fbpx

UN Women hefur verið mín lífsbjörg

Heim / Verkefnin / Afnám ofbeldis / UN Women hefur verið mín lífsbjörg

„Eftir að hafa setið fræðslufund á vegum UN Women um mikilvægi sálrænnar aðstoðar í kjölfar áfalla, ákvað ég að kynna mér málið betur. Miðstöðvarnar sem UN Women rekur fyrir þolendur kynbundins ofbeldis veittu mér kraft og öruggt rými til þess að tjá mig og mér leið sem þungu fargi væri af mér létt.“

Salima Fanta* er ein þeirra 1890 kvenna sem hafa nýtt sér verkefni UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu sem styðja við þolendur kynbundins ofbeldis.  Ágóði af sölu FO bolsins 2021 gerði UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu kleift að halda starfi miðstöðvanna gangandi. Í miðstöðvunum hljóta konurnar ekki aðeins sálræna aðstoð, heldur einnig stuðning og félagsskap annarra kvenna, lagalega aðstoð og heilbrigðisþjónustu.

Var dofin og sinnulaus

„Eiginmaður minn var sonur þorpshöfðingja og átti margar geitur. Saman áttum við tvær dætur og stórar fjölskyldur. Þegar átökin hófust 2013 neyddumst við til þess að vera á stöðugum flótta til að tryggja öryggi okkar og hjarða okkar. Einn dag, þegar við vorum nærri landamærunum við Kamerún var ráðist á okkur. Ég hélt á sex mánaða dóttur okkar í fanginu og eldri dóttir okkar var við hlið mér þegar við urðum vitni að því þegar hermenn myrtu manninn minn, bræður hans og mína og hirðingjana okkar. Ég stóð stjörf við líkin þeirra þegar hermennirnir snéru sér að mér, skáru af mér hárið með sveðju og skáru hægra brjóst mitt sem síðar varð svo sýkt að það varð mér næstum að aldurtila. Þegar ég frétti að þeir höfðu brennt aldraðan föður minn lifandi, hrundi allt. Ég gat ekki meira. Ég varð dofin og sinnulaus og á endanum var ég lögð inn á geðdeild, þar sem ég lá hlekkjuð við rúmið mitt í sex mánuði. Í dag get ég talað um það sem gerðist og reynt að vinna mig úr áföllunum með aðstoð annarra. UN Women og verkefni þeirra hafa verið mín lífsbjörg og veitt mér tækifæri til að byggja mig og líf mitt aftur upp,“ segir Salima Fanta.

Eitt fátækasta ríki heims

Mið-Afríkulýðveldið (Central African Republic) er eitt fátækasta ríki heims þrátt fyrir mikil náttúruleg auðæfi. Um 72% íbúa landsins bjuggu undir fátækramörkum árið 2020, sem er 2% fleiri en árið 2019. Lægri kaupmáttur sökum átaka og áhrifa COVID-19 hefur ýtt fleiri íbúum undir fátækramörk, meiri hluti þeirra eru konur.

Í höfuðborg landsins, Bengui, hafa átök milli skæruliðahópa færst í aukana á síðustu tveimur árum og verða almennir borgarar gjarnan skotspónn þeirra átaka. Um helmingur (48%) allra skráðra mannréttindabrota í Bengui eru kynferðisglæpir gegn konum, þar sem skæruliðahópar nota nauðganir sem stríðsvopn. Þá hefur tilfellum heimilisofbeldis fjölgað enn frekar síðan COVID-19 skall á.

Beittar ofbeldi af hálfu fjölskyldu

Tíðni kynbundins ofbeldis í Mið-Afríkulýðveldinu er sérlega há og eru fjölskyldur kvennanna og eiginmenn þeirra á meðal gerenda. Brjóst stúlkna eru straujuð niður (89.4%), kynfæri þeirra eru limlest (85%) og um 78% stúlkna eru þvingaðar í hjónaband á barnsaldri. Meira en helmingur giftra kvenna hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi af hendi maka og 55% þeirra eru beittar fjárhagslegu ofbeldi. Þá hefur 58% kvenna verið beittar kynferðislegu ofbeldi af hendi skæruliðahópa og friðargæsluliða.

Mið-Afríkulýðveldið, CARSala FO bolarins styður við konur í Mið-Afríkulýðveldinu

UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu segir gríðarlega mikilvægt að ná til þorpshöfðingja og trúarleiðtoga landsins til að sporna við kynbundnu ofbeldi. Þá þarf að efla fræðslu til almennings svo að konur og stúlkur viti hvaða þjónustu þær geti sótt sér og hver réttur þeirra sé. Framlag af sölu FO bolarins 2021 hefur gert UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu kleift að efla sálræna þjónustu til kvenna á borð við Salimu og ná til trúarleiðtoga, höfðingja og fjölmiðla með fræðslu um skaðsemi kynbundis ofbeldis og siða á borð við kynfæralimlestingu og þvingaðra barnahjónabanda.

Við hjá UN Women á Íslandi þökkum ykkur fyrir stuðninginn með kaupum á FO bolnum 2021. Ykkar framlag skiptir sköpum fyrir konur og stúlkur í Mið-Afríkulýðveldinu.

*Nafninu hefur verið breytt.

Related Posts