fbpx

Konur sem skráðu sig í sögubækurnar 2022

Heim / Fréttir / Konur sem skráðu sig í sögubækurnar 2022

Árið 2022 var ekki sérstaklega gott ár þegar horft er til réttinda kvenna og stúlkna. Algjör jöfnuður mun ekki nást fyrr en eftir 286 ár, haldi þróunin áfram á sama hraða og verið hefur fram að þessu.

Konur um allan heim misstu áunnin réttindi sín á svipstundu. Talíbanastjórnin í Afganistan rændu afganskar konur öllum mannréttindum sínum, í Bandaríkjunum var réttur þúsunda kvenna til þungunarrofs afnuminn og glæpavæddur, konur í Úkraínu voru markvisst beittar kynferðislegu ofbeldi af hálfu rússneskra hermanna og konur í Íran mættu ofbeldi og handtökum af hendi stjórnvalda er þær mótmæltu mannréttindabrotum þeirra.

En þrátt fyrir fjöldan allan af bakslögum í réttindabaráttu kvenna, héldu konur áfram að brjóta múra og glerþök víða um heim.

Ketanji Brown Jackson

Fyrsta svarta konan skipuð í Hæstarétt Bandaríkjanna
Ketanji Brown Jackson tók sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Brown Jackson var tilnefnd af forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, til að taka við af Sephen G. Breyer. Tilnefningin var tekin til atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni og var samþykkt með 53 atkvæðum gegn 47.
Embættistaka Brown Jackson er söguleg fyrir þær sakir að hún er fyrsta svarta konan til að gegna embættinu. Þá er hún aðeins sjötta konan sem tekur sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna í 233 ára sögu hans, og þriðji einstaklingurinn af Afrískum-Amerískum uppruna.

Ayesha Malik


Ayesha Malik fyrst kvenna til að gegna embætti hæstaréttardómara í Pakistan
Ayesha Malik varð fyrsta konan til að taka sæti dómara við Hæstarétt Pakistan. Malik stundaði laganám við Harvard í Bandaríkjunum og gengdi stöðu dómara í Lahore í tvo áratugi áður en hún var skipuð í embætti dómara við Hæstaréttinn. Hún er ötul baráttukona fyrir réttindum kvenna og fór meðal annars fyrir því að banna með öllu „meydóma skoðanir“ sem gerðar voru á þolendum kynferðisbrota í Lahore fylki.

 

Stéphanie Frappart

Fyrsta konan til að dæma leik á HM karla
Þann 1. desember varð Stéphanie Frappart fyrsta konan til að dæma í fótboltaleik karla á HM. Frappart dæmdi leik Þýskalands og Kosta Ríka. Aðstoðardómarar hennar tveir voru einnig konur, hin brasilíska Neuza Back og hin mexíkóska Karen Diaz Medina.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hin franska Frappart brýtur blað í dómarasögunni því hún var einnig fyrsta konan til að dæma fótboltaleik karla á Evrópumótinu árið 2019, fyrsta konan til að dæma leik í Ligue 1 fótboltadeildinni og fyrsta konan til að dæma leik í UEFA Champions League.

Karine Jean-Pierre

Fyrsta svarta konan upplýsingafulltrúi Hvíta hússins
Karine Jean-Pierre varð bæði fyrsta svarta manneskjan sem jafnframt er opinberlega hinsegin til að sinna stöðu upplýsingafulltrúa Hvíta hússins. Hún hafði starfað á skrifstofu upplýsingafulltrúa Hvíta hússins síðan Biden tók við embætti en tók við stöðu upplýsingafulltrúa af Jen Psaki í maí. Upplýsingafulltrúar Hvíta hússins gegna mikilvægu hlutverki og mæta daglega til blaðamannafunda til að upplýsa almenning um stöðu mála. Hún fæddist á frönsku eyjunni Martinique í Karabíahafi en ólst upp í Queens í New York.

Karine Jean-Pierre

Braut múra á Óskarsverðlaununum
Ariana DeBose braut glerþak á Óskarsverðlaununum í ár en hún er fyrsta dökka opinberlega hinsegin konan til að vinna til Óskarsverðlauna fyrir leik í kvikmynd. Hún hlaut verðlaun fyrir besta leik í aukahlutverki fyrir hlutverk sitt sem Anita í West Side Story.

 

 

Gloria Julia King

Sú fyrsta í fjórtán ár
Í  Suður-Kyrrahafseyríkinu Vanúatú gerðist það að Gloria Julia King varð fyrsta konan í fjórtán ár sem kjörin var á löggjafaþing landsins. En sex aðrar konur gáfu kost á sér án árangurs. Íbúar Vanúatú eru rúmlega 314.000 og eyríkð því aðeins fámennara en Ísland. King hefur komið víða við á ferli sínum, hún hefur meðal annars verið atvinnukona í fótbolta og staðið í fyrirtækjarekstri. Hennar helsta stefnumál er að veita konum aukin tækifæri í viðskiptalífinu og því ljóst að mikilvæg rödd komst að á löggjafaþingi Vanúatú í ár.

 

Maura Healey

Fyrsta opinberlega hinsegin konan sem ríkisstjóri
Maura Healey skrifaði sig í sögubækurnar þegar hún var kosin sem ríkisstjóri í Massachusetts ríki í Bandaríkjunum. Hún er fyrsta opinberlega hinsegin konan til að gegna embætti ríkisstjóra.

Related Posts
Skólastúlkur í Herat, Afganistan