fbpx

Gaza: Konur og börn fyrstu fórnarlömb átaka – Ný skýrsla og yfirlýsing frá UN Women

Heim / Fréttir / Gaza: Konur og börn fyrstu fórnarlömb átaka – Ný skýrsla og yfirlýsing frá UN Women

Úr skýrslu UN Women: Gender Alert

Ástandið á Gaza virðist engan endi ætla að taka og á sér ekkert fordæmi, þó aðstæður þar hafi verið skelfilegar áður. Fjöldi látinna eykst dag frá degi og þörfin fyrir neyðaraðstoð er gríðarleg. Í janúar 2023 var áætlað að um 2.1 milljón Palestínufólks víðsvegar um hernumdu landsvæði Palestínu hafi haft þörf fyrir einhvers konar mannúðaraðstoð, þar af voru 49,2 prósent konur. Nú í ársbyrjun 2024 hefur meirihluti íbúa Gaza margoft þurft að flýja svæði eftir svæði, fótgangandi. Það að vera á vergangi eykur varnarleysi fólks, dregur úr viðnámsþrótti og hefur misjöfn áhrif á fólk eftir kyni og stöðu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UN Women sem kom út þann 19. janúar síðastliðinn.

Frá 7. október 2023 hefur, þegar þetta er skrifað, meira en 26 þúsund Palestínufólk verið drepið á Gaza-svæðinu, þar af voru 70 prósent þeirra konur eða börn. Meira en 1,7 milljónir fólks, eða 75 prósent íbúa Gaza, er á vergangi og áætlar UN Women að næstum 1 milljón þeirra séu konur og stúlkur. Allir íbúar Gaza, um það bil 2,2 milljónir fólks, búa við hörmungaraðstæður. Ísraelski herinn hefur sett palestínska menn í gæsluvarðhald, að því er virðist eftir geðþótta, eða þeir horfið af yfirborði jarðar. Samkvæmt skýrslum fjölmiðla hafa konur sem lent hafa á vergangi einnig átt á hættu að vera hnepptar í varðhald eða verða fyrir áreiti af hendi ísraelska hersins. Í fjölskyldum þar sem fyrir er fjölskyldumeðlimur sem kominn er á aldur eða er með fötlun og kemst ekki ferða sinna sökum þess, hafa konur oftar en ekki orðið eftir til að sjá um viðkomandi. Þetta kemur einnig fram í skýrslu UN Women. 

Í skýrslunni er staðan á Gaza sérstaklega metin út frá aðstæðum kvenna og stúlkna og gert er grein fyrir viðbragðsstarfi UN Women á svæðinu næstu sex mánuðina, en hjálparsamtök hafa átt í miklum erfiðleikum með að koma hjálpargögnum inn á Gaza. Fyrir 7. október 2023 fóru að meðaltali 500 vöruflutningabílar á dag alla virka daga með neyðargögn inn á Gaza það ár. Síðustu daga hefur sá fjöldi að meðaltali ekki farið yfir 100, líkt og sjá má í reglulegri stöðuskýrslu Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) sem kom út síðast í gær, þann 31. janúar.  

 

Þau verkefni sem UN Women mun sinna næstu sex mánuði eru: 
  • Yfir 14 þúsund heimilum sem stjórnað er af konum veitt mataraðstoð, en þetta er um þriðjungur þeirra heimila á Gaza þar sem faðirinn hefur fallið frá og móðirin sér alfarið ein um heimilið. Þetta er gert í samvinnu við World Food Programme. 
  • Stutt við dreifingu á nauðsynjavörum sem konur á svæðinu hafa óskað eftir. Þar á meðal eru hlutir sem ekki eru matvæli eins og fatnaður, hreinlætisvörur og þurrmjólk fyrir ungbörn. Þetta er gert í samstarfi við aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna. 
  • Samstarf við Hashemite Charity Organization í Jórdaníu um að dreifa 14 þúsund sæmdarsettum, 2300 pökkum með vetrarfatnaði, 3200 neyðarpökkum fyrir konur og 3793 neyðarpökkum fyrir börn.  
  • Boðið upp á afþreyingu fyrir 2.500 drengi og stúlkur, sálfræðilega aðstoð við 224 konur og stúlkur og fjar-geðheilbrigðisþjónustu fyrir 316 konur og stúlkur og 94 karla og drengi. 
  • Samstarf við kvenrekin félagasamtök um að veita kynbundna og fjölþætta þjónustu, meðal annars vegna kynbundins ofbeldis og afkomu kvenna og stúlkna sem verða mest fyrir áhrifum af átökum. Þeirra á meðal eru konur á vergangi, ekkjur, konur sem reka heimili og konur með fötlun.  
  • Öryggis- og viðbragðsnefndir sem leiddar eru af konum settar á fót í flóttamannaskýlum og í samfélögum sem taka á móti fólki á flótta. Þetta er gert með það að leiðarljósi að styrkja þátttöku kvenna í að veita neyðaraðstoð, tala fyrir vernd og aðgangi að þjónustu fyrir konur og til að tryggja að rödd kvenna fái hljómgrunn.  
  • Boðað til reglubundins samráðs við kvenrekin félagasamtök í Palestínu til að ræða þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir á meðan þau bregðast við því ástandi sem þau eru í, og til að koma þörfum þeirra á framfæri.  

