Hver er Nadia Murad?

Home / Verkefnin / Afnám ofbeldis / Hver er Nadia Murad?

Einstök baráttukona og næstyngsti Nóbelsverðlaunahafinn

„Ég vona að dagurinn í dag marki nýtt upphaf – þar sem friður er hafður í forgrunni og heimurinn sameinast um að vernda konur, börn og minnihlutahópa, og þá sérstaklega þolendur kynferðisofbeldis, gegn ofsóknum.“

Þetta sagði Nadia Murad er hún tók við Friðarverðlaunum Nóbels árið 2018 fyrir baráttu sína gegn kynferðisofbeldi í stríði. Verðlaununum deildi hún með Denis Mukwege, lækni frá Austur-Kongó. Nadia er fyrsti Írakinn til að hljóta verðlaunin og jafnframt yngsti handhafi þeirra frá upphafi, að hinni pakistönsku Malölu Yousafzai undanskilinni.

Nadia hefur verið ötul talskona þolenda þjóðarmorða og kynferðisofbeldis í stríði, en sjálf tilheyrir hún minnihlutahópi Jasída og var haldið fanginni af vígasveitum íslamska ríkisins.

Nadia fæddist árið 1993 í þorpinu Kojo (einnig ritað Kocho) í norðurhluta Írak, en meirihluti írakskra Jasída búa í afskekktum þorpum í grennd við Sinjar fjall í norður Írak. Árið 2014 réðust liðsmenn vígasveita íslamska ríkisins  inn í þorp hennar og handsömuðu þorpsbúa. Karlar og konur voru aðskilin, konurnar voru numdar á brott og gengu kaupum og sölum á markaði í Mosul, en Jasída karlmennirnir, þar á meðal sex bræður Nadiu, voru myrtir. Nadia var gefin valdamanni í sveitum íslamska ríkisins og haldið fanginni í þrjá mánuði áður en henni tókst að flýja og komst með aðstoð nágranna í öruggt skjól.

Jasídar eru minnihlutahópur sem býr m.a. í norðurhluta Írak, í Sýrlandi, Tyrklandi og Armeníu. Ýmist er talað um Jasída sem þjóðflokk eða trúarhóp, en þeir aðhyllast Jasída-trú sem er ein elsta núlifandi eingyðistrú heims. Í gegnum aldirnar hafa Jasídar ítrekað verið fórnarlömb þjóðernishreinsana og tala þeir sjálfir um að hafa lifað af 74 slíkar, þar á meðal af hendi Tyrkja og Rússa.

Áætlað er að um 7000 Jasída-konur hafi verið seldar í kynlífsþrældóm af liðsmönnum hersveita íslamska ríkisins og talið er að um 3000 konur og börn séu enn í haldi meðlima samtakanna. Þær konur sem komist hafa aftur til síns heima eiga oft erfitt með að sjá sér og börnum sínum farborða þar sem litla eða enga vinnu er að hafa. Þær þjást flestar af áfallastreituröskun og ýmsum líkamlegum kvillum sökum ofbeldisins og gengur mörgum illa að aðlagast hefðbundnu lífi að nýju.

Við Nóbelsverðlaunaafhendinguna í desember á síðasta ári sagði Nadia Jasída hafa sætt ofsóknum í gegnum aldirnar sökum trúar sinnar og trúarskoðana. Sökum þessa séu nú aðeins fáir

Jasídar eftir í Tyrklandi og Sýrlandi. Hún segir mikilvægt að alþjóðasamfélagið standi saman um að veita eftirlifandi Jasídum, sem og öðrum minnihlutahópum, vernd, ellegar verði Jasídum endanlega útrýmt.

Í ræðu sinni áréttar Nadia mikilvægi menntunnar í því að skapa og viðhalda traustu og réttlátu samfélagi. „Konur þurfa einnig að taka að sér lykilhlutverk í uppbyggingu samfélaga eftir stríð og vinna að því að koma á varanlegum friði á meðal þjóða og þjóðfélagshópa. Fái raddir kvenna að heyrast getum við breytt samfélagi okkar til hins betra,” sagði Nadia í ræðu sinni.

UN Women á Íslandi styður við verkefni UN Women um allan heim sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum. Eitt þeirra verkefna er kvennaathvarf fyrir Jasídakonur sem neyddar hafa verið í kynlífsþrælkun og þurft að þola gróft kynferðisofbeldi af hendi vígamanna íslamska ríkisins. Í athvarfinu fá þær áfallahjálp og aðstoð við að vinna úr skelfilegri reynslu og koma sér aftur af stað út í lífið. Hver og ein kona fær þriggja mánaða sálfræðiaðstoð í athvarfinu og áframhaldandi aðhlynningu ef þarf, rætt er einnig við aðstandendur kvennanna sem fá einnig ráðleggingar um hvernig styðja megi við þær eftir þessar hörmungar.

Allur ágóði sölu á Fokk ofbeldi húfu UN Women á Íslandi rennur til kvennaathvarfsins fyrir Jasídakonur.

Fokk ofbeldi húfan fer í sölu 31.janúar hér á unwomen.is og í verslunum Vodafone.

Related Posts