fbpx

Í stríði deyja konur ekki endilega vegna sprenginga

Heim / Fréttir / Í stríði deyja konur ekki endilega vegna sprenginga

Hanin Ahmed (vinstri) og Shaza Bala Elmahdi (hægri) á hliðarviðburði CSW68

Eitt ár er liðið frá upphafi blóðugra átaka í Súdan sem hrakið hafa meira en 8 milljónir á flótta frá heimilum sínum. Alþjóðlegar mannúðarstofnanir hafa lýst ástandinu í Súdan sem einni stærstu mannúðarkrísu heimsins. Meira en 24 milljónir eru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð og sífellt fleiri búa við viðvarandi matarskort.

„Á síðustu 20 árum hafa sífellt fleiri súdanskar konur verið þjálfaðar í samningatækni og sáttamiðlun. Ekki vegna þess að þær hafi sérstakan áhuga á málefninu – heldur vegna þess að landið hefur glímt við svo margar krísur,“ útskýrir Shaza Bala Elmahdi, framkvæmdastýra landsskrifstofu Center for International Private Enterprise (CIPE) í Súdan.

Hún segir kvenrekin félagasamtök hafa tekið þátt í sáttamiðlunarviðræðum á tímum stríðsins við Suður-Súdan og í Darfúr sem og í átökunum sem nú geisa. En samkvæmt Elmahdi taka konur helst þátt í samningaviðræðum í nærsamfélögum sínum, en enn skortir vilja til þess að hleypa konum að borðinu þegar kemur að viðræðum í efstu lögum samfélagsins.

 

Enginn vill hleypa konum að

„Við höfum allar þessar rannsóknir sem sýna fram á að ef konur taka þátt í friðarsamningum, eru meiri líkur á að friði verði komið á til langframa. En hér er þetta virt að vettugi. Það vill enginn hleypa konum að samningaborðinu,“ segir hún.

Hanin Ahmed tekur undir orð Elmahdi. Ahmed er ungur aktívisti sem hefur veitt neyðaraðstoð til fólks í borginni Omdurman. Hún segir að konum hafi verið haldið frá öllum samtölum um mannúðaraðstoð inn á svæðið. Mannúðaraðstoð og flutningar á sæmdarsettum handa konum hefur ítrekað verið meinaður aðgangur að svæðinu af stríðandi fylkingum og súdanskar konur búa við aukið kynbundið ofbeldi og takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

„Þessa stundina horfum við fram á hungursneyð og kynbundið ofbeldi hefur aukist. Þolendur þora ekki að tilkynna ofbeldið af ótta við að verða nauðgað aftur,“ útskýrir hún.

 

Fyrst þarf að uppfylla grunnþarfir kvenna

UN Women í Súdan hefur unnið náið með grasrótarfélögum í landinu svo hægt sé að veita súdönskum konum neyðaraðstoð og nauðsynlega þjónustu. En neyðin vex hraðar en geta mannúðarstofnana til að bregðast við.

„Súdanskar konur eru mjög þrautseigar og hafa í áratugi barist fyrir friði og lýðræði. Þær berjast fyrir því að fá að lifa lífi án kynbundins ofbeldis,“ segir Adjaratou Ndiaye, sem starfar hjá UN Women í Súdan. „Þær hafa ítrekað kallað eftir því að lýðræði verði aftur komið á í landinu og það er mjög mikilvægt að það sé undirstrikað.“

„Barnshafandi konur hafa ekki aðgang að sjúkrahúsum til að fæða börn sín. Spítalar eru án kæla svo ekki er hægt að geyma blóð fyrir neyðartilfelli og fleiri konur deyja í kjölfar fæðingar. Á tímum stríða deyja konur ekki endilega vegna sprenginga og byssukúlna. Þær deyja vegna þess að þær hafa ekki aðgang að grunnþjónustu,“ segir Elmahdi.

Takmörkuð þátttaka kvenna í friðarsamningum og hin sívaxandi mannúðarkrísa sem ríkir í Súdan gera það að verkum að staða kvenna og stúlkna í landinu versnar og versnar.

„Það er ekki hægt að ræða þátttöku kvenna í friðarviðræðum ef þær geta ekki uppfyllt grunnþarfir sínar á sama tíma. Það eru engir spítalar, enginn matur, ekkert vatn og ekkert rafmagn. Og svo viltu að þær taki þátt í opinberri umræðu? Það er ekki alltaf raunhæfur möguleiki. Fyrst þarf að uppfylla grunnþarfir þeirra,“ segir Elmahdi.

Ahmed segist þó enn bera von í brjósti um að hægt verði að leysa úr átökunum. „Mín von liggur hjá ungu kynslóðinni sem fórnar sér daglega til þess að tryggja neyðaraðstoð til fólks, hugsar í lausnum og hjálpar almennum borgurum.

 

UN Women ítrekar ákall aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

UN Women sendi frá sér yfirlýsingu í dag í tilefni þess að eitt ár er liðið frá upphafi átakanna í Súdan. Þar lýsa samtökin meðal annars yfir stuðningi við fólkið í Súdan á þessum erfiðu tímum og ítreka jafnframt ákall aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um að átökin verði stöðvuð tafarlaust og stríðandi fylkingar snúi aftur til viðræðna. Þá skorar UN Women á alþjóðasamfélagið að tryggja það að átökin í Súdan verði ekki að vanræktri krísu.

 

Þú getur lagt þitt af mörkum!

Með því að styrkja starf UN Women getur þú stutt við konur og stúlkur í Súdan og um allan heim!

Related Posts