„Verkefnið jók bæði tekjur mínar og frelsi“

Home / Dæmisögur / „Verkefnið jók bæði tekjur mínar og frelsi“
Ibtissam Jaber er frumkvöðull á sviði matargerðar í Líbanon en hún hóf starfsferil sinn í verkefni á vegum UN Women sem miðar að því að styrkja efnahagslega stöðu kvenna þar í landi.

Eins og margar aðrar konur í þorpinu sem Ibtissam ólst upp í hefur hún verið að rækta og vinna ýmiss konar matvörur á borð við tómatpúrru og ólífur fyrir ættingja og nágranna frá því að hún var ung stúlka. Þegar vinkonur hennar hvöttu hana til að taka þátt í verkefninu og buðu henni að koma á fyrsta fundinn bannaði eiginmaður hennar henni að fara.

„Honum var illa við tilhugsunina um að ég færi að vinna utan heimilisins. Þegar ég hafði útskýrt fyrir honum efnahagslegan ávinning fjölskyldunnar og möguleika í vörusölu sem gætu komið í kjölfarið varð hann opnari fyrir hugmyndinni. Mér tókst smátt og smátt að sannfæra hann um að leyfa mér að fara út í þetta af fullum krafti. Það var mikið afrek fyrir mig.“

Þátttaka Ibtissam í verkefninu umbreytti lífi hennar. Hún byrjaði á því að selja vörur sínar á matarmarkaði í Beirút sem stóð yfir í tíu daga. „Á hverjum morgni vaknaði ég, sendi börnin mín í skólann og ferðaðist síðan til Beirút. Mér leið eins og alvöru athafnakonu. Ég græddi heila 4000 dollara (477.000 kr.) á sölunni! Aldrei hefði mér dottið í hug að ég myndi þéna svona mikið.“

Ibtissam segir frelsi sitt og jafnræði á heimilinu hafa aukist til muna með þátttöku sinni í verkefninu og nú stefnir elsta dóttir hennar á að feta í fótspor móður sinnar. „Af hverju ekki að taka saman höndum og auka tekjur og velferð samfélags okkar með því að gera það sem við elskum mest?“

Ævintýrið er bara rétt að byrja hjá Ibtissam sem hlakkar til að halda áfram að rækta hæfileika sína og þróa nýjar vörur.

Þú getur stutt við konur eins og Ibtissam með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi. Smelltu hér til að skrá þig.

Related Posts