fbpx

Hvað er kvenmiðuð neyðaraðstoð?

Heim / Fréttir / Hvað er kvenmiðuð neyðaraðstoð?

Kona og barn í neðanjarðarbyrgi í Kyiv. Mynd/Alex Lourie

Stríðsátök hafa ólík áhrif á líf fólks eftir stöðu þeirra og kyni. Á meðan karlmenn eru líklegri til að deyja í átökum eru konur líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi, mansali og búa við skort þegar stríðsátök geisa.

Þá hefur nauðgunum markvisst verið beitt sem stríðsvopni í fjölda landa um allan heim, meðal annars í Mjanmar, Sýrlandi, Sierra Leone og Eþíópíu.

UN Women hefur lagt mikla áherslu á að kvenmiðuð neyðaraðstoð sé veitt á átakatímum, ekki aðeins í sínum verkefnum heldur einnig verkefnum annarra viðbragðsaðila og stofnana Sameinuðu þjóðanna.

Hvernig hefur stríð áhrif á líf kvenna og stúlkna?

  • Konur á stríðshrjáðum svæðum standa oft óvænt uppi sem höfuð fjölskyldunnar eftir andlát maka. Þær glíma því ekki aðeins við sorgina sem fylgir makamissinum, heldur standa einnig frammi fyrir nýjum áskorunum. Í mörgum ríkjum búa konur ekki við sömu réttindi og karlmenn, þær mega ekki vinna, mega ekki eiga eignir, opna bankareikninga, fara með forræði yfir börnum sínum, aka bíl eða ferðast nema í fylgd með karlmanni. Þessi mannréttindabrot hefta getu kvennanna til að sjá fyrir sér og börnum sínum sem gerir þær berskjaldaðri fyrir hverskyns misnotkun og ofbeldi. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hefur það færst í aukana að konur á átakasvæðum séu þvingaðar til að „greiða“ fyrir húsaskjól, mat og vatn með líkama sínum.
  • Tíðni mæðra- og ungbarnadauða margfaldast á tímum átaka vegna skertrar heilbrigðisþjónustu
  • Á stríðstímum eykst tíðni heimilisofbeldis
  • Langvarandi matarskortur þýðir að óléttar konur og konur með barn á brjósti þjást af næringarskorti sem hefur ekki aðeins áhrif á heilsu þeirra, heldur einnig barna þeirra.
  • Á tímum hamfara og stríðsátaka fjölgar þvinguðum barnahjónaböndum – líkt og sést hefur í Afganistan á síðustu mánuðum – tíðni stúlkumorða eykst, sem og tíðni kynfæralimlestinga. Allir þessir siðir tefla lífi og heilsu stúlkna í hættu.

Ein stærð hentar ekki öllum

Kiev, Úkraína, Sebastian-Backhaus

Móðir og barn á lestarstöð í Kyiv. Mynd/Sebastian Backhaus

Mikið hefur verið fjallað um kvenmiðaða neyðaraðstoð síðan stríðið skall á í Úkraínu. En hvað nákvæmlega felur kvenmiðuð neyðaraðstoð í sér?

Fyrst og fremst þýðir það að tekið sé mið af þörfum allra þegar neyðaraðstoð er veitt. Fólk af ólíkum stéttum, uppruna, kyni, kynhneigð, aldri og efnahag hefur ólíkar bjargir og ólíkar þarfir á neyðartímum. „Ein stærð fyrir alla“ nýtist því ekki jaðarsettustu hópunum þegar stríð skellur á.

