fbpx

„Mig dreymir um að sólarorkuvæða þorpið mitt“

Heim / Dæmisögur / „Mig dreymir um að sólarorkuvæða þorpið mitt“
Martha Benavante, einstæð fjögurra barna móðir frá Tucurú í Gvatemala, lauk nýlega þjálfun í sólarorkufræði á vegum verkefnis UN Women sem snýr að efnahagslegri valdeflingu dreifbýliskvenna. Hún er full af orku þessa dagana og getur ekki beðið eftir að smíða fleiri sólarorkuljós fyrir þorpsbúa. Eitt sólarorkuljós selst fyrir allt að 200 quetzals (um 3200 kr.) í Gvatemala og er því einstakt viðskiptatækifæri fyrir hana.

„Það eru rúmlega 90 fjölskyldur í þessu þorpi og ekkert heimilanna hefur aðgang að orku. Fyrir sjö mánuðum síðan var ég valin af borgarstjóra Tucurú til að fara til Indlands til að nema sólarorkufræði. Ég bað um hálftíma til að hugsa málið, hann sagði að ég hefði fimmtán mínútur.“

Áður en Martha hóf nám starfaði hún sem húshjálp hjá prófessor í þorpinu og þá hófst strembinn vinnudagur hennar klukkan 6:30. Hún sá um að elda, þrífa, vaska upp, sturta börnin og koma þeim til og frá skóla. Fyrir alla þessa vinnu fékk hún aðeins 500 quetzals á mánuði (um 8000 kr) en það dugði ekki til að ná endum saman.

„Sjáðu þetta ljós sem ég gerði í skólanum. Áður en ég átti þennan lampa eyddi ég um 5-10 quetzals á dag í kerti. Stundum neyddumst við til að hírast í myrkrinu því við fengum ekki að skrifa á okkur fleiri kerti í búðinni. Þá þurfti ég að klára öll verkefni dagsins fyrir kl. 19 á kvöldin. Núna get ég smíðað svona ljós á 20 mínútum!“

Næst á dagskrá hjá Mörthu er að kenna fleiri konum að smíða sólarorkuljós, enda myndu margar mæður í þorpinu hagnast á þeirri kunnáttu. „Draumurinn minn er að sólarorkuvæða þorpið mitt. Ég lagði mikið á mig til að fara til Indlands, ekki aðeins fyrir sjálfa mig heldur fyrir samfélagið mitt. Fólk er alltaf að koma upp að mér og segja mér hvað þau séu fegin að ég sé komin til baka því nú munum við öll fá ljós!“

Related Posts