fbpx

Sima Bahous: Bann við námi afganskra kvenna er skelfilegt og skammsýnt

Heim / Fréttir / Sima Bahous: Bann við námi afganskra kvenna er skelfilegt og skammsýnt
Skólastúlkur í Herat, Afganistan

Búið er að banna afgönskum konum og stúlkum að sækja sér framhalds- og háskólamenntun. Shutterstock/Solmaz Daryani

Framkvæmdastýra UN Women, Sima Bahous, segir ákvörðun talíbanastjórnarinnar um að banna afgönskum konum að sækja sér framhaldsmenntun vera jafn skammsýna og hún er skelfileg. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér vegna málsins, segir hún áframhaldandi atlögur talíbana að réttindum afganskra kvenna vera einsdæmi í heiminum í dag.

„Konur hafa ávalt leikið veigamikið hlutverk í framþróun Afganistans og þrátt fyrir gríðarlegt mótlæti hafa afganskar konur haldið áfram að sækja sér háskólamenntun. Menntastofnanir landsins voru orðin einu opinberu rýmin sem konur gátu sótt og haldið áfram að læra og efla sig. Ákvörðunin um að banna konum að stunda háskólanám er að hunsa með öllu framlag þeirra til landsins í sögulegu samhengi og kemur í veg fyrir að þær geti látið hæfileika sína blómstra.

Sima Sami Bahous, UN Women

Sima Sami Bahous, framkvæmdastýra UN Women.

Líkt og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sagt er bannið gróft brot á rétti kvenna og stúlkna til náms og mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir framtíð landsins alls. Bannið mun aðeins ýta undir efnhagslegar þrengingar landsins og einangra það enn frekar frá alþjóðasamfélaginu. Án menntunar mun heil kynslóð afganskra kvenna og stúlkna ekki þróa með sér þá hæfni sem þær þurfa svo þær geti tekið þátt í framþróun landsins. Menntunarleysið mun hefta enn frekar samfélagsþátttöku þeirra og gerir þær berskjaldaðri fyrir hverskyns mismunun og kynbundnu ofbeldi.

UN Women kallar eftir því að réttindi afganskra kvenna og stúlkna verði tafarlaust tryggð að nýju, þar með talið rétt þeirra til náms, atvinnu og þátttöku í opinberu lífi.

Það sem komið hefur fyrir afganskar konur og stúlkur frá valdatöku talíbana er á sameiginlegri ábyrgð alþjóðasamfélagsins. Á tímum þar sem verið er að þagga niður í röddum afganskra kvenna, verðum við að tryggja að þær fái áfram að hljóma. Alþjóðsamfélagið verður að tala áfdráttarlaust fyrir mannréttindum og standa með afgönskum systrum sínum gegn þeim mannréttindabrotum sem talíbanar halda áfram að fremja.“

Related Posts