fbpx

Samfélagið skapar aðstæður sem leyfa kynbundnu ofbeldi að þrífast

Heim / Fréttir / Samfélagið skapar aðstæður sem leyfa kynbundnu ofbeldi að þrífast

Finnborg S. Steinþórsdóttir hélt erindi á Ljósagöngu UN Women á Íslandi 2023. Myndir/Grace Barbörudóttir

Ljósa­ganga UN Women á Íslandi fór fram laugardaginn 25. nóvember, á Alþjóðleg­um bar­áttu­degi Sam­einuðu þjóðanna gegn kyn­bundnu of­beldi. Dag­ur­inn mark­ar jafnframt upp­haf 16 daga átaks gegn kyn­bundnu of­beldi sem UN Women á Íslandi er í for­svari fyr­ir ásamt Mannréttindaskrifstofu Íslands og fjölda annarra félagasamtaka.

Yf­ir­skrift Ljósa­göng­unn­ar í ár var Engar afsakanir! Fjárfestum í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi!  Og leiddi Finnborg Salome Steinþórsdóttir hjá Femínískum fjármálum gönguna. Hér að neðan má lesa erindi Finnborgar Salomear:

„Við erum hér samankomin á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, fyrsta degi 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi, til að krefjast framtíðar án  ofbeldis! UN Women hafa vakið athygli á að um þriðjungur kvenna og stúlkna í heiminum, eða um það bil 736 milljónir kvenna, hafi orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum og/eða kynferðisofbeldi að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni. Kynferðisleg áreitni er ekki talin með hér. Þetta er veruleiki kvenna og stúlkna í öllum heiminum, hvort sem í Bandaríkjunum, Úganda eða á Íslandi. Konur á átakasvæðum búa við aukna hættu á að verða fyrir ofbeldi –sem leiðir huga minn að hryllilegri stöðu kvenna og barna á Gaza, en þau sem enn lifa af þjóðarmorð Ísraels eru á flótta undan stöðugum sprengjuárásum og búa við vægast sagt hræðilegar og ómannúðlegar aðstæður. Aðstæður sem eru í sjálfu sér ofbeldisfullar, en þær auka hættuna á enn frekara ofbeldi. Við þurfum líka að líta okkur nær.

Hér á Íslandi, landi sem stærir sig af því að vera efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna nú fjórtánda ár í röð, hafa 40% kvenna orðið fyrir líkamlegu og/eðakynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni –staða sem hefur ekkert batnað frá því við mældum það fyrst árið 2008. Þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi ávinnustað sínum yfir starfsævina. Algengustu gerendur þeirra eru karlkyns yfirmenn, samstarfsmenn og þjónustuþegar. Kynbundið ofbeldi er vitnisburður um valdaójafnvægi  í samfélaginu, innan stofnanna þess og innan fjölskyldna – staðan er því enn verri þegar við tökum tillit til annarra félagslegar þátta. Konur, kvár og börn  sem tilheyra jaðarsettum hópum og minnihlutahópum í samfélaginu eru í aukinni hættu á að vera þolendur ofbeldis.

Fatlaðar konur og börn eru í mestri hættu að verða fyrir ofbeldi í íslensku samfélagi. Trans konur og kynsegin fólk er í aukinni hættu á að verða fyrir kynbundnuofbeldi vegna kynvitundar sinnar. Konur sem tala ekki íslensku fá oft rangar upplýsingar frá þeim sem beita þær ofbeldi, og margþættar hindranir koma í veg fyrir að þær fái viðunnandi aðstoð. Við vitum að afleiðingar kynferðisofbeldis hafa víðtæk áhrif á líf brotaþola, má þar nefna andlega vanlíðan, líkamleg veikindi og félagslega útilokun  – en ofbeldið hefur áhrif á þáttöku þolenda á vinnumarkaði og í samfélaginu almennt.

