fbpx

350 þúsund þurfa neyðaraðstoð í suðaustur Afríku

Heim / Fréttir / 350 þúsund þurfa neyðaraðstoð í suðaustur Afríku

Um 350.000 þurfa á brýnni neyðaraðstoð að halda og um 80.000 einstaklingar eru á vergangi eftir að hitabeltislægðin Ana skall á suðausturströnd Afríku í síðustu viku. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum, létust um 90 manns í óveðrinu.  

Stormurinn olli gríðarlegu tjóni á mannvirkjum sem og ræktunarlandi í Mósambík, Malaví og Madagaskar. Þá hafa aurskriður og flóð eyðilagt vegi sem torveldar matar- og neyðaraðstoð til hamfarasvæðanna.

Á síðustu árum hafa ofsaveður af þessu tagi færst í aukana í suðurhluta Afríku af völdum loftslagsbreytinga. Sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna segja hamfaraveður á borð við þetta vera helsta orsök þvingaðra fólksflutninga á svæðinu. Talið er að um 50 milljónir séu á vergangi í heiminum í dag, þar af eru 30 milljónir á vergangi vegna loftslagsbreytinga á borð við flóð, storma og skógarelda.

Viðkvæmir hópar berskjaldaðri fyrir loftslagsbreytingum

Loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir ýta undir berskjöldun viðkvæmra hópa og auka neyð þeirra og ýta þannig undir þann ójöfnuð og þau vandamál sem þegar eru til staðar. Afleiðingar Covid-19 á efnahag ríkja þýðir að fólk á flótta er enn berskjaldaðra en áður. Sþ kallar eftir samheldni alþjóðasamfélagsins til að takast á við loftslagsvandann og bregðast við þörfum fólks á flótta.

Vissir þú að í efnaminni ríkjum heims eru konur allt að fjórtán sinnum líklegri til að látast af völdum náttúruhamfara vegna þess að:

  • Þær eru bundnari við heimilið (einar að sinna börnum og eldra fólki og geta ekki skilið þau eftir þegar hættu steðjar að)
  • Þær hafa sjaldan aðgang að sjónvarpi, útvarpi, símum eða öðrum upplýsingatækjum
  • Þær eru síður læsar og geta því ekki aflað sér upplýsinga séu þær til staðar
  • Margar konur mega ekki, eða eru óviljugar til þess að yfirgefa heimilið án fylgdar karlmanns sökum hefða og komast því ekki í öruggt skjól
  • Konur eru þær fyrstu til að líða skort sé lítið um mat á heimilinu. Þær eru því líkamlega verr á sig komnar en karlmenn og líklegri til að þjást af næringarskorti
  • Í sumum ríkjum hljóta karlar forgang í björgunaraðgerðum vegna samfélagsstöðu sinnar

Lestu meira um sértæk áhrif loftslagsbreytinga á líf kvenna og stúlkna hér.

Related Posts
nyabel_jock, eþíópía