fbpx

Fundur Kvennanefndar SÞ er hafinn

Heim / Dæmisögur / Fundur Kvennanefndar SÞ er hafinn
Í dag hófst 63. fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW63) sem haldinn er árlega í New York. Fundurinn er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum en helstu umfjöllunarefni hans í ár eru félagsleg vernd fyrir konur, aðgengi að almenningsþjónustu og uppbygging innviða sem tekur mið af þörfum kvenna og gerir þeim kleift að njóta öryggis og lífsgæða.

Nauðsynlegt er að tryggja að í öllum samfélögum geti konur geti gengið óttalausar um almenningssvæði. Það þarf að sjá til þess að konur hafi aðgang að hreinu vatni, heilbrigðisþjónustu og barnagæslu fyrir sig og börnin sín. Það þarf að tryggja þeim rétt til ellilífeyris og skjóta skjólshúsi yfir þolendur heimilisofbeldis.

Þegar grunnstoðir samfélaga eru veikar og skortur er á opinberri þjónustu og félagslegum verndarkerfum kemur það helst niður á konum og stúlkum. Það þarf að taka mið af þörfum kvenna þegar stefnur eru mótaðar í málefnum sem snúa að þeirra veruleika.

Þegar konur koma að samningaborðinu og öðlast rétt til að taka ákvarðanir eiga sér stað breytingar sem varða öll samfélög og þjóðir. Konur og stúlkur eru leiðandi í baráttunni fyrir kerfislegum breytingum sem mæta þörfum allra, allt frá því að endurskipuleggja almenningsgarða með öryggi og aðgang kvenna að leiðarljósi til þess að tala fyrir lagabreytingum á réttindum heimavinnandi kvenna.

Phumzile Mlambo Ngcuka og Katrín Jakobsdóttir

Kvennanefndarfundur SÞ er ein af fjölsóttustu ráðstefnum heims sem fólk hvaðanæva úr heiminum sækir. Þeirra á meðal eru þjóðarleiðtogar, aðilar frjálsra félagasamtaka, fólk úr einkageiranum, starfsfólk Sameinuðu þjóðanna og aktívístar svo dæmi séu tekin. Allt þetta fólk kemur saman til þess að beina sjónum að stöðu kvenna og hvernig valdefla megi konur og stúlkur um allan heim.

Fundurinn hófst af krafti í morgun m.a. með sameiginlegri viljayfirlýsingu ráðherra jafnréttismála á Norðurlöndunum um að leggja áherslu á árangur í jafnréttismálum við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Hér sést Katrín Jakobsdóttir afhenda Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýru UN Women viljayfirlýsinguna í morgun.

Mynd: af vef Stjórnarráðs Íslands

Related Posts