fbpx

Síerra Leóne: Kynjakvóti á vinnumarkaði lögfestur

Heim / Fréttir / Síerra Leóne: Kynjakvóti á vinnumarkaði lögfestur

UN Women að störfum í Síerra Leone.

FO-herferð UN Women á Íslandi árið 2023 mun styðja við verkefni í Síerra Leóne sem hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi. Landsskrifstofa UN Women í Síerra Leóne hefur verið starfandi frá árinu 2010, en áður hafði UNIFEM haft viðveru í landinu frá árinu 2002.

Meðal helstu verkefna UN Women í Síerra Leóne eru verkefni sem stuðla að þátttöku kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaði og verkefni sem miða að því að uppræta kynbundið ofbeldi og styðja við þolendur. Í ár er FO-herferðin styrkt af utanríkisráðuneytinu, en Ísland hefur verið í þróunarsamvinnu með Síerra Leóne frá árinu 2018.

Lítið land en ríkt af auðæfum

Síerra Leóne er lítið land, staðsett á vesturströnd Afríku. Íbúar landsins eru tæplega 8 milljónir, þar af er rétt rúmur helmingur konur og stúlkur. Líkt og mörg önnur ríki Afríku er Síerra Leóne ríkt af náttúrulegum auðæfum á borð við gull, demanta og aðra málma en einnig af kakóbaunum, kaffi og fiski. Um 75% þjóðarinnar hefur atvinnu af fiskiðnaði og landbúnaði.

Borgarastríð braust út í Síerra Leóne árið 1991 og var ástandið í landinu mjög óstöðugt í meira en áratug. Á meðan á stríðinu stóð var nauðgunum og kynbundnu ofbeldi gegn konum mjög markvisst beitt sem stríðsvopni. Fjölda kvenna var einnig rænt og þær þvingaðar í hjónabönd með vígamönnum og voru þær nefndar „bush wifes“ (ísl. frumskógar eiginkonur). Talið er að um þriðjungur kvenna í landinu hafi verið beittar kynferðislegu ofbeldi í tengslum við stríðið.

Heildræn þjónusta til þolenda

Borgarastríðinu lauk árið 2002 og hófst þá langt og erfitt uppbyggingarferli í landinu sem stendur enn yfir. UN Women hefur sinnt verkefnum í Síerra Leóne frá því að friður komst á. Flest þeirra eiga að stuðla að auknum kynjajöfnuði í ríkinu, auka aðkomu kvenna að stjórnmálum og vinnumarkaði og veita þjónustu til þolenda kynbundins ofbeldis og efla fræðslu um skaðsemi þess.

Árið 2020 studdi UN Women við opnun og rekstur fyrstu „one stop“ miðstöðvarinnar fyrir þolendur kynbundins ofbeldis í Síerra Leóne, en landið var eitt hið fyrsta til að koma slíkum miðstöðvum á í heiminum. Konum var vísað á miðstöðvarnar af sjúkrahúsum og fá þar heildræna þjónustu, þar með talið læknisþjónustu, lagalega aðstoð og sálræna aðstoð, sér að kostnaðarlausu. Áður höfðu þolendur kynbundins ofbeldis þurft að greiða fyrir læknisþjónustu í kjölfar ofbeldis, þrátt fyrir að lög hafi kveðið á um annað. Stór hluti þolenda býr við mikla fátækt og veigruðu mörg sér við að leita læknisaðstoðar vegna kostnaðar. Frá 2022 til 2023 fengu 496 þolendur þjónustu í slíkum miðstöðvum.

Baráttan við kynfæralimlestingar

Suðningshópur stúlkna sem ekki hafa verið limlestar á kynfærum ásamt yfirmanni landsskrifstofu UN Women í Síerra Leone.

Talið er að um 83 prósent kvenna á aldrinum 15 til 49 ára hafi verið limlestar á kynfærum í Síerra Leóne. Algengast er að stúlkur séu skornar á aldrinum 10 til 14 ára. Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna er hlutfall kynfæralimlestinga hærra meðal eldri kvenna og hefur fjöldi stúlkna sem limlestar eru á kynfærum farið minnkandi með árunum. Kynfæralimlestingar eru tíðastar á dreifbýlum svæðum í norðvestur hluta Síerra Leóne.

UN Women vinnur að því að uppræta kynfæralimlestingar í Síerra Leóne með ýmsum hætti. Stofnunin heldur úti fræðsluátaki til ungra stúlkna þar sem þær hljóta fræðslu um kynheilbrigði og réttindi sín.

Fjöldi verkefna snýst einnig um að koma á fót stuðningshópum fyrir stúlkur sem ekki hafa verið limlestar á kynfærum, en margar þeirra upplifa mikinn samfélagslegan þrýsting að láta skera sig.

UN Women styður einnig við „soweis“, konur sem framkvæma skurðina, sem hafa látið af þeim störfum. Konurnar fá tækifæri til að iðnmennta sig og finna ný störf, en oft hafa fjölskyldur þeirra reitt sig á innkomuna sem hlýst af því að framkvæma skurði á stúlkum. Þá er mikil áhersla lögð á að fræða héraðs- og þorpshöfðingja um skaðsemi kynfæralimlestinga en þeir hafa gríðarlega mikil áhrif innan samfélagsins og getur skipt sköpum að fá þá til liðs við sig í baráttunni gegn kynfæralimlestingum.

Talið er að um 200 milljónir kvenna og stúlkna í heiminum í dag hafi verið limlestar á kynfærum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur að um 68 milljónir stúlkna til viðbótar verði limlestar á kynfærum fyrir árið 2030, ef ekki tekst að uppræta þennan skaðlega sið fyrir þann tíma.

 

Réttindi kvenna tryggð í lögum

Sem fyrr segir er eitt af áherslumálum UN Women í Síerra Leóne að tryggja aukinn þátt kvenna og stúlkna í samfélaginu og knýja fram lagabreytingar sem efla réttindi kvenna, þar með talið rétt kvenna til að erfa eignir. Í janúar á þessu ári samþykkti forseti Síerra Leóne lög sem kveða á um að minnst 30 prósent allra starfa í landinu, hvort heldur í opinbera geiranum eða einkageiranum, séu unnin af konum. Þá samþykkti hann lög um 14 vikna fæðingarorlof til kvenna. Manty Tarawalli, jafnréttisráðherra landsins, var driffjöðurin að baki lagabreytingunum. Hún segir að þrátt fyrir lög um kynjakvóta sé sigurinn langt frá því í höfn.

„Áskorunin núna, fyrir utan fjármagn til að fylgja breytingunni eftir, er að upplýsa fólk um lögin. Þessi lög eiga ekki aðeins að efla menntaðar konur eða konur sem búsettar eru í borgum, heldur allar konur í Síerra Leóne. Allir vita af lagabreytingunni, en hvaða þýðingu hafa lögin raunverulega fyrir konur í grasrótinni? Hvernig snertir þetta líf þeirra? Við þurfum að útskýra það svo að þær viti hver lagaleg réttindi þeirra eru,“ sagði Manty Tarawalli um vinnuna sem fram undan er.

Related Posts