fbpx

Áskorun til íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja að fjárfesta í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi

Heim / Fréttir / Áskorun til íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja að fjárfesta í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi
Harpa, Ljósaganga, orange

Tónlistarhúsið Harpa hefur verið lýst upp í appelsínugulum lit síðustu ár til að marka 25. nóvember.

Ljósa­ganga UN Women á Íslandi fer fram í dag, laugardaginn 25. nóvember kl. 17:00, á alþjóðleg­um bar­áttu­degi Sam­einuðu þjóðanna gegn kyn­bundnu of­beldi. Dag­ur­inn mark­ar jafnframt upp­haf 16 daga átaks gegn kyn­bundnu of­beldi en UN Women á Íslandi er í for­svari fyr­ir átakið ásamt Mannréttindaskrifstofu Íslands og fjölda annarra félagasamtaka.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir hjá Femínískum fjármálum leiðir gönguna ásamt Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. Gang­an hefst klukk­an 17:00 við styttu Ing­ólfs Arn­ar­son­ar á Arn­ar­hóli, þaðan sem gengið verður suður Lækj­ar­götu og upp Amt­manns­stíg. Göngunni lýkur á Bríetartorgi með stuttri samverustund þar sem Hljómfélagið flytur nokkur lög og boðið verður upp á heitt kakó.

Sem fyrr verður Harpan lýst upp í app­el­sínu­gul­um lit í tilefni dagsins, en appelsínuguli liturinn táknar framtíð án ofbeldis og er litur Alþjóðlegs baráttudags gegn kynbundnu ofbeldi.

Facebook viðburður Ljósagöngunnar

 

UN Women á Íslandi skora á íslensk stjórnvöld og fyrirtæki 

Í tilefni af 16 daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi skora UN Women á Íslandi á íslensk stjórnvöld og fyrirtæki að bregðast við þeim faraldri sem kynbundið ofbeldi er, með því að tryggja nægt fjármagn til verkefna sem stuðla að upprætingu þess og auka vitund um afleiðingar kynbundins ofbeldis. Áskorunin, með undirskriftum, verður afhent stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins að 16 daga átaki loknu.

Taktu þátt í áskoruninni og skrifaðu undir!

 

Í áskoruninni segir:

Ofbeldi gegn konum og stúlkum raskar friði og stöðugleika innan fjölskyldna og samfélaga. Það kostar samfélög heilmikið í heilbrigðisþjónustu, menntun, félagslegri vernd, réttlæti og framleiðni, og kemur í veg fyrir að einstaklingar og samfélög blómstri að fullu. Kostnaður við heimilisofbeldi á Íslandi hefur verið tekinn saman og nam um 100 milljónum króna á tímabilinu 2005 til 2014, samkvæmt hagdeild Landspítalans. Þá er aðeins verið að taka inn í reikninginn þær konur sem sækja sér aðstoðar vegna áverka og segja á annað borð frá ofbeldinu. Finnsk rannsókn sýndi að konur sem koma á spítala vegna heimilisofbeldis og segja frá, eru aðeins um 10% af heildinni. Þarna er ekki heldur verið að taka tillit til langtímaáhrifa á borð við vinnutap, ótímabæran dauða, minnkuð afköst, áhrif á börn, lyfjakostnað eða sálfræðikostnað. Lausnin felst í öflugum viðbrögðum, þar á meðal fjárfestingu í forvörnum og þolendamiðaðri þjónustu.

Íslensk stjórnvöld veita aðgerðabandalagi um kynbundið ofbeldi forystu í tengslum við átakið Kynslóð jafnréttis til næstu fimm ára. Skuldbindingar Íslands í tengslum við átakið eru 23 talsins og hafa að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi með auknum forvörnum, bættu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi og eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við bæði þolendur og gerendur. Hér þarf þó að tryggja nægt fjármagn til framtíðar, öfluga eftirfylgni og úttektir á verkefnum svo hægt sé að beita sér á þeim sviðum þar sem uppá vantar.

Rétturinn til lífs án ofbeldis

Það er réttur allra að fá að lifa og starfa án ótta við að vera beitt ofbeldi eða áreitni. Raunin er hins vegar sú að konur í öllum starfsstéttum eiga á hættu að vera beittar kynferðislegu ofbeldi og áreitni við störf sín. Konur sem búa við lítið starfsöryggi, tilheyra minnihlutahópum og/eða starfa einangraðar frá öðrum eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi.

Kynbundið ofbeldi og áreitni á vinnustað eru gróf brot á mannréttindum og koma í veg fyrir að konur njóti fulls jafnréttis á vinnumarkaði. Ofbeldi hefur skaðleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu kvenna og getur hamlað atvinnuþátttöku þeirra og vinnuframlagi. Það er því ekki síður nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki leggi sitt af mörkum við að uppræta kynbundið ofbeldi og fjárfesti í því að breyta ríkjandi menningu og venjum á vinnustöðum, tryggja að starfsfólk og trúnaðarfólk þeirra búi yfir þekkingunni sem þarf til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi og áreitni með því að styðja við þolendur ofbeldis.

Stjórnvöld, atvinnurekendur, stéttarfélög og almenningur þurfa öll að leggja sitt af mörkum ef uppræta á þennan faraldur, og við vitum hvað þarf til: heildræna löggjöf sem verndar konur og stúlkur, þolendamiðaða og heildræna þjónustu í kjölfar brots, öfluga þjálfun til heilbrigðisstarfsfólks og löggjafarvaldsins, samfellda kennslu í kynjafræði og kynfræðslu á öllum skólastigum, nægt fjármagn til reksturs félagasamtaka sem sinna þörfum þolenda og berjast fyrir réttindum kvenna, fræðslu og vitundarvakningu til fyrirtækja og almennings og gögn til að meta áhrif laga og verkefna. Þá þarf að tryggja í ríkisfjárlögum nægilegt fjármagn til baráttunnar gegn kynbundnu ofbeldi til framtíðar. Ísland gæti þar með orðið fyrsta ríkið í heiminum til að tryggja að fullu öryggi og þar með lífsgæði kvenna og stúlkna.

Nú stendur yfir árlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Í ár ber átakið yfirskriftina Unite! Invest to Prevent Violence Against Women and Girls og er það hvatning til einstaklinga, fyrirtækja og stjórnvalda um allan heim um að sameinast og fjárfesta í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi með það að markmiði að uppræta það.

Við skorum á stjórnvöld og fyrirtæki að forgangsraða heilsu og lífi kvenna og stúlkna með því að fjárfesta í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

 

   

Related Posts