fbpx

Konur meirihluti þeirra sem eru á flótta í Úkraínu

Heim / Fréttir / Konur meirihluti þeirra sem eru á flótta í Úkraínu

Rústir skólabyggingar.

Innrás rússneskra hersveita inn í Úkraínu hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir úkraínsku þjóðina. UN Women og aðrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru áfram í landinu og veita neyðaraðstoð og ráðgjöf.

„Það má ekki gleyma því að átök hafa staðið í Úkraínu frá árinu 2014, allt frá því að Rússland innlimaði Krímskaga. Um 3 milljónir voru þegar í neyð í Úkraínu þegar þessi átakhrina hófst og sú tala fer hækkandi með hverjum deginum. Sameinuðu þjóðirnar hafa verið að sinna þörfum þessa fólks síðustu 8 ár og mun halda því áfram,“ segir Martin Griffiths, yfirmaður neyðaraðstoðar hjá Sþ.

Konur, börn, eldra fólk, fólk með fatlanir og íbúar á sjálfstjórnarsvæðum eru þau sem eru í mestri þörf fyrir neyðaraðstoð og þjónustu, þ.m.t. mat, heilbrigðisþjónustu, vatn og hreinlætisvörur.

Eitt fátækasta ríki Evrópu opnar dyr sínar

Sprengjuregnið sem dunið hefur á úkraínskum borgum síðustu daga hefur kostað bæði mannslíf og talsverðar skemmdir á mannvirkjum og mikilvægum innviðum á borð við sjúkrahús, skóla og samgönguæðar.

25 almennir borgarar hið minnsta hafa látið lífið í átökunum, yfir hundrað hafa særst og meira en hundruðir þúsunda hafa flúið heimili sín. Mörg þúsund hafa þegar flúið til Moldóvu, sem er eitt fátækasta ríki Evrópu, og annar eins fjöldi hefur leitað skjóls í Póllandi, Rúmeníu og Slóvakíu.

Meðal verkefna Sþ er að meta þann fjölda fólks sem þarfnast aðstoðar og hverjar þarfir þeirra eru og hvernig aðstoða megi önnur ríki við mótttöku þeirra.

Þá hefur Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) miklar áhyggjur af stöðu mála í Rússlandi en þar hafa um 2.000 mótmælendur verið handteknir, en grunur leikur á að sú tala sé í raun mun hærri.

Hvað gerir UN Women í Úkraínu?

Í Úkraínu, líkt og í öllum verkefnum UN Women, eru áherslur lagðar á að:

  • Efla pólitíska þátttöku kvenna
  • Uppræta kynbundið ofbeldi og veita þolendum aðstoð og þjónustu
  • Tryggja þátttöku kvenna í friðarviðræðum og veita kvenmiðaða neyðaraðstoð
  • Efla fjárhagslegt sjálfstæði kvenna
  • Tryggja að ríki taki upp kynjuð fjárlög og taki tillit til þarfa allra íbúa við skipulag og ákvarðanatöku


Aðallega konur á flótta

Frá árinu 2014 hefur UN Women í Úkraínu veitt konum á flótta kvenmiðaða neyðaraðstoð og séð til þess að félagasamtök og hjálparstofnanir taki tillit til sértækra þarfa allra kvenna þegar aðstoð er veitt. UN Women í Úkraínu hefur jafnframt barist fyrir þátttöku kvenna í friðarviðræðum og aukinni þátttöku þeirra á atvinnumarkaði og stjórnmálum.

63% þeirra sem eru á vergangi innan Úkraínu vegna átakanna sem hófust 2014, eru konur. Takmörkuð þjónusta, t.d. skortur á daggæslu, gerir konum á flótta erfiðara um vik að taka þátt í samfélaginu að nýju og því mikil hætta á að þær einangrist og að þær og börn þeirra búi við sárafátækt.

Þar sem karlmönnum á aldrinum 18 til 60 ára hefur verið meinað að yfirgefa Úkraínu í kjölfar átakanna, er meirihluti þeirra sem nú eru á flótta mæður og börn þeirra. Það er því sérstaklega mikilvægt að tryggja kvenmiðaða neyðaraðstoð og að velferð kvennanna og barna þeirra sé tryggð í móttökuríkjum.

Þú getur hjálpað með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1900kr).

Related Posts
Haítí, ágúst 2021, jarðskjálfti UN WomenMaría Rut Kristinsdóttir