Framlögin gerðu UN Women kleift að styðja við verkefni sem voru hvað mest aðkallandi á árinu í gegnum kjarnasjóð UN Women. Þetta er áttunda árið í röð sem UN Women á Íslandi sendir hæsta fjárframlag allra landsnefnda UN Women í kjarnasjóð UN Women, óháð höfðatölu. Landsnefndin er jafnframt stærsti framlagsaðili í kjarnasjóð UN Women á eftir aðildarríkjunum sjálfum.

Mánaðarlegir styrktaraðilar UN Women á Íslandi, Ljósberar, voru sem fyrr hjarta og hryggjarstykki íslensku landsnefndarinnar. Langstærsti hluti framlaga UN Women á Íslandi til verkefna UN Women á heimsvísu kom frá Ljósberum, eða um 80%.

Related Posts