fbpx

Íran vikið úr nefnd Sþ um stöðu kvenna

Heim / Fréttir / Íran vikið úr nefnd Sþ um stöðu kvenna
Teheran, Íran

Yfirlitsmynd frá Teheran, Íran.

Tillaga um að víkja Íran úr nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna (e. The Commision on the Status of Women) var samþykkt af Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) á miðvikudag. Tillagan var lögð fram af fulltrúa Bandaríkjanna og samþykkt af 29 ríkjum. Sextán ríki sátu hjá og átta kusu gegn tillögunni.

Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna sér um að skipa nefnd um stöðu kvenna, sem er ein af mörgum undirnefndum ECOSOC, en 54 ríki eiga sæti í ECOSOC að hverju sinni. Meðal verkefna ráðsins er að hafa umsjón með efnahags- og félagsmálum, en undir þau falla málefni barna, réttindi kvenna og önnur mannréttinda- og félagsmál.

Íran var skipað í nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna (CSW) í ár og hefði átt að sitja í nefndinni til ársins 2026 en vegna ofsafullra viðbragða íranskra stjórnvalda í garð mótmælenda þar í landi lagði fulltrúi Bandaríkjanna í ECOSOC til þess að Íran yrði vikið úr nefndinni. Þetta þykir einsdæmi innan ráða Sameinuðu þjóðanna og var harðlega gagnrýnt af fulltrúa Írans.

Kasti rýrð á nefndina

Fulltrúi Bandaríkjanna, Linda Thomas-Greenfield, sagði CSW vera eina mikilvægustu stofnun Sþ þegar kemur að málefnum kvenna og stúlkna og að nefndin geti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi samhliða því að verið væri að grafa undan jafnrétti innan hennar. „Þátttaka Írans í nefndinni á þessari stundu kastar rýrð á störf nefndarinnar,“ sagði hún.

Fulltrúi Írans kallaði tillöguna enn eina atlögu Bandaríkjanna gegn Íran í langvarandi stríði þess við Írönsku þjóðina og varaði við því að verði tillagan samþykkt, muni það skapa hættulegt fordæmi innan Sameinuðu þjóðanna, sem eigi að ýta undir alþjóðasamstarf en ekki stunda útilokun. Önnur ríki tóku undir þá skoðun, þeirra á meðal voru Hvíta-Rússland sem sagði baráttuna fyrir aukinn kynjajöfnuð kalla á alþjóðlegt samstarf og samvinnu en ekki útilokun.

Meðal þeirra ríkja er greiddu atkvæði með tillögunni voru Bretland, Ástralía og Nýja Sjáland. Fulltrúi Nýja Sjálands minnti á að hlutverk nefndarinna væri að efla réttindi kvenna um allan heim og því ættu ríki sem eigi sæti í nefndinni að haga sér samkvæmt því.

Fulltrúi Gvatemala sagði ekkert ríki heims hafa náð fullkomnu kynjajafnrétti, en það að sitja í nefnd Sþ um stöðu kvenna krefðist þess að ríki viðurkenni vandann og skuldbindi sig til að bregðast við honum.

Stofnuð 1946

Frá CSW66 sem fram fór í New York 2022.

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna var stofnuð árið 1946 og hefur leikið mikilvægt hlutverk í að efla réttindi kvenna um allan heim og móta alþjóðlega staðla er kemur að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. 45 aðildarríki sitja í nefndinni til fjögurra ára í senn. Meðlimir hennar eru kosnir af ECOSOC og tekur mið af landfræðilegri stöðu þeirra, líkt og á við um aðrar stofnanir Sþ, til að gæta jafnræðis.


Mótmælin vegna Masha Amini kveikjan

Tillagan um að víkja Íran úr nefnd Sþ um réttindi kvenna kemur í kjölfar viðbragða íranskra stjórnvalda við mótmælunum sem staðið hafa yfir síðan í september. Írönsk stjórnvöld hafa mætt mótmælendum af mikilli hörku. Mannréttindasamtök telja að um 15.000 einstaklingar hafi verið handtekin í tengslum við mótmælin og að um 500 hafi látist. Í byrjun desember var fyrsti einstaklingurinn sem handekinn var í tengslum við mótmælin líflátinn, eftir að hafa verið fundinn sekur um að „heyja stríð gegn guði,“ með því að reisa vegartálma og bera vopn. Mótmælin eru þau víðtækustu og fjölmennustu sem staðið hafa yfir í landinu frá því að klerkastjórnin tók við völdum fyrir um fjörtíu árum síðan.

Kveikjan að mótmælunum  var andlát hinnar 22 ára Mahsa Amini sem lést í haldi siðgæðislögreglu Írans. Amini var flutt meðvitundarlaus á sjúkrahús skömmu eftir handtökuna og lést þar þremur dögum síðar. Yfirvöld fullyrtu að hún hafi dáið úr hjartaáfalli, en heimildir fjölmiðla herma að krufning hafi leitt í ljós umtalsverða höfuðáverka og innvortis blæðingar.

Búa við takmörkuð réttindi

Zoreh Aria frá Íran var ein þeirra er leiddi árlega Ljósagöngu UN Women á Íslandi árið 2022. Í ræðunni sem hún flutti við upphaf göngunnar sagði hún íranskar konur búa við gríðarlega takmörkuð réttindi. Þær megi ekki sækja um vegabréf án leyfi föður eða maka, mega ekki hjóla, er bannað að gegna embætti dómara eða forseta og mega ekki eiga frumkvæði að skilnaði.

Related Posts
Afganistan, Móðir og barn, betla, kuldi. snjór, 2021Skólastúlkur í Herat, Afganistan