fbpx

Milljarður rís sjöunda árið í röð

Heim / Fréttir / Milljarður rís sjöunda árið í röð

Nú er komið að hinni árlegu dansbyltingu Milljarður rís, sem fram fer í Hörpu og víðar um land þann 14. febrúar næstkomandi. Við hvetjum alla til að taka afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi með því að koma saman á stærsta dansviðburð ársins og dansa!

Við hjá UN Women á Íslandi fögnum 30 ára starfsafmæli í ár og af því tilefni verður viðburðurinn sérstaklega veglegur. Lilja Dögg Alfreðsdóttir hleypir dansbyltingunni af stað með örfáum orðum í upphafi.  Líkt og fyrri ár er það plötusnúðurinn DJ Margeir sem stýrir tónlistinni og fær hann til liðs við sig glæsilegan hóp tónlistarfólks sem sér til þess að mannskapurinn hristi sig og skekji. Fram koma diskódúettinn Þú og ég, Amabamadama, Auður, Svala Björgvins, GDRN, Högni, Daníel Ágúst og Cell7.

Þá verður nýja FO-húfan til sölu á staðnum auk nýs FO söluvarnings og rennur ágóðinn til verkefna UN Women sem vinna að því að uppræta kynbundið ofbeldi um allan heim. Við hvetjum fólk til að mæta með FO-húfurnar sínar á svæðið og taka sínar eigin FO myndir en InstaMyndir verða á staðnum.

Það er óhugnanleg staðreynd að 1 af hverjum 3 konum um heim allan verður fyrir kynbundnu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni, það er um ein milljón kvenna. Við mjökumst þó hægt í rétta átt og það verður ljósara með hverju árinu sem líður að ofbeldi í garð kvenna verður ekki lengur liðið.

Í fyrra var viðburðurinn haldinn í yfir 200 löndum víðs vegar um heiminn. Á Íslandi kom fjöldi fólks saman á öllum aldri um allt land. Í ár verður aftur dansað um allan heim sem og víða um landið.

One Billion Rising var fyrst haldið árið 2012 og fór þá fram í yfir 160 löndum. Upphafskona Milljarður rís er aðgerðarsinninn og leikskáldið Eva Ensler (höfundur Píkusagnanna) sem skipulagði viðburðinn til vekja athygli á meininu sem kynbundið ofbeldi er og andmæla því viðhorfi að ofbeldið sé að með einhverjum hætti konunum að kenna. Hún kveðst hafa kosið að sýna samstöðu með dansi þar sem dans sé í senn frelsandi og eflandi, en einnig vegna þess að konur sem hafa upplifað kynferðisofbeldi aftengist oft líkama sínum í kjölfar ofbeldisins. Í gegnum dans geti konur kastað burtu ótta og skömm, endurheimt styrk sinn og mögulega fundið tengingu við líkama sinn að nýju. En mikilvægast af öllu, er að í dansi finnur fólk fyrir óbeislaðri gleði.

Milljarður rís hefst klukkan 12.15 að hádegi í Silfurbergi í Hörpu og lýkur klukkan 13.00. Þá fara fram viðburðir á sama tíma á eftirfarandi stöðum: íþróttahúsinu Neskaupstað, félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Fosshótel á Húsavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum, í Hvatastöðinni í Hólmavík, íþróttahúsinu Grundarfirði, íþróttahúsinu Iðu Selfossi, Nýheimum á Höfn í Hornafirði og Hofi á Akureyri.

UN Women hvetur vinnustaði og menntastofnanir til að fjölmenna á Milljarður rís. Hægt verður að leggja frítt við Hörpu á meðan viðburði stendur.

Við færum Hörpu kærar þakkir fyrir stuðninginn og öllum flytjendum ásamt Dj Margeiri sem öll gefa vinnu sína.

Sameinumst í dansi og tökum afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi!

Related Posts