fbpx

Hvað gerir UN Women í Afganistan?

Heim / Verkefnin / Afnám ofbeldis / Hvað gerir UN Women í Afganistan?

Afgönsk kona situr og málar í Kabúl. Frelsi afganskra kvenna hefur verið skert mikið frá valdatöku talíbana.

Staða kvenna í Afganistan hefur versnað til muna síðan talíbanar hrifsuðu til sín völd í landinu í ágúst í fyrra. Þá hefur mikil mannúðarneyð, fæðuskortur og algjört efnahagslegt hrun landsins haft mikil áhrif á líf og heilsu afganskra kvenna og þá sérstaklega einstæðra kvenna.

UN Women hefur verið starfandi í Afganistan í tvo áratugi og heldur áfram að starfa í þágu afganskra kvenna og stúlkna.

Síðan talíbanar tóku völd í Afganistan hefur konum og stúlkum verið meinaður aðgangur að menntun, vinnumarkaði og stjórnmálum. Þær mega ekki ferðast á milli staða án fylgdar karlkyns ættingja og hafa í raun verið útlokaðar frá lífinu utan veggja heimilisins.

Afganskar konur halda áfram að mótmæla aðgerðum talíbanastjórnar þrátt fyrir hótanir og ógnartilburði. Þær hafa kallað eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins og minna á að grunnmannréttindi séu samhangandi og óaðskiljanleg, ekki sé nóg að veita stúlkum grunnmenntun þegar þær hafa síðan ekki jöfn tækifæri á við karlmenn til framhaldsmenntunar eða atvinnu.

Hvernig vinnur UN Women í Afganistan?

Afganistan, WFP

Mikilvægt er að tryggja að neyðaraðstoð nái einnig til viðkvæmra hópa í Afganistan. WFP/Sadeq Naseri

UN Women hefur sinnt verkefnum í Afganistan í tuttugu ár. Stofnunin og starfsfólk hennar hafa þurft að bregðast hratt við gjörbreyttum aðstæðum eftir valdatöku talíbana. UN Women, líkt og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, á í stöðugu samtali við talíbanastjórnina svo hægt sé að tryggja áframhaldandi störf í landinu og öryggi starfsmanna og afgönsku kvennanna sem nýta sér þjónustu UN Women.

Meðal verkefna UN Women í Afganistan eru mannréttindagæsla og fjölbreytt verkefni sem stuðla að jafnrétti og sjálfbærni. Í nýrri greinagerð frá UN Women í Afganistan kemur fram að stofnunin mun efla þjónustu við konur enn frekar á næstu mánuðum, m.a. með því að koma á fót kvennaathvörfum.

Á næstu sex mánuðum ætlar UN Women að:

  1. Efla þjónustu til þolenda ofbeldis

    UN Women styður við kvenrekin grasrótarsamtök í Afganistan sem starfa með þolendum kynbundins ofbeldis. Þetta gerir UN Women bæði með fjárframlögum og þjálfun starfsfólks. UN Women styður jafnframt við rekstur athvarfa fyrir konur sem flúið hafa heimilisofbeldi með börn sín. Þar fá konurnar heilbrigðisþjónustu, ráðgjöf og starfsþjálfun. Í Afganistan eru kvennaathvörf UN Women oft eina skjólið sem þolendur geta leitað til. Athvörfin taka einnig á móti heimilislausum konum, konum sem hafa verið útskúfaðar vegna ‚ósiðsamlegs athæfis‘ og konum með geðraskanir. Alls hefur UN Women komið á fót 25 athvörfum í 24 héruðum. Þá hefur UN Women átt í samræðum við talíbanastjórnina um opnun athvarfa í fleiri héruðum, m.a. í Daikundi, Parwan og Samangan héruðum. Undirbúningur tveggja athvarfa í Kandahar og Baghlan héruðum er langt kominn.
    UN Women vinnur náið með trúarleiðtogum og héraðshöfðingum í þeim héruðum þar sem athvörf eru starfandi svo tryggja megi áframhaldandi starfsemi þeirra. Einnig safnar UN Women gögnum og upplýsingum frá Afgönskum konum svo hægt sé að bregðast betur við þörfum þeirra og efla aðgengi þeirra að aðstoð.