  • Upplýsingagjöf þarf að vera skilmerkileg og aðgengileg (þarf að vera í formi fræðsluhópa í ríkjum þar sem læsi meðal kvenna er lágt)
  • Starfsfólk hjálparsamtaka og friðargæsluliðar þurfa að vera af öllum kynjum svo hægt sé að tryggja öryggi kvenna. Í Mið-Afríkulýðveldinu hafa konur verið beittar kynbundnu ofbeldi bæði af hendi skæruliðahópa og friðargæsluliða sem eiga að veita þeim vernd. Árið 2020 voru konur aðeins 5,2% allra friðargæsluliða á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þetta endurspeglar lágt hlutfall kvenna í herþjónustu um allan heim. Starfsfólk þarf jafnframt að fá góða þjálfun og vera vakandi fyrir hættumerkjum.
  • Kynjaskipt baðaðstaða, salerni og vatnsbrunnar þurfa að vera til staðar innan flóttamannabúða til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Aðgengi og lýsing á þessum stöðum þurfa að vera góð. T.d. mega salerni ekki vera staðsett í útjaðri búðanna ef tryggja á öryggi kvenna.
  • Neyðarpakkar og matarúthlutanir eru oft of þungar fyrir konur, aldraða og fólk með fatlanir. Matarúthlutanir þurfa að taka mið af ólíkum hópum. Mæður með ungbörn geta t.d. ekki staðið lengi í röðum eftir matarpökkum.
  • Matarpakkar þurfa jafnramt að taka tillit til næringarþarfa kvenna – óléttar konur þurfa t.d. aukið járn og aðra næringu fyrir sig og ófætt barn sitt.
  • Þjónusta fyrir þolendur kynbundins ofbeldis þarf að vera á staðnum og aðgengileg öllum. Athvörf fyrir þolendur heimilisofbeldis þurfa einnig að vera á staðnum. Meiri hluti þeirra kvenna sem flúðu Mjanmar til Bangladesh urðu fyrir hrottalegu kynbundnu ofbeldi af hendi mjanmarska hersins. Þær þurfa aðstoð við að takast á við afleiðingar þess, bæði líkamlega og andlega.
  • „ONE STOP“ miðstöð þarf að vera á öllum móttökustöðum/flóttamannabúðum þar sem konur fá upplýsingar um réttindi sín, fá heilbrigðisþjónustu, sálræna aðstoð, sæmdarsett og fjárhagsaðstoð ef þarf.
  • Skólar og dagvistunarúrræði þurfa að vera til staðar til að koma í veg fyrir brottfall stúlkna úr námi og þvinguð barnahjónabönd.
  • Tryggja þarf túlka af öllum kynjum svo konur geti verið óhræddar við að tjá þarfir sínar. Konur eru tregar við að tjá sig um líkamlegt heilbrigði og kynheilbrigði ef karlmaður er á staðnum.

Konur á flótta frá Úkraínu hverfa

Úkraína, faðmlag

Kveðjustund við landamærin.

Mikilvægi kvenmiðaðrar neyðaraðstoðar er augljós í því gríðarlega neyðarástandi sem nú ríkir í Úkraínu og á landamærum nágrannaríkja landsins. Fréttir hafa borist af því að konur og börn á flótta hafi horfið í ringlureiðinni sem ríkir á lestarstöðvum og móttökustöðum. Hjálparstarfsmenn hafa eftir bestu getu reynt að skrásetja alla sem koma inn á svæðin, t.d. bílstjóra og fólk sem býður fram húsnæði, en þrátt fyrir það hefur ekki verið hægt að vernda alla sem eru á flótta fyrir einstaklingum sem hyggjast nýta sér neyð þeirra.
Þá hafa fregnir borist af því að rússneskir hermenn deili myndböndum af því þegar úkraínskum konum er nauðgað.

UN Women hefur deilt sæmdarsettum og neyðarpökkum til úkraínskra kvenna á flótta, veitt þeim fjárhagsaðstoð og barist fyrir því að þær geti unnið fyrir sér og börnum sínum í móttökulandi, m.a. til að koma í veg fyrir að hægt sé að nýta sér neyð þeirra. Þá heldur UN Women áfram að berjast fyrir því að tillit sé tekið til þarfa allra þegar neyðaraðstoð er veitt.

Þú getur hjálpað með því að senda sms-ið KONUR í númerið 1900.

Related Posts
Christina LambVera, Úkraína, Moldóva