fbpx

Alþjóðlegi klósettdagurinn: Verum eins og kólibrífugl og hröðum breytingum!

Heim / Fréttir / Alþjóðlegi klósettdagurinn: Verum eins og kólibrífugl og hröðum breytingum!

Alþjóðlegi klósettdagurinn er 19. nóvember, en salerni eru grunnstoð lýðheilsu og gegna mikilvægu hlutverki við að vernda umhverfið. Þema dagsins í ár er ,,Hröðum breytingum“ (e. Accelerating change) og er kólibrífuglinn tákn dagsins.

Í fornri sögu gerir kólibrífugl hvað hann getur til að berjast við mikinn eld með því að bera vatnsdropa í goggnum sínum. Aðgerðir fuglsins – þótt þær séu litlar – hjálpa til við að leysa stórt vandamál. Á alþjóðlega klósettdeginum í ár er fólk beðið um að „vera eins og kólibrífugl“ – að grípa til einfaldra aðgerða til að flýta fyrir breytingum svo bæta megi salernis- og hreinlætisaðstæður fólks þar sem þörf er á.

 

Langt í land

Heimsmarkmið nr. 6 um örugg salerni og vatn fyrir öll fyrir árið 2030 er langt frá því að verða að veruleika eins og staðan er núna. Stjórnvöld og stofnanir verða að bera ábyrgð á því að standa við loforð sín og hvert og eitt okkar verður að gera það sem við getum til að hraða framförum.

  • 3,5 milljarðar jarðarbúa lifa án öruggs salernis og 2,2 milljarðar án öruggs drykkjarvatns.
  • 419 milljónir fara enn á klósettið undir berum himni.
  • 2 milljarðar eða fjórðungur jarðarbúa, skortir grunnaðstöðu heima við til að þvo hendur sínar með sápu og vatni.
  • Ótryggt vatn, hreinlætisaðstaða og lélegt hreinlæti orsaka dauðsföll hjá um 1.000 börnum undir fimm ára aldri á hverjum degi. (UNICEF 2023)
  • Miðað við núverandi þróun munu 3 milljarðar fólks enn búa án öruggra salerna árið 2030, 2 milljarðar án öruggs drykkjarvatns og 1,4 milljarðar mun skorta grunn-hreinlætisaðstöðu.

Að skilja svo mörg eftir án aðgengis að öruggum klósettum setur öll áform um að ná heimsmarkmiðunum fyrir árið 2030 í uppnám. Það bitnar verst á fátækasta fólkinu, sérstaklega konum og stúlkum, sem upplifa heilsubrest, skort á menntun, minni framleiðni og almennt óöryggi.

 

Verkefni UN Women

UN Women beitir sér meðal annars fyrir því að konur og stúlkur um allan heim búi við aðgengi að öruggum salernum og hreinlætisaðstöðu. Þetta á ekki síst við um konur á flótta og aðra jaðarsetta hópa en þar sem viðbragðsaðilar, starfsfólk félagasamtaka og þeir sem stýra ákvarðanatökum eru oftar en ekki karlmenn, gleymast grunnþarfir kvenna og stúlkna oftar en ekki þegar neyðaraðstoð er veitt og við uppsetningu á flóttamannabúðum. Illa upplýst salerni sem staðsett eru í útjaðri flóttamannabúða eru hættuleg konum og stúlkum, sérstaklega eftir myrkur. Mörg dæmi eru um að konur og stúlkur þori ekki á snyrtinguna eftir að rökkva tekur sem getur leitt til ýmissa heilsufarlegra vandamála. Staðsetning salernisaðstöðu þarf jafnframt að vera aðgengileg þeim sem  eru með skerta hreyfigetu. Einföld atriði eins og staðsetning salernis- og þvottaaðstöðu getur aukið öryggi kvenna og stúlkna svo um munar.

 

 

 

En hvað getum við gert?

Á alþjóðlega klósettdeginum hvetjum við þig til að:

  • Tala um mikilvæg tengsl milli salerna, vatns og blæðinga.
  • Hugaðu að þínu umhverfi og gættu þess að vatns- og úrgangsrör leki ekki og tæmdu fullar rotþrór.
  • Ekki setja matarúrgang, olíur, lyf og efni í salerni eða niðurföll.
  • Þrýstu á kjörna fulltrúa í þínu umhverfi til að bæta vatns- og hreinlætisaðstöðu, bæði hér heima og erlendis, með auknum fjárveitingum.

 

Klósett er lítið en magnað fyrirbæri – alveg eins og kólibrífugl!

Nánari upplýsingar um alþjóðlega klósettdaginn og hvernig þú getur lagt þitt af mörkum má finna hér og hér.

Related Posts
Líbanon, Beirút, Sameinuðu þjóðirnar, Gaza, minnast látinna samstarfsmannaHarpa, Ljósaganga, orange