  2. Koma á fót miðstöðvum fyrir þolendur

    UN Women vinnur að því að koma á fót heildrænni miðstöð fyrir þolendur og konur á flótta (e. one-stop multipurpose women’s centers). Þar munu konur geta nálgast upplýsingar um réttindi sín, heilbrigðisþjónustu, lagalega aðstoð, sálræna ráðgjöf og hlotið starfsþjálfun. Mikilvægt er að samhæfa viðbragð og þjónustu við þolendur og jafnframt tryggja fagleg vinnubrögð og þjálfun starfsfólks. Þetta gerir UN Women í samstarfi við grasrótarsamtök og fagfólk á þessu sviði.Í gegnum miðstöðvarnar geta konurnar einnig sótt um fjárstyrk án skuldbindingar.
    Eftir að hafa hlustað á þarfir kvenna víða um heim, hefur UN Women lagt ríkari áherslu á að veita konum í viðkvæmri stöðu fjárhagsaðstoð án skuldbindinga. Þetta styrkir stöðu kvennanna og gerir þeim kleift að greiða skuldir, borga leigu, kaupa mat, lyf og aðrar nauðsynjar eða senda börn sín í skóla.

  3. Auka stuðning til kvenrekinna félagasamtaka

    Það er gífurlega mikilvægt að halda áfram stuðningi við mannréttindafrömuði og kvenrekin félagasamtök í Afganistan. Jafnvel fyrir valdatöku talíbana voru konur sem störfuðu innan dómskerfisins, fjölmiðlakonur og heilbrigðisstarfsfólk myrt vegna starfa sinna í þágu kvenna og jafnréttis. Þessar konur hafa verið mikilvægt hreyfiafl í þágu breytinga þegar kemur að kvenréttindum í Afganistan og þurfa að njóta stuðnings í starfi sínu og verndar ef lífi þeirra er ógnað.
    UN Women styður við störf mannréttindafrömuða og félagasamtök með fjárframlögum, nauðsynlegum búnaði og þjálfun. UN Women rekur einnig örugg athvörf fyrir þessar konur, bæði fyrir þær til að búa í og starfa.

  4. Styðja enn frekar við atvinnuúrræði kvenna

    Hin mikla mannúðarneyð sem nú ríkir í Afganistan hefur orðið til vegna ólíkra þátta: algjört efnahagslegt hrun varð í landinu í kjölfar valdatöku talíbana, tíðir uppskerubrestir og óvenjuleg veðurtíð, frysting þróunaraðstoðar og landflótti hafa ollið því að 95% þjóðarinnar er nú á barmi hungursneyðar. Ástandið hefur skelfilegar afleiðingar fyrir fjölskyldur einstæðra kvenna vegna þeirra takmörkuðu réttinda sem þær búa við. Einstæðar konur hafa ekki tök á að afla sér tekna því þær mega ekki vinna eða ferðast án fylgdar karlmanns.
    Talið er að útilokun afganskra kvenna frá vinnumarkaði muni kosta samfélagið um 1 milljarð bandaríkjadala ár hvert.UN Women styður við atvinnuúrræði kvenna með „cash for work“ verkefnum sínum. Þá hefur UN Women aukið fjárstyrki án skuldbindinga til einstæðra mæðra.

  5. Efla kynjaða gagnaöflun

    UN Women er ráðgefandi í flestu því er tengist jafnrétti innan Sameinuðu þjóðanna. Það er því mikilvægt að UN Women haldi áfram að afla kynjaðra gagna til að styðja við verkefni S.þ UN Women hefur lengi barist fyrir því að allar stofnanir Sþ taki mið af sértækum þörfum kvenna, stúlkna og jaðarsettra hópa í öllu sínu starfi. Neyð og átök hafa ólík áhrif á fólk eftir stöðu þeirra, kyni, uppruna og búsetu. Viðbragðsáætlanir og neyðaraðstoð þarf að taka mið af þörfum ólíkra hópa svo hún nýtist öllum.
    Kynjuð gagnaöflun er á meðal verkefna UN Women í Afganistan. UN Women vinnur ásamt níu afgönskum sérfræðingum í öflun þessara gagna og er ráðgefandi þegar aðrar stofnanir Sþ eiga í samningaviðræðum við talíbanastjórn svo að þarfir viðkvæmustu hópanna gleymist ekki.UN Women birtir jafnframt mánaðarlegar skýrslur um stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan og hvernig megi bregðast við þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir. Þessar skýrslur eru mikilvæg undirstaða fyrir áframhaldandi störf Sþ í Afganistan.

Ljósberar UN Women á Íslandi eru bakbein samtakanna og hafa með mánaðarlegum fjárframlögum sínum tekið beinan þátt í verkefnum UN Women á heimsvísu. Þú getur lagt okkur lið með því að gerast ljósberi.

Related Posts
Úkraína