fbpx

Tvö ár liðin frá innrás Rússa inn í Úkraínu

Heim / Fréttir / Tvö ár liðin frá innrás Rússa inn í Úkraínu

Tvö ár eru liðin frá innrás Rússa inn í Úkraínu.

Tvö ár eru liðin frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Stríðið hefur hrakið milljónir á flótta, kostað mörg líf og ollið gríðarlegum skaða.

Stríðið hefur haft mikil áhrif á líf úkraínskra kvenna og stúlkna; ógnað lífi þeirra, heilsu og afkomu. Talið er að um 3,238 konur og stúlkur hafi verið drepnar frá upphafi stríðsins þann 24. Febrúar 2022, og 4.872 særst. Konur og stúlkur eru jafnframt meirihluti þeirra sem eru á vergangi innan Úkraínu og þurfa á neyðaraðstoð að halda.

Frá innrás Rússa hafa úkraínskar konur átt í auknum erfiðleikum með að nálgast félagsþjónustu, sálræna aðstoð, heilbrigðisþjónustu og atvinnutækifæri. 72% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í Úkraínu eru konur. Þá eru úkraínskar konur berskjaldaðri fyrir kynbundnu ofbeldi eftir að stríðið braust út, þar með talið mansali, að nauðgunum sé beitt sem stríðsvopni auk þess sem tíðni heimilisofbeldis eykst umtalsvert á tímum átaka.

Þrátt fyrir þessar áskoranir hafa úkraínskar konur haldið áfram að sýna gríðarlegan viðnámsþrótt og seiglu. Helmingur allra fyrirtækja í landinu eru í eigu kvenna og árið 2023 stofnuðu úkraínskar konur yfir 10.000 ný fyrirtæki. Þá hafa um 62 þúsund úkraínskra kvenna skráð sig í herinn.

Kvenrekin félagasamtök hafa jafnframt tekið virkan þátt í að veita neyðar- og mannúðaraðstoð til fólks og veitt þjónustu á borð við sálrænan stuðning.

Frá upphafi stríðsins hafa:

 

6 milljónir flúið til ríkja Evrópu

3,6 milljónir á vergangi innan eigin ríkis

4,4 milljónir snúið aftur heim til Úkraínu

Meira en 10.000 verið drepin í átökunum og um 20.000 særst

 

UN Women hefur verið starfandi í Úkraínu frá árinu 1999. Fyrir stríðið voru verkefni landsskrifstofunnar helst þau að auka samfélagslega þátttöku kvenna og vinna gegn kynbundnu ofbeldi. Eftir að stríðið braust út hafa verkefni UN Women í Úkraínu breyst umtalsvert og miða nú að miklu leyti að því að tryggja mannúðaraðstoð til kvenna og stúlkna og aðgengi þeirra að sálrænni aðstoð, lögfræðiþjónustu, hreinlætisvörum og að styðja við atvinnutækifæri úkraínskra kvenna og þátttöku þeirra í friðarviðræðum.

 

Krefjandi að koma undir sig fótum á ókunnugum stað

Anastasiia Pyrohova við störf sín.

Anastasiia Pyrohova er menntaður sálfræðingur og verkefnastýra Women‘s New Horizons-verkefnisins í bænum Sambir, hvar hún hefur búið eftir að hafa flúið heimili sitt í borginni Zaporizhzhia ásamt fjölskyldu sinni. Þar veitir hún konum og stúlkum sálræna aðstoð og áfallahjálp auk þess að styðja við þær á meðan þær aðlagast nýjum aðstæðum. Verkefnið er stutt af UN Women í Úkraínu.

„Í mars árið 2022 flúðum við fjölskylda mín harðnandi átök. Við flúðum án þess að vera með ákveðinn áfangastað í huga. Við vildum bara komast sem lengst í burtu frá átökunum. Við fórum í gegnum nokkrar borgir, þar með talið Kropyvnytskyi, Lviv, Ternopil og Truskavets. Ég vildi ekki fara frá Úkraínu því ég vildi reyna að aðstoða þá sem hér voru. Ég hafði aldrei heyrt af bænum Sambir áður, en við enduðum á því að setjast að hér.

Eftir að hafa skráð mig sem flóttamann hjá yfirvöldum sá ég að auglýst var eftir sálfræðingi. Ég ákvað að bjóða fram aðstoð mína og var strax tekin inn í þetta fallega samfélag sálfræðinga sem voru starfandi í Sambir. Þau studdu við mig og leyfðu mér að aðstoða aðra í neyð.

Í gegnum verkefnið hef ég getað stutt við konur á flótta með ýmsum leiðum. Við bjóðum upp á sálræna aðstoð, stuðningshópa, listasmiðjur, enskunámskeið og opnuðum móttökumiðstöð í samstarfi við bæjaryfirvöld.

Það getur verið mjög krefjandi að koma undir sig fótum á ókunnugum stað. Til að bregðast við þörfum fólks á flótta bjuggum við til leiðarvísi fyrir þau. Þessi leiðarvísir inniheldur upplýsingar um hvar sé hægt að finna alla helstu þjónustu, til að mynda lagalega aðstoð, sálfræðiaðstoð, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. En einnig upplýsingar um skólakerfið og daggæslu.

Fyrst einbeitum við okkur að því að aðstoða fólk við að ná andlegu jafnvægi og svo styrkjum við það í að standa aftur á eigin fótum,“ útskýrir Anastasiia.

 

Þú getur stutt við verkefni UN Women með stökum styrk

Related Posts
Internally displaced women are seen receiving hygiene kits from a volunteer at a shelter in Port Sudan. Photo: Awoon Organization.