fbpx

Súdanskar konur lýsa skelfilegu ofbeldi

Heim / Fréttir / Súdanskar konur lýsa skelfilegu ofbeldi

Nauðgunum hefur verið beitt sem vopni í átökunum sem ríkja í Súdan. UNICEF/Mohamed Zakaria

Rúmt ár er frá upphafi blóðugra átaka í Súdan, þar sem Súdansher (SAF) og Rapid Support Forces (RSF) berjast um völdin. Milljónir eru á flótta í landinu (e. Internally displaced people), 70% þeirra eru konur og börn, og meira en 24 milljónir eru í mjög brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð. Sífellt fleiri búa við langvarandi matarskort og hafa alþjóðlegar mannúðarstofnanir lýst ástandinu í Súdan sem einni stærstu mannúðarkrísu heims.  

Fregnum um að stríðandi fylkingar beiti nauðgunum sem stríðsvopni heldur áfram að fjölga og hefur UN Women ítrekað kallað eftir því að slík brot verði rannsökuð og að gerendur verði sóttir til saka.  

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna telur að frá því í desember 2023 hafi að minnsta kosti 118 einstaklingar, þar af 19 börn, verið beitt kynferðisofbeldi í stríðinu í Súdan, þar á meðal nauðgunum, hópnauðgunum og tilraunum til nauðgunar. Talið er að tilfellin séu í reynd umtalsvert fleiri þar sem þolendur treysti sér ýmist ekki til að tilkynna ofbeldið af ótta við útskúfun og hefndaraðgerðir, engar tilkynningaleiðir eru til staðar því innviði skortir og mikið vantraust er til yfirvalda.  

 

“Þeir voru í húsinu í fjóra daga” 

Amna Salih* er 18 ára súdönsk stúlka sem lýsir skelfilegu ofbeldi sem hún varð fyrir á heimili sínu. 

„Ég opnaði dyrnar skjálfandi og fyrir utan stóðu nokkrir hermenn. Þeir komu inn og þegar þeir áttuðu sig á því að ég var ein nauðguðu þeir mér hver á eftir öðrum, á meðan beindu þeir að mér byssu. Þeir voru í húsinu mínu í fjóra daga og gerðu þetta á hverjum degi.” 

Þegar hermennirnir yfirgáfu heimilið flúði Salih, með hjálp nágranna síns, til vinkonu sinnar sem bjó í öruggari hluta borgarinnar. 

„Ég þorði aðeins að treysta annarri vinkonu sem bjó utan Súdan fyrir því sem hafði komið fyrir mig. Hún sendi mér peninga og ráðlagði mér að yfirgefa borgina sem fyrst,“ sagði Salih. Hún flúði og var á vergangi þar til hún komst til búða fyrir fólk á flótta undan átökunum. 

Nokkrum mánuðum eftir komuna í flóttamannabúðirnar varð Salih fyrir öðru áfalli – þegar hún komst að því að hún væri barnshafandi. 

„Þetta hefur í raun verið mikil barátta. Að vera ólétt í flóttamannabúðum án viðeigandi læknishjálpar og almennilegrar næringar.“

 

Lestu meira: Í stríði deyja konur ekki endilega vegna sprenginga

 

Mikilvæg þjónusta fyrir konur á flótta 

UN Women í Súdan hefur stutt fjárhagslega við félagasamtökin SORD í Kassala-fylki og kvenréttindasamtökin AWOON í Port Súdan. Bæði þessi félagasamtök styðja við súdanskar konur á flótta. Þá sérstaklega konur sem eru í viðkvæmri stöðu og hafa verið beittar kynbundnu ofbeldi. 

Nú ári eftir að stríðið hófst hefur eitt af mikilvægustu verkefnum SORD verið að styðja við barnshafandi konur og stúlkur, sem margar hverjar urðu þungaðar vegna kynferðisofbeldis. 

Samkvæmt Nahid Ahmed, sérfræðingi í sálrænum stuðningi hjá AWOON, hafa  samtökinunnið mikið með þolendum kynferðisofbeldis. 

„Við fylgjumst grannt með tilfellum kynferðisofbeldis, þó að margar konur vilji ekki tala um reynslu sína,“ sagði Ahmed. „Þær þurfa á miklum sálrænum stuðningi að halda, nokkuð sem við bjóðum upp á, og lyf þar sem þörf er á.“ 

AWOON og UN Women í Súdan hafa komið á laggirnar sex þjónustumiðstöðvum fyrir konur (e. Women Situation Rooms) þar sem þær hafa aðgang að fjölþættri þjónustu. Þar fá barnshafandi konur aðgang að fæðingarhjálp þegar heilbrigðisstarfsfólks nýtur ekki við, ásamt því að fá skjól, mat og vatn. 

„Við höfum vísað þeim áfram á fæðingardeildir og kvensjúkdómadeildir og fylgjumst vel með þeim,“ sagði Ahmed og bætti við að AWOON hafi unnið að því að styðja við geðheilsu barnshafandi kvenna sem eru þolendur kynferðisofbeldis.

 

Veita sálræna aðstoð til þolenda

WSR-miðstöðvarnar veita mannúðarstofnunum einnig tækifæri til að tengjast innbyrðis, fá aðgang að og deila upplýsingum og eru eins konar dreifingarstaðir fyrir vörur og þjónustu. Nefndir hjá WSR samræma brottflutning óbreyttra borgara frá svæðum þar sem virk átök geisa, gera við rafkerfi til að koma rafmagni á heilbrigðisstofnanir og vinna að fjölskyldusameiningu fólks á flótta.  

Samkvæmt samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) er talið að meira en 4 milljónir einstaklingar séu þolendur kynferðisofbeldis í Súdan. Búist er við að fjöldi fólks sem þarfnast aðstoðar vegna kynferðisofbeldis verði 6,9 milljónir árið 2024. 

SORD samtökin reka miðstöð í Kassala og skrásetja kynbundið ofbeldi sem tengist átökunum.  Það er hér þar sem Salih og yfir 60 aðrir þolendur kynbundins ofbeldis sækja sálfræðitíma með meðferðaraðilum. 

Á síðustu mánuðum meðgöngunnar fékk Salih skjól hjá fjölskyldu sem annaðist hana áður en barnið fæddist. Eftir að hún fæddi barn sitt neitaði Salih að koma því í fóstur, vegna þess að hún átti sjálf erfiða æsku, hafði verið ættleidd og beitt kynferðisofbeldi. „Ég vil ekki að barnið mitt gangi í gegnum það sama,“ sagði hún og bætti við að hún vildi sjá barnið sitt á hverjum degi. 

*Nafni Salih hefur verið breytt til að vernda öryggi hennar. 

Related Posts