Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Home / Dæmisögur / Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women

Yfirlýsing frá Phumzile Mlanbo-Ngcuka, framkvæmdastjóra UN Women, í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars

„Á tímum nýsköpunar verðum við að vera meðvituð um hvernig nýta megi tæknina til að hafa jákvæð áhrif á líf kvenna og stúlkna um allan heim, því tækninýjungar eiga stóran þátt í því að móta og breyta lífsháttum fólks. Tryggja þarf að konur séu ekki aðeins neytendur tækninnar, heldur taki virkan þátt í þróun hennar. Með þátttöku kvenna, hvort heldur sé í hönnun eða framkvæmd nýrra tæknilausna, er líklegra að nýsköpun taki einnig mið af þörfum kvenna og stúlkna, til dæmis þegar kemur að þjónustu, uppbyggingu innviða og í atvinnusköpun. Slagorð Alþjóðlegs baráttudags kvenna árið 2019 er: „Think Equal, Build Smart, Innovate for Change“. Með þessu slagorði viljum við hvetja til þess að nýsköpun endurspegli einnig þarfir og sjónarmið kvenna og stúlkna,“ segir Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna sem haldinn er hátíðlegur um heim allan í dag, þann 8. mars. Phumzile Mlambo-Ngcuka nefnir svo mýmörg dæmi máli sínu til stuðnings.

Eno Ekanem, 15 ára frumkvöðull og þátttakandi í verkefninu African Girls Can CODE

„Farsímapeningar og rafrænar greiðslulausnir hafa auðveldað greiðslur á bótum til þeirra er búa í afskekktum bæjum víða um Afríkuríki og illfærir vegir hamla nú ekki lengur afhendingu lífsnauðsynlegra lyfja, þökk sé snilldarlegum lausnum á borð við þá sem hin 15 ára gamla Eno Ekanem frá Nígeríu þróaði og gerir fólki kleift að senda hjálpargögn með drónum sem stýrðir eru með smáskilaboðum. (Eno Ekanem var þátttakandi í verkefninu African Girls Can CODE, sem UN Women Ethiopia er meðal annars aðili að)

Rafmagnsleysi er ekki lengur hindrun í starfi ljósmóðurinnar Lorinu Karway sem starfar í afskekktum bæjum í Líberíu. Áður neyddist Lorina til að notast við ljós frá farsíma sínum þegar hún þurfti að taka á móti börnum að nóttu til, en nýr og einfaldur lampi sem gengur fyrir sólarorku hefur nú leyst símann af hólmi. Lampinn er hannaður af konum og auðveldar heilbrigðisstarfsfólki sem Lorinu að sinna starfi sínu þegar rafmagni slær út. Lampinn nýtist einnig afskekktum heimilum sem hafa annars ekki aðgang að rafmagni. Tækninýjungina má þróa áfram svo hún verði enn aðgengilegri og auðveldari í notkun.

Lorina Karway, ljósmóðir í Líbanon

Fersk sýn kvenna getur einnig knúið fram stærri breytingar. Buy from Women Enterprise Platform verkefni UN Women færir sér í nyt farsímalausnir til þess að tengja kvenkyns bændur og samyrkjubú kvenna við upplýsingar, fjármagn og markaði og svo þær geti hámarkað birgðarkeðju sína.

Senergy sólarraforku verkefnið í Dakar, Senegal, byggir á hugmyndum kvenna um framþróun og hefur leitt af sér ýmsar samfélagslegar úrbætur, t.a.m. í skólum í Dakar, sem og stofnun smálánastofnunnar sem styður við atvinnusköpun kvenna og fyrirhugaða uppbyggingu kvennadeildar.

Marwa al-Sabouni, arkitekt frá Sýrlandi

Svo má nefna verðlaunahugmynd sýrlenska arkitektsins Marwa al-Sabouni’s að uppbyggingu Baba Amr hverfisins í borginni Homs. Hugmyndin felur í sér samvinnu, samfélagslega samheldni og ríkaa sjálfsmynd.

Nýsköpun og tækni endurspegla gjarnan þarfir hönnuða og framleiðenda. Vitandi að algóritmar hafa í auknum mæli áhrif þegar ákvarðanatökur eru annars vegar, er nauðsynlegt að bregðast við vísbendingum þess efnis að konur séu nánast ósýnilegar í tölulegum niðurstöðum er hafa áhrif á framþróun. „Big Data“ er aðeins áreiðanleg heimild til ákvörðunartöku ef hún byggir á réttu þversniði þjóðarinnar.

Hópar sem búa við mismunun sökum kynþáttar, uppruna, kynferðis eða samfélagslegrar stöðu sinnar eiga að geta haft áhrif á þóun þeirra samfélaga sem þau búa í. Taka þarf tillit til þessara hópa í borgarskipulagi og skipulagi á almenningssamgöngum, t.d. með einföldum aðgerðum á borð við betri götulýsingu og auknu eftirliti á þekktum hættusvæðum í borgum. Þá þarf hönnun almenningssalerna að taka tillit til þarfa kvenna. Í framtíðinni gæti líffræðileg tölfræði (líkt og andlitsgreining) komið í stað hefðbundinna skilríkja og þannig veitt fjölda kvenna auðkenni sem þær annars hefðu ekki haft aðgang að. Í öllum þessum tilfellum skiptir máli að nýsköpun og ný tækni taki mið af þörfum ólíkra samfélagshópa í þeim tilgangi að flýta fyrir framþróun og stuðla að auknum jöfnuði.

Martha Benavante, sólarorkufræðingur

Hnattrænn samstarfshópur fyrir nýsköpun í þágu breytinga (Global Innovation Coalition for Change) sameinar fulltrúa úr einkageiranum, akademíunni og frjálsum félagasamtökum í þeim tilgangi að hvetja nýsköpunarfyrirtæki til þess að vinna betur í þágu kvenna og stuðla þannig að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna.

Konur og stúlkur verða að njóta jafnra tækifæra svo þær geti lagt sitt af mörkum í þágu framfara, þær þurfa að geta verið þátttakendur í stefnumótun og í uppbyggingu innviða og þeirrar þjónustu er snertir líf þeirra. Konur eru tilbúnar í slaginn – til marks um það má nefna skólaverkföllin sem ungar stúlkur hafa skipulagt um alla Evrópu, og víðar, til að vekja athygli á loftslagsbreytingum.

Þegar við beinum sjónum okkar að þeim er hafa ekki rödd, eru hvað ósýnilegust – hvort sem það séu einstaklingar eða þeir hundrað milljón farandverkamanna um allan heim sem búa hvorki við fjárhagslegt- né samfélagslegt öryggi – erum við að uppræta fjölmörg mein sem eiga djúpar rætur í samfélögum okkar. Þannig komum við á þeim breytingum sem við viljum öll sjá.“

Related Posts