fbpx

Jafnréttissigrar ársins 2023

Heim / Fréttir / Jafnréttissigrar ársins 2023

Nú líður að lokum ársins 2023 og við slík tímamót er gjarnan litið yfir farinn veg. Árið hefur að mörgu leyti einkennst af blóðugum átökum, náttúruhamförum og grófum mannréttindabrotum. En þrátt fyrir mótlæti héldu konur um allan heim áfram að láta til sín taka á öllum sviðum og berjast fyrir réttindum sínum. Við hjá UN Women á Íslandi höfum sett saman lista yfir nokkra jafnréttissigra sem okkur þóttu standa upp úr á árinu.

100.000 konur og kvár á Arnarhóli

Boðað var til kvennaverkfalls 24. október og konur og kvár hvött til þess að leggja niður störf allan þann dag. UN Women á Íslandi var meðal aðstandenda verkfallsins, sem bar yfirskriftina Kallarðu þetta jafnrétti? Meginþemað var kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn konum og kynsegin fólki og kerfisbundið vanmat á störfum kvenna. Atvinnutekjur kvenna eru enn 21% lægri en karla og hefðbundin kvennastörf eru talsvert verr launuð en karlastörf. 40% kvenna hafa orðið fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, trans fólk, þ.m.t. kvár, konur með fötlun og konur af erlendum uppruna verða fyrir meira ofbeldi en aðrir hópar.
Samstöðufundir og viðburðir fóru fram um allt land þennan dag. Talið er að um 100 þúsund einstaklingar hafi sótt samstöðufundinn á Arnarhóli. UN Women á Íslandi vonar að unnið verði markvisst að þeim kröfum sem settar voru fram í kringum kvennaverkfallið og að þetta verði í síðasta sinn sem konur og kvár þurfi að leggja niður störf til að vekja athygli á þeim viðvarandi ójöfnuði sem þau hafa þurft að búa við.

Áreitni ekki látin viðgangast

Alþjóðaknattspyrnusambandið setti Luis Rubiales, fyrrum forseta spænska knattspyrnusambandsins, í þriggja ára bann fyrir að grípa í fótboltakonuna Jenni Hermoso og kyssa hana án hennar samþykkis. Atvikið átti sér stað þegar spænska landsliðið fagnaði heimsmeistaratitlinum að loknum úrslitaleik liðsins gegn Englandi. Málið teygði anga sína víða og varð FIFA fyrst til þess að setja Rubiales í bann. Aftur á móti þverneitaði hann að segja af sér sem forseti spænska knattspyrnusambandsins. Spænskar fótboltakonur settu þrýsting á knattspyrnusambandið með því að neita að gefa kost á sér í landsliðið, væri Rubiales ekki vikið úr stjórn, með þeim afleiðingum að honum var á endanum vikið úr starfi.
UN Women og FIFA höfðu tekið höndum saman í kringum heimsmeistaramótið til að vekja athygli á þeim ójöfnuði og kynbundnu ofbeldi sem konur þurfa að glíma við utan og innan vallar. Líkt og óviðunandi hegðun Rubiales sannaði, er mikil þörf á slíkri vitundarvakningu.


Súdanskar konur berjast fyrir friði

Konur í Súdan hafa verið virkar í friðarhreyfingunni þar í landi, en um 6,6 milljónir hafa verið hraktar á flótta í átökunum á milli súdanska hersins og RSF skæruliðahópsins. Þá hafa meira en 12.000 verið drepin í átökunum frá því þau hófust um miðjan apríl.
Fjörutíu og níu kvenrekin félagasamtök hafa tekið höndum saman undir heitinu Peace for Sudan Platform, sem stutt er af UN Women í Súdan. Þessi félagasamtök reyna eftir bestu getu að styðja við konur á flótta, þolendur kynbundins ofbeldis og auka þátttöku kvenna í friðarviðræðum.


Kynjakvóti á vinnumarkaði

Í janúar á þessu ári samþykkti forseti Síerra Leóne lög sem kveða á um að minnst 30 prósent allra starfa í landinu, hvort heldur í opinbera geiranum eða einkageiranum, séu unnin af konum. Þá samþykkti hann lög um 14 vikna fæðingarorlof til kvenna. Manty Tarawalli, jafnréttisráðherra landsins, var driffjöðurin að baki lagabreytingunum. Hún segir að þrátt fyrir lög um kynjakvóta sé sigurinn langt frá því í höfn.
„Áskorunin núna, fyrir utan fjármagn til að fylgja breytingunni eftir, er að upplýsa fólk um lögin. Þessi lög eiga ekki aðeins að efla menntaðar konur eða konur sem búsettar eru í borgum, heldur allar konur í Síerra Leóne. Öll vita af lagabreytingunni, en hvaða þýðingu hafa lögin raunverulega fyrir konur í grasrótinni? Hvernig snertir þetta líf þeirra? Við þurfum að útskýra það svo að þær viti hver lagaleg réttindi þeirra eru,“ sagði Manty Tarawalli um vinnuna sem fram undan er.


