fbpx

Reynslusaga: Ég þénaði nóg til að geta greitt skólagjöld barna minna

Heim / Dæmisögur / Reynslusaga: Ég þénaði nóg til að geta greitt skólagjöld barna minna

Avia Munyao er 45 ára bóndi í Kitui-héraði í Kenía.

UN Women í Kenía hefur stutt við fjárhagslega valdeflingu kvenna á dreifbýlum svæðum með því að efla viðnámsþrótt þeirra þegar kemur að landbúnaði. Avia  Munyao er 45 ára bóndi í Kitui-héraði í Kenía og þriggja barna móðir. Hún er ein af 800 konum sem hlotið hafa þjálfun í sjálfbærri ræktun (e. Climate smart agriculture) og nýsköpun.

„Þrátt fyrir mikla rigningatíð í Kitui hef ég þrifist og landið mitt hefur brosað við mér. Allt vegna þess að ég hlaut þjálfun í gegnum verkefni UN Women. Frá síðustu rigningatíð hef ég plantað þurrkþolnum nytjaplöntum eins og dúrru. Af einni ekru uppskar ég 15 poka af dúrru. Ég seldi einn poka sem útsæði til annars bónda, en hina fjórtán pokana seldi ég til brugghúsa.

Ég plantaði einnig mungbaunum og uppskar 65 poka af þeim. Ég seldi þá uppskeru og fyrir ágóðann gat ég keypt tíu geitur. Nú á ég alls 35 geitur. Ég þénaði líka nóg til að geta greitt skólagjöld barna minna. Eitt þeirra er í háskóla og hin tvö í menntaskóla.

Ég gróf einnig skurði og plantaði maís og uppskar einn poka. Skurðirnir halda vatni betur og því fékk ég uppskeru, en þeir bændur sem góðursettu maísinn með hefðbundnum hætti fengu ekkert. Ég hef líka komið mér upp matjurtargarði við húsið mitt og get þannig tryggt börnum mínum næringarríka fæðu en einnig selt til nágranna minna.

UN Women veitti mér einnig leiðtogaþjálfun og í kjölfarið hef ég getað miðlað reynslu minni og þekkingu áfram, m.a. í gegnum stjórnarsetu í Kawlu farmers Self help Group og Kawelu Community Based Organization.“

Konur verða verr úti vegna loftslagsbreytinga

Jafnrétti og loftslagsmál eru samtvinnuð og er útséð að við náum engum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum án fullrar þátttöku kvenna. Konur eru rúmlega helmingur alls fólks sem starfar við landbúnað. Hljóti þær sömu tækifæri og réttindi og karlmenn, geta þær aukið tekjur sínar um allt að 30 prósent.

Loftlagsbreytingar hafa ólík áhrif á okkur eftir búsetu, kyni og stöðu. Þær hafa til að mynda meiri áhrif á líf kvenna í fátækari ríkjum heims, og enn frekari áhrif á líf þeirra kvenna sem búa á dreifbýlum svæðum þessara ríkja.

Meðal þeirra sértæku áhrifa sem loftslagsbreytingar hafa á líf kvenna eru:

  • Aukin fátækt kvenna – en konur eru 20% líklegri til að búa undir fátækramörkum en karlmenn, þessi tala mun hækka með áhrifum loftslagsbreytinga.
  • Konur eru útsettari fyrir ofbeldi. Konur á flótta eru mjög berskjaldaðar fyrir ofbeldi og eins ef þær þurfa að ganga langar vegalengdir eftir vatni.
  • Tíðni mæðradauða eykst á tímum átaka, við fæðuskort og ef stúlkur eignast börn ungar.
  • Eins er heilsu kvenna ógnað vegna notkunar á óvistvænum orkugjöfum. Afleiðingar þeirra eru m.a. reykeitrun, lungnaþemba og augnsýkingar.
Related Posts