Jaha Dukureh og baráttan gegn kynfæralimlestingum

Home / Verkefnin / Afnám ofbeldis / Jaha Dukureh og baráttan gegn kynfæralimlestingum
„Hver kona og stúlka á rétt á að lifa án ofbeldis og sársauka en samt hafa 200 milljónir sætt sársaukafullum limlestingum á kynfærum, þar á meðal hálf milljón í Evrópu. Búast má við að 68 milljónir bætist við frá deginum í dag til 2020,” segja oddvitar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í sameiginlegri yfirlýsingu sem birtist í dag í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi gegn limlestingu á kynfærum kvenna.

Kynfæralimlestingar eru útbreitt mannréttindabrot sem sviptir konur heilsu, sæmd og yfirráðum yfir eigin líkama og dregur þær í mörgum tilfellum til dauða. Eitt af helstu markmiðum UN Women á heimsvísu er að útrýma limlestingum á kynfærum kvenna og stúlkna fyrir árið 2030. Í fremstu fylkingu þeirrar baráttu stendur Jaha Dukureh, velgjörðarsendiherra UN Women á heimsvísu en Jaha var sjálf limlest á kynfærum sínum sem barn.

Baráttukonan Jaha Dukureh.
Mynd: UN Women/Ryan Brown

„Í fyrstu vissi ég ekki hvað þetta þýddi fyrir mig. Ég hélt að þetta væri eðlilegur hluti af lífinu og að allar stelpur þyrftu að ganga í gegnum þessa aðgerð. En ég man enn sársaukann og örin mun ég bera á sál og líkama allt mitt líf,“ segir Jaha sem er fædd í Gambíu árið 1989 en býr í dag í Bandaríkjunum.

„Í mínu tilviki voru ytri kynfæri, snípur og skapabarmar, fjarlægð og saumað að mestu fyrir. Þá rann upp fyrir mér að ég gæti ekki stundað kynlíf fyrr en ég yrði skorin upp aftur. Þegar ég eignaðist dóttur mína ákvað ég að segja sögu mína. Ég vil ekki að hún þurfi að ganga í gegnum það sama og ég var látin ganga í gegnum. Ég veit líka að það eru milljónir stúlkna þarna úti, á sama aldri og dóttir mín, sem eiga sér enga málsvara. Ég verð að berjast gegn þessu ofbeldi fyrir þær.“

Í dag ferðast Jaha um Gambíu með fræðslu að vopni, segir sögu sína og vinnur þannig að því að uppræta þennan skaðlega sið.

Þegar þú styður við UN Women tekur þú þátt í baráttunni gegn limlestingu á kynfærum kvenna. Smelltu hér til að gerast mánaðarlegur styrktaraðili. 

Related Posts