fbpx

Konur á Gaza búa við óhugsandi aðstæður

Heim / Fréttir / Konur á Gaza búa við óhugsandi aðstæður

Gengið frá sæmdarsettum í samstarfi við Rauða hálfmánann í Egyptalandi.

Sex mánuðum frá upphafi stríðsins á Gaza, er enginn staður öruggur þar. Konur hafa ekki aðgang að lyfjum, heilbrigðisþjónustu, vatni eða skjóli og tilfellum þar sem konur og börn hafa soltið til dauða fjölgar. Dag hvern standa konur á Gaza og fjölskyldur þeirra frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun um hvort þau eigi að færa sig um set og þá hvert þau gætu flúið. Enginn er öruggur á Gaza á meðan ekki verður komið á tafarlausu vopnahléi.  

Með þínum stuðningi hefur UN Women getað brugðist við þörfum kvenna og stúlkna á Gaza. Á meðal þess sem konur óskuðu eftir, fyrir utan matvæli og vatn, voru alhliða neyðarpakkar fyrir mæður og börn, sem innihéldu vetrarfatnað og ungbarnavörur á borð við þurrmjólk og bleyjur. Í samstarfi við átta palestínsk kvennasamtök og Rauða hálfmánann í Egyptalandi gat UN Women einnig deilt út 7.803 sæmdarsettum (tíðar- og hreinlætisvörur). UN Women hefur einnig getað veitt 10.040 konum á Gaza og 813 konum á Vesturbakkanum sálræna aðstoð og áfallahjálp. Í heildina hefur UN Women náð til tæplega 100.000 kvenna og fjölskyldna þeirra með ýmsar nauðsynjar en tugþúsundir neyðarpakka í viðbót hafa beðið í margar vikur við landamærin eftir því að komast á leiðarenda. 

 

Hver er staðan?

UN Women á Gaza birti í dag nýja skýrslu um stöðuna á svæðinu en þessar reglulegu skýrslur veita ítarlega greiningu á hryllilegum raunveruleika kvenna og stúlkna á Gaza. Skýrslan ber heitið „Skortur og ótti“ (e. Scarcity and Fear) og fjallar sérstaklega um skort á aðgengi að vatni, hreinlætisaðstöðu og hreinlætisvörum (e. Water, sanitation and hygiene  – WASH), en allt eru það lífsnauðsynlegir þættir fyrir heilsu kvenna, reisn, öryggi og friðhelgi einkalífs þeirra. 

Innihald neyðarpakka sem UN Women í Jórdaníu dreifði til kvenna og stúlkna á Gaza

Frá upphafi stríðsins hafa meira en 33.000 verið drepin í árásum Ísraelshers, sem eira engu. Um 19.000 munaðarlaus börn syrgja mæður sínar og feður samhliða því að þurfa að upplifa dagleg átök, hungur og áföll. Meira en milljón einstaklingar eru á barmi hungursneyðar og er staðan einna verst í norðurhluta Gaza.  

 Meira en 10.000 konur hafa verið drepnar, þar á meðal um 6000 mæður. Þær sem hafa lifað árásirnar af hafa þurft að leggja á flótta, misst maka sinn og horfast nú í augu við að svelta til dauða. Þessar og fleiri staðreyndir gera það að verkum að áfram er stríðið á Gaza stríð gegn konum.  

Neyðin heldur áfram að vaxa og því skiptir gríðarlegu máli að alþjóðasamfélagið missi ekki þróttinn heldur haldi áfram að kalla eftir tafarlausu vopnahléi, lausn allra gísla og því að neyðaraðstoð fái að berast óhindrað inn á svæðið. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 2728 (2024) sem samþykkt var 25. mars 2024, krefst þess og tekur UN Women undir þá kröfu. Þá verða konur og stúlkur að vera kjarninn í sameiginlegum neyðarviðbrögðum okkar, eins og niðurstöður nýafstaðins Kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna (CSW68) kveða á um.  

 

  • Meira en 690.000 konur og stúlkur þurfa 10 milljónir dömubinda til að geta viðhaldið hreinlæti og virðingu sinni þegar þær eru á blæðingum.  
  • Í sumum tjaldbúðum sem komið hefur verið upp er aðeins eitt salerni sem 650 einstaklingar deila sín á milli. 
  • Meira en milljón kvenna og stúlkna á Gaza hafa ekki aðgengi að hreinu neysluvatni, salernisaðstöðu eða hreinlætisvörum. Aðgengi að hreinu vatni er sérstaklega mikilvægt barnshafandi konum og konum sem eru með barn á brjósti þar sem þær þurfa á meiri vökva og næringu að halda.  
  • 1 af hverjum fimm konum sem UN Women ræddi við á Gaza segja að minnsta kosti einn fjölskyldumeðlimur hafi þurft að neita sér um mat í síðastliðinni viku. Í 95% tilfella er það móðirin sem neitar sér um mat. 
  • 1 milljón kvenna og stúlkna eru á vergangi vegna stríðsins. Flestar hafa leitað skjóls í Rafah, svæði sem Ísraelsher hefur ítrekað sagst ætla að ráðast á.  

 

Neyðin á Gaza heldur áfram að vaxa

UN Women hefur starfað í Palestínu frá árinu 1997 og starfrækt þar ýmis verkefni í þágu kvenna og stúlkna. Við erum á vettvangi og munum áfram veita mikilvægan stuðning og aðstoð í samstarfi við palestínsk kvennasamtök og aðra samstarfsaðila innan mannúðarkerfisins.  

Þú getur stutt áfram við konur og stúlkur á Gaza með stökum styrk, með AUR í númerið 123-839-0700 eða með því að senda sms-ið KONUR í númerið 1900 (2.900 krónur – virkar ekki fyrir þau hjá Vodafone).

Related Posts