 

Samhæfing neyðaraðstoðar frá og með janúar 2024: 
  • Að leiða samhæfingu kynbundinnar viðbragðsáætlunar á landsvísu auk þess að vera með formennsku í vinnuhópi um kynjuð sjónarmið þegar kemur að mannúðaraðstoð (Gender in Humanitarian Action Working Group eða GiHA) og í tengslaneti um forvarnir gegn kynferðislegri misnotkun og ofbeldi (the Prevention of Sexual Exploitation and Abuse eða PSEA). 
  • Tæknileg aðstoð til stofnana eins og Humanitarian Country Team (HCT), National InterCluster Coordination Group (NICCG), og viðeigandi klasa- og vinnuhópa (verndarklasa, GBV undirklasa, CASH vinnuhóp o.fl.) til að tryggja að þarfir kvenna séu hafðar í huga við skipulagningu-, framkvæmd- og eftirlit með viðbrögðum við neyðarástandinu. 
  • Stuðningur við kynjasamþættingu í helstu stefnumótunar- og skipulagsskjölum, eins og til dæmis Flash Appeal, og bent á kynbundin áhrif ófriðar og átaka á konur og stúlkur. 

 

Yfirlýsing frá framkvæmdastýru UN Women:  

Í tilefni nýju skýrslunnar sendi Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu varðandi ástandið á Gaza:  

Meira en 100 dagar eru liðnir frá hræðilegri árás Hamas-samtakanna á Ísrael þann 7. október síðastliðinn og þeim hryllingi sem hefur fylgt í kjölfarið, sérstaklega á Gaza. 

Síðan þá höfum við enn og aftur séð sannanir fyrir því að konur og börn eru fyrstu fórnarlömb átaka og að skylda okkar til að leita friðar er skylda gagnvart þeim. Án breytinga verða þessir síðustu rúmlega 100 dagar aðeins undanfari næstu 100. 

Við höfum heyrt átakanlegar frásagnir af kynferðisofbeldi í árásunum, sem hafa leitt til ákalls um að UN Women sýni ábyrgð, réttlæti og stuðning við öll þau sem verða fyrir áhrifum af árásum sem þessum. Við fordæmum ótvírætt allt kynferðislegt og kynbundið ofbeldi hvar sem er, hvenær sem er og gegn hverjum sem það er framið. Ég kalla aftur eftir ábyrgð gagnvart öllum þeim sem urðu fyrir áhrifum af árásunum 7. október.

Sima Bahous við upphaf CSW67. UN Women/Ryan Brown

Þessa rúmlega 100 daga höfum við einnig séð fordæmalausri eyðileggingu rigna yfir íbúa Gaza. Fyrir þá er enginn öruggur staður, engin hvíld eða andrými. Konur og stúlkur eru meirihluti þeirra sem eru drepin, særð og á flótta. Skýrslan okkar, Gender Alert, áætlar að um 1 milljón kvenna og stúlkna sé á vergangi á Gaza, tvær mæður eru drepnar á klukkutíma fresti og um 10.000 börn hafa misst feður sína. Undanfarin 15 ár voru karlmenn 67 prósent allra óbreyttra borgara sem voru drepnir á hernumdu svæði Palestínu. Innan við 14 prósent voru konur og stúlkur. Það hlutfall hefur snúist við. Í dag eru konur og börn 70 prósent þeirra sem hafa verið drepin. Þetta er fólk, ekki tölur, og við erum að bregðast þeim. Sú staðreynd sem og kynslóðaáfallið sem palestínska þjóðin hefur orðið fyrir á þessum rúmlega 100 dögum, og það sem er framundan, mun ásækja okkur öll um ókomna tíð. 

Hversu mikið sem við syrgjum stöðu kvenna og stúlkna á Gaza í dag, munum við syrgja hana enn frekar á morgun ef ótakmörkuð mannúðaraðstoð nær ekki til þeirra og endir verður bundinn á eyðileggingu og dráp. Þessar konur og stúlkur eru sviptar öryggi, lyfjum, heilsugæslu og skjóli. Þær standa frammi fyrir yfirvofandi hungri og hungursneyð. Mest af öllu eru þær sviptar von og réttlæti. Ég kalla aftur eftir tafarlausu mannúðarvopnahléi og óhindruðum aðgangi að mannúðaraðstoð fyrir öll þau sem eru á Gaza, ásamt því að öllum konum og stúlkum verði veitt nauðsynleg aðstoð og þjónusta. 

Fjölskyldur þeirra sem haldið er í gíslingu á Gaza hafa beðið í örvæntingu í meira en 100 daga eftir að fá ástvini sína aftur. Sumar þessara fjölskyldna hef ég hitt. Hugrekki þeirra andspænis þjáningum og skuldbinding þeirra til friðar gera mig auðmjúka. Ég kalla aftur eftir því að öllum gíslum verði sleppt tafarlaust og skilyrðislaust. 

Nú er kominn tími á frið. Við skuldum öllum ísraelskum og palestínskum konum og stúlkum það. Þetta eru ekki þeirra átök. Þær mega ekki lengur gjalda þeirra. 

 

Neyðin er gríðarleg – þú getur lagt þitt af mörkum!

UN Women hefur starfað í Palestínu frá árinu 1997 og starfrækt þar ýmis verkefni í þágu kvenna og stúlkna. Við erum á vettvangi og munum áfram veita mikilvægan stuðning og aðstoð.

UN Women á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun fyrir konur á Gaza og fjölskyldur þeirra sem búa við gríðarlega erfiðar aðstæður. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að:

  • Kaupa mömmupakka eða neyðarpakka í gjafaversluninni okkar 
  • Sendu sms-ið KONUR í númerið 1900* 
  • Leggðu til frjáls framlög í gegnum AUR í númerið 123-839-0700 
  • Leggðu til frjáls framlög í banka: 
    • Reikn. 0537–26–55505 
    • Kt. 551090-2489 

(*hvert sms kostar 2.900 kr – gildir aðeins hjá Símanum, Hringdu og Nova). 

Related Posts