fbpx

Eþíópía: Geta ekki framkvæmt keisaraskurði í búðunum

Heim / Dæmisögur / Eþíópía: Geta ekki framkvæmt keisaraskurði í búðunum

nyabel_jock, eþíópíaNyabel Jock er 19 ára og flúði heimili sitt í Suður Súdan aðeins 13 ára gömul. Hörð átök hafa geisað í landinu síðan 2013 og þvingað um 1.5 milljónir einstkalinga á flótta. Þegar Nayabel flúði heimili sitt neyddist hún til að skilja allar eigur sínar eftir til að bjarga lífi sínu. Hún býr nú í Jewi flóttamannabúðunum í Eþíópíu ásamt 62 þúsund öðrum einstaklingum á flótta.

 UN Women vinnur að því að tryggja kvenmiðaða neyðaraðstoð til kvenna á flótta og berst fyrir því að tekið sé mið af sértækum þörfum kenna og stúlkna þegar neyðaraðstoð er veitt.

 „Ég flúði við mjög efiðar aðstæður, en lífið í búðunum hefur ekki verið auðvelt heldur. Það er erfitt að finna vinnu þegar þú hefur stöðu flóttamanns og maður er algjörlega upp á aðra kominn hvað varðar mat og persónulegt hreinlæti,“ segir hún.

Ekki hægt að framkvæma lífsbjargandi aðgerðir

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum og nú. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 82,4 milljónir séu á flótta í dag og hafa um 86% þeirra hlotið skjól í fátækari ríkjum heims – ríkjum eins og Eþíópíu.

Með auknum áhrifum loftslagsbreytinga mun fjölga í hópi fólks á flótta enn frekar á næstu árum. Konur á flótta eru í sérlega viðkvæmri stöðu og nauðsynlegt er að taka mið af sértækum þörfum kvenna og stúlkna á flótta þegar neyðaraðstoð er veitt.

 Nyabel hefur búið í Jewi flóttamannabúðunum í sex ár og er nú ólett af sínu fyrsta barni. Aðeins ein heilsugæsla er staðsett í Jewi búðunum og á hún að þjónusta alla 62.000 íbúana, en ekki er ráðlagt að heilsugæslur þjónusti meira en 10.000 einstaklinga. Sex ljósmæður starfa á heilsugæslunni og taka þær á móti 5-6 börnum hvern dag. Takmarkaður búnaður þýðir að ekki er hægt að framkvæma keisaraskurði eða aðrar lífsbjargandi aðgerðir á staðnum. Þegar hafa þrjár konur í búðunum dáið í fæðingu það sem af er ári.

 Nayabel kvíðir fæðingunni og framtíðinni. Covid-19 heimsfaraldurinn hefur gert lífið í búðunum enn erfiðara en áður, lítið er um vinnu og mataraðstoð er stopul.
UN Women er á meðal þeirra stofnana Sþ sem vinnur hörðum höndum að því að tryggja réttindi kvenna á borð við Nayabel, þar með talið rétt þeirra til að búa við öryggi og heilbrigði.

Related Posts