fbpx

100 milljónir með FO varningi UN Women á Íslandi

Heim / Fréttir / 100 milljónir með FO varningi UN Women á Íslandi

FO varningur UN Women á Íslandi hefur safnað yfir 100 milljónum í verkefni UN Women sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi.

Fokk ofbeldi herferð UN Women á Íslandi leit fyrst dagsins ljós árið 2015 þegar UN Women á Íslandi hóf sölu á FO armböndum. Síðan þá hefur ýmiss konar FO varningur verið framleiddur undir sömu formerkjum og seldur til styrktar verkefnum UN Women sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi.

Árið 2022 var nýr tónn sleginn og ákveðið að framleiða FO vettlinga til styrktar hinsegin verkefnum UN Women. Þörfin var knýjandi þar sem hinsegin sjóður UN Women hafði staðið tómur síðan í maí 2022.

Hér er hægt að lesa nánar um hinsegin verkefni UN Women.

Vettlingarnir sem framleiddir voru af VARMA í samstarfi við Sjóvá og hannaðir af Védísi Jónsdóttur, prjónahönnuði eru einstakir og hefur landsnefndin ekki annað eftirspurn frá því að þeir voru kynntir til leiks. Samtals söfnuðust 14.974.410 krónur með sölu á FO vettlingunum. Við erum afskaplega snortin og þakklát fyrir viðtökurnar.
Frá árinu 2015 hefur almenningur á Íslandi styrkt starf UN Women á heimsvísu um 104.736.322 krónur með kaupum á FO varningi.

Þúsund þakkir

Íslenska landsnefnd UN Women á Íslandi vill koma á framfæri innilegum þökkum fyrir stuðninginn í gegnum árin. Það skiptir máli að styðja við starf UN Women með þessu hætti. Það er almenningi á Íslandi að þakka að hinsegin sjóðurinn er ekki lengur tómur. Það er einnig þeim að þakka að íslenska landsnefndin sendir hæsta framlag allra landsnefnda til kjarnaverkefna UN Women ár eftir ár.

Það er vel við hæfi að hefja árið 2023 á því að senda þakkir til þeirra þúsunda mánaðarlegra styrktaraðila og bakhjarla sem gera þennan árangur raunhæfan.

Ljósberar og ljósgefar um allt land – takk!

Related Posts