Þolendur þurfa oft að leggja út fyrir heilbrigðisþjónustu, s.s. vegna lyfja og sálfræðinga. Það er kostnaður sem mjög margar konur ráða ekki við með þeim tekjum sem þær hafa. En kynbundinn munur á tekjum er vitnisburður um það hvernig samfélagið skapar aðstæður sem leyfa kynbundnu ofbeldi að þrífast, því fjárhagslegt óöryggi er oft hindrun fyrir því að konur geti slitið ofbeldissambandi. Kynbundið ofbeldi hefur gífurlegar afleiðingar á samfélagið í heild. Ofbeldi í nánum samböndum hefur skaðleg áhrif á börn og aðra fjölskyldumeðlimi. Samfélagið þarf að standa straum af heilbrigðiskostnaði vegna kynbundins ofbeldis. En 40% kvenna sem leita til bráðamóttöku hér á landi vegna ofbeldis í nánum samböndum gera það oftar en einu sinni. Innan vinnustaða þá hafa óásættanlegar vinnuaðstæður vegna kynferðislegrar áreitni ekki aðeins áhrif á líðan, þátttöku og frammistöðu þolanda, heldur hefur áreitnin áhrif á allan starfshópinn. Það leiðir af sér minni framleiðni, tíðari fjarveru og aukna starfsmannaveltu – sem er heldur betur kostaðarsöm!

Ríkið verður af skatttekjum þeirra sem hverfa frá vinnu vegna kynbundins ofbeldis, sum í styttri tíma en önnur í lengri tíma og jafnvel á örorku  -og þá færist þungi yfir á velferðarkerfið okkar. Það er ekki aðeins réttlætismál að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum og fjárfesta í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi –  heldur er það efnahagslega skynsamlegt og er það fjárfesting sem mun skila sér margfalt til baka!

Við stöndum hér saman í dag og skorum á stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki til að fjárfesta í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Það þarf fjármagn til að stórefla þjónustu við þolendur og fjölskyldur þeirra innan velferðarkerfisins, heilbrigðiskerfisins og réttarvörslukerfisins. Það þarf að stórefla framlög til samtaka sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi og veita þolendum aðstoð, en þeirra frábæru störf eru oft unnin í skugga fjárhagslegs óöryggis. Við þurfum að ráðast á rót vandans, brjóta upp kynjakerfið og önnur samtvinnuð valdakerfi og vinna að félagslegu réttlæti. Fjárfesta þarf kerfisbundið að því að útrýma misrétti og þeim aðstæðum sem leyfa  kynbundnu ofbeldi að þrífast – sem og tryggja þarf fjárhagslegt frelsi kvenna og kvára.

Stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki þurfa að fjárfesta í stefnum, áætlunum og verkefnum sem stuðla að jafnrétti, það þarf að tryggja að slíkar áætlanir verði ekki aðeins upp á punt – heldur þarf að fylgja þeim eftir,  þjálfa starfsfólk, innleiða aðgerðir, safna gögnum, meta stöðuna og vinna að stöðugri endurskoðun. Markmiðið þarf að vera að búa til samfélag sem er betra, réttlátara  oglíklegra til að henta fólki af öllum kynjum og öllum hópum samfélagsins. Stjórnvöld hafa sýnt okkur í viðbrögðum sínum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga að þau eru fullfærum að bregðast við þegar hætta steðjar að. Bregðast þarf við af svipuðum þunga við þeim heimsfaraldri sem kynbundið ofbeldi er! Staðan er grafalvarleg og það eru engar afsakanir fyrir því að fjármagna ekki baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi!“

UN Women á Íslandi hefur skorað á íslensk stjórnvöld og fyrirtæki að bregðast við þeim faraldri sem kynbundið ofbeldi er, með því að tryggja nægt fjármagn til verkefna sem stuðla að upprætingu þess og auka vitund um afleiðingar kynbundins ofbeldis.

Hægt er að skrifa undir áskorunina hér.

 

 

 

 

Related Posts
Harpa, Ljósaganga, orangeAllsherjarþing, Gaza, vopnahlé, UN Photo/Loey Felipe