fbpx

Ljósaganga UN Women á Íslandi á Alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi

Heim / Fréttir / Ljósaganga UN Women á Íslandi á Alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi
Harpa, Ljósaganga, orange

Tónlistarhúsið Harpa hefur verið lýst upp í appelsínugulum lit síðustu ár til að marka 25. nóvember.

Ljósa­ganga UN Women á Íslandi fer fram laugardaginn 25. nóvember kl. 17:00, á Alþjóðleg­um bar­áttu­degi Sam­einuðu þjóðanna gegn kyn­bundnu of­beldi. Dag­ur­inn mark­ar jafnframt upp­haf 16 daga átaks gegn kyn­bundnu of­beldi sem UN Women á Íslandi er í for­svari fyr­ir ásamt Mannréttindaskrifstofu Íslands og fjölda annarra félagasamtaka.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir hjá Femínískum fjármálum leiðir gönguna ásamt Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. Gang­an hefst klukk­an 17:00 við styttu Ing­ólfs Arn­ar­son­ar á Arn­ar­hóli, þaðan sem gengið verður suður Lækj­ar­götu og upp Amt­manns­stíg. Göngunni lýkur á Bríetartorgi með stuttri samverustund þar sem Hljómfélagið flytur nokkur lög og boðið verður upp á heitt kakó.

Sem fyrr verður Harpan lýst upp í app­el­sínu­gul­um lit í tilefni dagsins, en appelsínuguli liturinn táknar framtíð án ofbeldis og er litur Alþjóðlegs baráttudags gegn kynbundnu ofbeldi.

Um 16 daga átakið gegn kynbundnu ofbeldi

16 daga átakið gegn kynbundnu ofbeldi er alþjóðlegt átak sem hefst 25. nóvember (á Alþjóðlegum degi gegn kynbundnu ofbeldi) ár hvert og lýkur 10. desember, á Alþjóðlega mannréttindadeginum. Þann 10. desember verða 75 ár liðin frá því að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt, en kynbundið ofbeldi er einmitt talið eitt víðtækasta mannréttindabrot heims.

Yfirskrift 16 daga átaksins í ár er UNITE! Invest to prevent violence against women and girls. Einnig er notast við myllumerkið #NoExcuse, eða #EngarAfsakanir í tengslum við átakið í ár – enda er engin góð afsökun til fyrir því að fjárfesta ekki í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

  • Á ári hverju verða 245 milljónir kvenna og stúlkna um allan heim fyrir líkamlegu- og/eða kynferðislegu ofbeldi af hendi maka.
  • 86% kvenna og stúlkna búa í ríkjum sem veita ekki lagalega vernd gegn kynbundnu ofbeldi
  • 614 milljón kvenna og stúlkna bjuggu á átakasvæðum árið 2022, þetta er 50% fleiri konur og stúlkur en árið 2017. Konur og stúlkur á átakasvæðum búa við aukna hættu á að verða fyrir ofbeldi, þar með talið heimilisofbeldi. Tíðni heimilisofbeldis er 2,4 sinnum hærri á svæðum þar sem ótryggt ástand ríkir.
  • 360 milljarða Bandaríkjadala kostar það að koma jafnrétti á í heiminum og þar með uppræta kynbundið ofbeldi. Það er um það bil 2/3 þeirrar upphæðar sem heimurinn eyðir í kaffi á hverju ári.
Related Posts