fbpx

Gaza: Segja að þetta sé ólíkt öllu sem þau hafa áður orðið vitni að

Heim / Fréttir / Gaza: Segja að þetta sé ólíkt öllu sem þau hafa áður orðið vitni að

Fólk á flótta í Gaza. Mynd/UN Women

Átökin á Gaza hafa haft gríðarleg áhrif á starfsemi UNRWA, Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna. Starfsfólk stofnunarinnar sinnir störfum sínum við stöðugan sprengjugný, mörg sjálf á flótta og að syrgja fjölskyldumeðlimi og samstarfsfólk sem drepin hafa verið í árásum Ísraelshers.

Juliette Touma, kynningastýra UNRWA, sagði í viðtali við UN News að starfsaðstæður UNRWA á Gaza væru gríðarlega erfiðar. Starfsfólk stofnunarinnar starfar við mjög hættulegar aðstæður en reyni eftir bestu getu að mæta þörfum þeirra tæplega 2 milljóna einstaklinga sem eru á flótta á svæðinu.

„Þessar aðstæður eru fordæmalausar í sögu UNRWA. Umfang árásanna, mannfallið, eyðileggingin og allur sá fjöldi fólks sem er á flótta, sorgin vegna drápanna á samstarfsfólki okkar og árásirnar á starfsstöðvar okkar. Ég hef aldrei séð neinu þessu líkt á 20 ára starfsferli mínum innan Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Juliette Touma.

„Umsátrið um borgina hefur jafnframt takmarkað flæði neyðaraðstoðar og nauðsynja á borð við vatn, mat og eldsneyti inn til Gaza. Það eru meira en 1,4 milljónir sem hafa leitað skjóls í UNRWA-búðum. Starfsfólk okkar er í áfalli og glímir við mikla sorg, þau eru mörg sjálf á flótta en gera sitt allra besta til að halda starfi sínu áfram. Á sama tíma höfum við þurft að glíma við fordæmalausa herferð gegn okkur, dreifingu falsfrétta, netárásir á heimasíðuna og fjáröflunarsíðuna okkar og lygum um starfsemi okkar sem hefur verið dreift markvisst á samfélagsmiðlum.“

UN News: Getur þú nefnt dæmi um slíkar árásir?

Juliette Touma: „Við höfum sætt árásum vegna þess námsefnis sem er kennt í skólunum sem við rekum. Við erum eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem rekur skóla og við rekum samtals um 700 skóla víðs vegar um Palestínu.

Við notum sömu skólabækur og eru á námskrá palestínskra stjórnvalda, en við þjálfum kennara okkar til að styðja við gagnrýna hugsun og vinna samkvæmt gildum Sameinuðu þjóðanna, sem ganga út á frið og umburðarlyndi en ekki hatur.

Starfsfólk okkar hefur verið sakað um að taka persónulega þátt í vopnuðum átökum, þau hafa verið sökuð um að starfa fyrir skæruliðahópa. Þessar ásakanir torvelda starf UNRWA, sem er í dag stærsta mannúðar- og hjálparstofnunin sem er starfandi á Gaza og hýsir um 1,4 milljónir í búðum sínum.“

 UN News: Þessi gagnrýni á störf ykkar hafði þó heyrst fyrir 7. október, hún hefur í raun heyrst allt frá upphafi.

Juliette Touma: Það er rétt. Við erum ein af elstu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og sú stærsta sem er starfandi á Gaza. Hér höfum við verið í næstum 70 ár. Stærsta verkefni okkar snýst að menntun, en því miður höfum við þurft að loka öllum okkar skólum á Gaza eftir 7. október og hefur þeim verið breytt í neyðarskýli. Við veitum einnig heilbrigðisþjónustu til meira en milljón einstaklinga og mataraðstoð til 1,2 milljóna einstaklinga. Þá höfum við stutt fjárhagslega við fjölskyldur og rekið nokkur „cash-for-work“ verkefni.

Samfélagið á Gaza ber traust til UNRWA, sem er ástæðan fyrir því að þau hafa leitað hér skjóls. Þau treysta því að blái fáni Sameinuðu þjóðanna veiti þeim vernd.“


UN News:
Meira en 100 starfsstöðvar ykkar hafa eyðilagst í árásum og meira en 135 starfsmenn stofnunarinnar verið drepnir í þeim árásum. Hvernig tekst ykkur að halda starfinu áfram þrátt fyrir þessar aðstæður?

Juliette Touma: Teymið okkar á Gaza er samansett af hetjum. Fólkið okkar veitir aðstoð, sáluhjálp og ráðgjöf til íbúa alla daga. Mörg hafa gengið í ýmis önnur störf sem virðast í fyrstu einföld eða ómerkileg – eins og að safna og farga rusli – en ruslahaugar í grennd við tjaldbúðir geta stórlega ógnað lífi og heilsu fólks á átakasvæðum. 70% þeirra sem starfa fyrir UNRWA eru sjálf á flótta, hafa misst fjölskyldumeðlimi, vini og samstarfsfólk. Þau hafa misst heimili sín en mæta samt til starfa hvern einasta dag. Þetta sýnir seigluna og þá sterku samfélagskennd sem einkennir Gaza. Samfélag sem hefur búið við takmarkanir og lokanir í 15 ár og þolað ítrekaðar árásir.“


UN News:
Þið hljótið að hugsa mikið um hvernig þetta mun enda?

Juliette Touma: „Nei, einfaldlega vegna þess að við verðum að einbeita okkur að því sem er að eiga sér stað einmitt þá stundina. Teymið okkar samanstendur af fólki með gríðarlega reynslu af mannúðarstarfi við vopnuð átök eða eftir hamfarir. Þau segja öll að þetta sé ólíkt öllu sem þau hafa áður orðið vitni að.  Þess vegna eru áherslur okkar þessa stundina á fólkinu á Gaza, að berjast fyrir því að fá nægar vistir og neyðaraðstoð inn á svæðið, að segja heiminum frá því sem er að eiga sér stað og tala fyrir lokum þessa stríðs.“

 

Related Posts
Allsherjarþing, Gaza, vopnahlé, UN Photo/Loey Felipe