fbpx

Konur á vergangi í Súdan leita að athvarfi í vaxandi mannúðarkrísu.

Heim / Fréttir / Konur á vergangi í Súdan leita að athvarfi í vaxandi mannúðarkrísu.

,,Ég flúði bæinn með móður minni, systur og litla syni mínum eftir að RSF-uppreisnarherinn réðist á bæinn og átök brutust út,“ segir Manal Adam Yousif, ung kona um tvítugt frá bænum Nyala í Suður-Darfúr héraði. „Við skildum manninn minn og litlu bræður eftir,“ heldur hún áfram í gegnum tárin. „Við ferðuðumst landleiðina í tvo daga þar til við komum til bæjarins El Daein í Suður-Darfúr. Þar leið mér mjög illa vegna þess að ég hafði nýlega eignast barn með keisaraskurði.“

Internally displaced women are seen receiving hygiene kits from a volunteer at a shelter in Port Sudan. Photo: Awoon Organization.

Sjálfboðaliði í athvarfi í Port Súdan afhendir konum sæmdarsett. Mynd: Awoon Organization.

Yousif og fjölskylda hennar dvöldu í El Daein í um þrjá mánuði til að jafna sig, en þegar lífið þar varð erfiðara neyddust þau til að flytja aftur. Þau fóru fyrst til hafnarborgarinnar Port Súdan í austurhluta Súdan og þaðan til Jabait. Hún er á ferð með nýfæddum syni sínum, sem hún er með á brjósti. Jabait er tiltölulega öruggur staður en Yousif hefur enn miklar áhyggjur af velferð fjölskyldu sinnar, þar á meðal systur sinni sem sneri aftur til Nyala til að sannfæra bræður þeirra um að koma til Jabait. 

„Ég náði síðast sambandi við hana fyrir tveimur mánuðum síðan og ég veit ekkert um hana eða manninn minn,“ segirb Yousif. „Við fengum fréttir um að tveir frændur mínir hefðu dáið eftir að handsprengja féll á húsið þeirra. Nágrannakona mín var líka drepin og hönd dóttur hennar var skorin af. Því miður var brotist inn í húsið okkar, og öll hin húsin í hverfinu okkar. Ég er því mjög hrædd um fjölskyldu mína,“ bætir Yousif við.  

Í þorpinu Jabait í austurhluta Súdan, bíða hundruðir kvenna eftir aðstoð á skrifstofu Samtaka um þróun kvenna og barna (e. The office of the Women and Children Development Association – WCDA).Sumar kvennanna eru frá Jabait á meðan aðrar hafa komið alls staðar að af landinu.  

Fyrir níu mánuðum brutust út átök á milli súdanska hersins (SAF) og RSF-uppreisnarhersins. Síðan þá hefur meira en 7,3 milljónir fólks flúið heimili sín og er um helmingur þeirra börn. Í Súdan er því ekki aðeins mesti fólksflótti í heiminum heldur er þar einnig að finna stærstu krísu í heimi þegar kemur að börnum á vergangi.  

WCDA og aðrir kvennahópar á staðnum vinna í fremstu víglínu til að bregðast við krísunni. Í samstarfi við UN Women hefur WCDA útvegað Yousif og öðrum konum og börnum á flótta sæmdarsett, vatn, búsáhöld og annars konar mannúðaraðstoð. Yousif segir aðstoðina hafa hjálpað við að gera líf þeirra örlítið betra, en þau skorti samt ennþá margar nauðsynjar. 

„Við flúðum bara með fötin sem við erum í… það er mikið um sjúkdóma yfir vetrartímann,“ segir hún og bætir því við að sonur hennar og mörg önnur börn séu veik. „Ég á ekki peninga til að fara með hann á sjúkrahúsið… ég vona að stríðið hætti og að komið verði á öryggi og stöðugleika svo við getum snúið aftur til heimila okkar og fjölskyldna.“ 

Asmaa Hassan Ali flúði einnig frá Darfúr og kom til Port Súdan með nokkrum ættingjum sínum, þar á meðal tveimur dætrum sínum, en syrgir þau sem hún neyddist til að skilja eftir. Hún dvelur í Mohamed Shaybah athvarfinu, þar sem neyðarþjónustu UN Women er að finna. 

„Við fengum sæmdarsett frá samtökunum og það var eitt af þeim fáu augnablikum sem ég hef fundið fyrir hamingju um stund,“ segir hún. „Ég og dætur mínar þurfum sárlega á þessum persónulegu nauðsynjavörum að halda sem konur.“ Engu að síður harmar Ali að hún hefur átt í erfiðleikum með að mæta „persónulegum grunnþörfum“ dætra sinna. 

UN Women hefur átt í samstarfi við fimm stór kvennasamtök við innleiðingu á neyðarmannúðaráætlun í Súdan, í samvinnu við kvennahópa á staðnum. Á milli 15. apríl og 15. nóvember 2023 veittu 163 hjálparsamtök og aðilar á staðnum um 4,9 milljónum víðsvegar í Súdan lífsnauðsynlega aðstoð og 5,7 milljónir fengu landbúnaðar- og framfærslustuðning. Þá hafa UN Women unnið með Red Sea State Emergency Room við að koma hjálp til þeirra sem þurfa mest á henni að halda.

UN Women staff load humanitarian supplies to be distributed to women in Sudan. Photo: Muna Elsadaty.

Starfsfólk UN Women dreifir neyðarbirgðum til kvenna í Súdan. Mynd: Muna Elsadaty.

„Í desembermánuði var eitt þúsund sæmdarsettum dreift til kvenna á sem eru á vergangi í Súdan,“ segir Samira Muhammad Suleiman, lögfræðingur í sjálfboðastarfi hjá kvennasamtökunum Women Awareness Raising, eða ,,Awoon-group“, en hún vinnur að neyðarmannúðaráætluninni. „Konurnar eru í sárri þörf fyrir þessa hluti vegna þess hve viðkvæmt og sérstakt ástandið er“. 

Þrátt fyrir að milljónir hafi fengið neyðaraðstoð er ástandið enn skelfilegt. Óöryggi, rán, hindranir vegna skrifræðis, léleg símatenging, skortur á peningum og takmarkaður fjöldi tækni- og mannúðarstarfsfólks eru nokkrar af hinum ýmsu áskorunum sem hafa áhrif á afhendingu mannúðaraðstoðar. Eldsneytis- og orkuskortur hefur einnig áhrif á aðgengi að mannúðarstarfsfólki og vistum. 

Eftir að hafa velt því fyrir sér hve mikilli aðstoð hún þurfi í raun á að halda í Mohamed Shaybah athvarfinu, til að búa dætrum sínum öruggt líf, bætir Ali við „en umfram allt vil ég að þessu stríði ljúki svo að við getum snúið aftur á öruggan hátt til heimila okkar og fjölskyldna.“ 

 

 

Nöfnum kvennanna í greininni hefur verið breytt til að tryggja öryggi þeirra. 

Upprunalega frásögn er að finna hér.  

 

Hvernig getur þú hjálpað?  

Mikilvægt er að tryggja að konur og stúlkur í Súdan hljóti þá þjónustu og aðstoð sem þær þurfa nauðsynlega á að halda. Til þess þurfum við fjármagn! Þú getur hjálpað konum og stúlkum í Súdan með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili eða með því að styðja starf UN Women með stökum styrk. 

 

Related Posts
Lestarstöð, Úkraína