100 milljónir vegna FO

Í upphafi ársins 2023 varð ljóst að með sölunni á FO vettlingum UN Women á Íslandi hafði almenningur á Íslandi styrkt starf UN Women á heimsvísu um meira en 100 milljónir króna frá árinu 2015 með kaupum á FO varningi. Landsnefnd UN Women á Íslandi er gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn sem okkur hefur verið sýndur í gegnum árin.


Tímamót í Óskarsverðlaunum

Leikkonan Michelle Yeoh varð fyrsta konan af asískum uppruna til þess að hreppa Óskarsverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki kvenna. Verðlaunin hlaut hún fyrir magnaðan leik í kvikmyndinni Everything Everywhere All at Once.


Hagfræðingur verðlaunuð fyrir rannsóknir á kynjuðum launamun

Bandaríski hagfræðingurinn Claudia Goldin hlaut Nóbelsverðlaunin í hagfræði í ár. Goldin er ekki fyrst kvenna til að hljóta þessi virtu verðlaun, því tvær konur hafa hlotið verðlaunin á undan henni (árin 2009 og 2019). Munurinn er hins vegar sá, að Goldin er fyrsta konan til að hljóta verðlaunin ein, í stað þess að deila þeim með karlkynskollega. Goldin var verðlaunuð fyrir rannsóknir sínar á kynjuðum launamun og þátttöku kvenna á vinnumarkaði.


Flest Grammy-verðlaun frá upphafi

Bandaríska tónlistarkonan Beyoncé hlaut fjögur Grammy-verðlaun árið 2023 og varð þar með sá einstaklingur sem hlotið hefur hvað flest Grammy-verðlaun frá upphafi. Beyoncé hefur unnið verðlaunin eftirsóttu alls 32 sinnum og hefur enginn tónlistarmaður eða -kona unnið verðlaunin jafn oft.

Manneskja ársins

Söngkonan Taylor Swift var valin manneskja ársins 2023 af tímaritinu Time. Við vildum velja einstakling sem stendur fyrir gleði. Einhvern sem lýsir upp heiminn. Taylor Swift var eins og veðrið, hún var allstaðar,“ sagði ritstjóri Times um valið á söngkonunni. Þegar miðasala á Eras-tónleikaröð söngkonunnar hófst, féll hvert sölumetið á fætur öðru og tónleikar hennar höfðu jafnframt jákvæð áhrif á hagkerfi þeirra ríkja sem hýstu þá. Það má því með sanni segja að árið 2023 hafi verið ár Taylor Swift.


Flutti mál fyrir hæstarétti á táknmáli

Indverski lögfræðingurinn Sarah Sunny skráði sig í sögubækurnar þegar hún varð fyrsti heyrnarlausi lögfræðingurinn til að flytja mál fyrir hæstarétti Indlands. Sunny, sem er 27 ára gömul, hafði áður þurft að flytja mál sín fyrir héraðsdómi í skriflegu formi, því dómarar töldu túlka ekki búa yfir nægilegri þekkingu á lagabókstafnum til að geta þýtt nægilega vel fyrir Sunny. Þegar Sunny flutti mál fyrir hæstarétti var hins vegar túlkur viðstaddur og þykir þetta vera mikill sigur fyrir fólk með fatlanir.
„Þetta eykur aðgengi ólíkra hópa að dómstólum. Eins vonum við að árangur Söruh verði hvatning fyrir aðra heyrnarlausa nemendur til að leggja lögfræðina fyrir sig,“ sagði samstarfskona Sunny við tímamótin.

 

Fyrsti kvenforseti Dóminíku

Stjórnmálakonan Sylvanie Burton varð fyrsta konan til að verða kosin forseti eyjunnar Dóminíku, sem er hluti Litlu-Antillaeyja. Hún er einnig fyrsti forseti ríkisins af Kalingó-uppruna, en þeir eru frumbyggjar Litlu-Antillaeyja í Karíbahafi. Burton var svarin í embætti í október á þessu ári.

 

UN Women á Íslandi óskar ykkur gleði, friðar og farsældar á komandi ári.

Takk fyrir ómetanlegan stuðning á árinu!

Related Posts