„Ein grófasta birtingarmynd ofbeldis gegn konum og stúlkum“

Home / Verkefnin / Afnám ofbeldis / „Ein grófasta birtingarmynd ofbeldis gegn konum og stúlkum“

6. Febrúar er alþjóðadagur baráttunnar gegn limlestingu á kynfærum kvenna. Yfir 200 milljónir núlifandi kvenna og stúlkna hafa verið limlestar á kynfærum, en þessi skaðlegi siður getur verið lífshættulegur og sviptir konur heilsu, sæmd og yfirráðum yfir eigin líkama.

Árás á líkama, kynfrelsi og velferð kvenna

„Þetta er ein grófasta birtingarmynd ofbeldis gegn stúlkum og konum. Afleiðingarnar eru hrikalegar og markar líf þeirra sem fyrir þeim verða til framtíðar“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. „UN Women stendur fyrir fjölmörgum verkefnum á heimsvísu sem ganga út á að útrýma þessum hræðilega sið“

Limlesting á kynfærum kvenna kallast á ensku female genital mutilation, en á alþjóðavísu er oftast notast við skammstöfunina FGM. Til eru fjögur stig kynfæralimlestinga sem fela í sér sér aðgerð þar sem ytri hlutar kynfæra kvenna eru fjarlægðir að miklu eða öllu leyti. Í flestum tilfellum er snípurinn fjarlægður og stundum einnig skapabarmar. Þá er gjarnan saumað fyrir leggöngin til að tryggja að stúlkan haldist „hrein“ fram að hjónabandi. Víða um heim eru stúlkur limlestar á kynfærum sínum allt niður í vikugamlar.

Aðgerðin er árás á líkama þeirra, kynfrelsi og velferð og veldur þeim varanlegum sálrænum og líkamlegum skaða. Algengir líkamlegir fylgikvillar limlestinga eru þvaglátsörðugleikar, sýkingar, sársauki við samfarir og miklir erfiðleikar við barnsburð og aukin hætta á ungbarnadauða. Þá er einnig algengt að stúlkum blæði út og þær láti lífið í kjölfar aðgerðarinnar.

Innan flestra samfélaga þar sem vandamálið viðgengst er fólk alið upp við þá trú að aðgerðin sé stúlkum holl og jafnvel nauðsynleg, ýmist af heilsufarsástæðum, hreinlætisástæðum eða trúarlegum ástæðum. Staðreyndin er hinsvegar sú að siðurinn er iðkaður innan mismunandi trúarbragða þrátt fyrir að ekkert þeirra kveði á um að konur skuli limlestar á kynfærum sínum. Í fátækum samfélögum þar sem skortur er á menntun hefur almenningur ekki forsendur til að taka upplýsta afstöðu gegn viðteknum venjum og rótgrónum hefðum. Þau einfaldlega þekkja ekki annað og telja sig vera að gera það sem er stúlkunum fyrir bestu.

Hlutverk UN Women í baráttunni

UN Women vinnur að upprætingu þessa skaðlega siðs í samstarfi við grasrótarhreyfingar, félagasamtök, aðgerðarsinna og stjórnvöld ríkja þar sem hann er útbreiddur. Lykillinn að árangri felst í að fræða almenning um hætturnar sem fylgja FGM og þrýsta á lagasetningar sem koma í veg fyrir að fleiri konur og stúlkur verði fyrir þessu grófa mannréttindabroti.

Jaha Dukureh, aðgerðarsinni frá Gambíu og velgjörðarsendiherra UN Women fyrir Afríku, var látin gangast undir 3. stigs limlestingu á kynfærum sínum aðeins vikugömul og hefur helgað líf sitt baráttunni gegn þessum skaðlega sið. Jaha telur að lykillinn að upprætingu FGM sé fræðsla og leitast við að útskýra sjónarhorn þolenda fyrir valda- og áhrifamiklum einstaklingum innan samfélaga þar sem siðurinn þrífst, í von um að þeir beiti áhrifum sínum í þágu breytinga. Þrotlaus barátta Jaha í heimalandinu Gambíu skilaði sér í því að limlestingar á kynfærum kvenna voru bannaðar með lögum árið 2015.

Þegar þú styður við UN Women tekur þú þátt í baráttunni gegn limlestingu á kynfærum kvenna. Smelltu hér til að gerast mánaðarlegur styrktaraðili. 

Related Posts