Til hamingju með daginn!

Home / Dæmisögur / Til hamingju með daginn!
Við óskum þér innilega til hamingju með Alþjóðlegan baráttudag kvenna sem haldið er upp á um allan heim í dag. Hjá UN Women er dagurinn tileinkaður nýsköpun og efnahagslegri valdeflingu kvenna.

Martha Benavante, sólarorkufræðingur

„Á tímum nýsköpunar verðum við að vera meðvituð um hvernig nýta má tæknina til að hafa jákvæð áhrif á líf kvenna og stúlkna um allan heim,“ skrifar Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, í yfirlýsingu sem hún gaf út í tilefni dagsins. Til eru fjölmörg dæmi um slík verkefni á vegum UN Women sem hafa umbylt lífi fjölmargra kvenna. Hin 15 ára gamla Eno Ekanem frá Nígeríu, þátttakandi í verkefninu African Girls Can CODE, þróaði lausn sem gerir fólki kleift að senda hjálpargögn með drónum sem stýrðir eru með smáskilaboðum. Martha Benavante, einstæð fjögurra barna móðir frá Tucurú í Gvatemala, lauk þjálfun í sólarorkufræði á vegum verkefnis UN Women í fyrra og vinnur nú að því að sólarorkuvæða þorpið sitt sem áður hafði engan aðgang að orkulindum.

Ibtissam Jaber, frumkvöðull í matargerð

Þá er mikilvægt að konur fái tækifæri til að verða virkir þátttakendur í atvinnulífi og öðlast efnahagslegt sjálfstæði. Ibtissam Jaber er frumkvöðull á sviði matargerðar í Líbanon en hún hóf starfsferil sinn á þátttöku í Yanouh verkefninu á vegum UN Women sem miðar að því að styrkja efnahagslega stöðu kvenna þar í landi. Aleeza Hafeez hlaut starfsþjálfun hjá UN Women í Pakistan á vegum verkefnis sem miðar að því að styrkja stöðu kvenna sem starfa í fataverksmiðjum og í dag hefur hún umsjón með tveimur deildum innan verksmiðjunnar. Báðar hafa þær lýst því hvernig það að fara út á vinnumarkaðinn hefur aukið frelsi þeirra og jafnræði innan heimilisins, auk þess sem tekjurnar gera þeim kleift að sjá fyrir fjölskyldum sínum.

Sigyn Jónsdóttir í Kauphöllinni í dag

Við hjá UN Women á Íslandi vorum í Kauphöllinni í morgun þar sem Sigyn Jónsdóttir flutti erindi þar sem hún kallaði eftir því að glerþakið yrði brotið til frambúðar og hringdi bjöllunni líkt og konur gerðu um allan heim í dag. Þess má geta að Stacey Cunningham mölbraut glerþak Kauphallarinnar í New York fyrst á síðasta ári er hún varð fyrst kvenna til að gegna starfi forstjóra. Því ber að fagna þrátt fyrir að það hafi ekki tekið nema 226 ár. En segir okkur líka að baráttunni fyrir kynjajafnrétti er hvergi nærri lokið og aðeins rétt að byrja í ýmsum geirum líkt og fjármálageiranum.

Ef þú vilt taka þátt í að auka kynjajafnrétti og bæta stöðu kvenna og stúlkna um allan heim geturðu skráð þig sem mánaðarlegan styrktaraðila hér.

Baráttukveðjur,
Starfskonur og stjórn UN Women á Íslandi

Related Posts