fbpx

Ályktun um mannúðarvopnahlé á Gaza samþykkt af meirihluta

Heim / Fréttir / Ályktun um mannúðarvopnahlé á Gaza samþykkt af meirihluta

Ályktun um tafarlaust mannúðarvopnahlé var samþykkt af meirihluta aðildarríkja SÞ í gær. UN Photo/Loey Felipe

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi ályktun um mannúðarvopnahlé á Gaza. Ályktunin var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta og var Ísland á meðal þeirra 153 ríkja er studdu við ályktunina. Tíu ríki kusu gegn, þar á meðal Bandaríkin og Ísrael, og 23 sátu hjá.

Ályktunin er ekki bindandi, enda er öryggisráð Sameinuðu þjóðanna eina stofnun SÞ sem hefur ákvörðunarvald. Ályktunin endurspeglar aftur á móti vilja og skoðanir ríkja heimsins og setur aukinn þrýsting á Ísrael og Bandaríkin að koma á mannúðarvopnahléi og tryggja neyðaraðstoð til Gaza. Ekkert stórveldanna kaus með Bandaríkjunum og Ísrael gegn ályktuninni.

Breytingartillögur Bandaríkjanna og Austurríkis um að ályktunin fordæmi einnig Hamas voru í tvígang felldar. Ísland studdi þær breytingartillögur.

Ályktunin ítrekaði kröfu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, um nauðsyn þess að allir hlutaðeigandi virtu alþjóðalög í hvívetna, þá einkum þegar horft er til öryggis almennra borgara.

Dennis Francis, forseti allsherjarþingsins sagði í opnunarerindi sínu að hermenn hefðu sýnt djúpstætt virðingarleysi fyrir alþjóðalögum og alþjóðlegum mannúðarlögum. „Jafnvel um stríð gilda reglur og við megum ekki víkja frá þeim grundvallarreglum og gildum,“ sagði hann.

Þá benti hann á að meirihluti þeirra sem drepin hafa verið í átökunum séu konur og börn. „Forgangsverkefni okkar er aðeins eitt – að bjarga mannslífum. Stöðvum þetta ofbeldi núna,“ ítrekaði hann.

Related Posts