fbpx

Kynslóð jafnréttis: Beinn kostnaður af heimilisofbeldi um 100 milljónir

Heim / Fréttir / Kynslóð jafnréttis: Beinn kostnaður af heimilisofbeldi um 100 milljónir

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, hefur á undanförnum árum stundað rannsóknir á kynbundnu ofbeldi, gerendum og afleiðingum heimilisofbeldis. Þegar hún starfaði sem verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu opnuðust augu hennar fyrir því óréttlæti og þeim ójöfnuði sem margir á Íslandi búa við.

 

Hvaða þýðingu hefur hugtakið jafnrétti fyrir þér?

Drífa Jónasdóttir„Jafnrétti er það að jafna hlut, rétt og tilveru fólks. Sama hvar það býr, af hvaða kyni það er eða uppruna.“

Hvað þarf til svo að jafnrétti náist?

„Það er fullt af hlutum sem eru ekki í lagi, en enginn vilji fyrir því hafa þá í lagi. Það er kannski ekki heldur vilji fyrir því að hafa þá í ólagi, en meira eins og það sé best að hafa hlutina óbreytta. Það þarf hugarfarsbreytingu og vitundarvakningu. Margar herferðir hafa verið gerðar til aðvekja fólk til umhugsunar og ákveðin breyting hefur átt sér stað í kjölfarið. Með #MeToo, þá hugsaði ég: „Nú breytist þetta! Nú skilja allir gerendur og meintir gerendur að það er ekki í lagi að fara yfir mörk.“ En svo breytist það ekki. Við þurfum áframhaldandi samtal og umræðu um þessi mál og ræða. Hvað meinar fólk þegar talað er um að „fara yfir mörk“? Hver eru mörkin? Þau eru ekki þau sömu núna og fyrir 50 árum. Af hverju þótti ekkert tiltökumál að klípa konur í rassinn einu sinni en það þykir ekki í lagi núna? Hvað breyttist?“

Kostnaður samfélagsins af heimilisofbeldi um 100 milljónir á 10  árum

Með rannsóknum sínum á umfangi og eðli heimilisofbeldis, er Drífa orðin einn helsti sérfræðingur landsins í málaflokknum. Hún segir þó röð tilviljana hafa leitt hana út í afbrotafræði og síðar doktorsnám við læknadeild HÍ þar sem hún rannsakar heimilisofbeldi.

Í doktorsverkefni sínu tók Drífa saman beinan kostnað Landspítalans vegna koma kvenna þangað með líkamlega áverka af völdum heimilisofbeldis. Kostnaðurinn, samkvæmt hagdeild spítalans er um 100 milljónir króna, og er þá ekki tekið tillit til langtímaáhrifa á borð við vinnutap, ótímabæran dauða, minnkuð afköst, áhrif á börn, lyfjakostnað eða sálfræðikostnað.

„Tölurnar sem við fáum út úr rannsókninni er raunkostnaður sem við reiknum út með hagtölum Landspítalans.  Okkur reiknaðist út að kostnaðurinn nemi um 100 milljónum króna á tímabilinu 2005 til 2014 og þá erum við bara að taka inn í reikninginn þær konur sem segja frá ofbeldinu. Við erum heldur ekki að skoða langtímaáhrifin, bara beinan kostnað. Á Englandi hefur verið áætlað að útgjöld heilbrigðiskerfisins vegna heimilisofbeldis séu um 3% af heildarútgjöldum. Finnsk rannsókn sýndi að konur sem koma á spítala vegna heimilisofbeldis og segja frá, eru aðeins um 10% af heildinni. Þannig umfangið er töluvert meira en tölurnar segja til um,“ útskýrir Drífa.

Norræna þversögnin

Nýverið var Drífa ráðin sem sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands þar sem hún stýrir  rannsókn á kynbundnu ofbeldi á Íslandi. Rannsóknin, sem er kostuð af hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), er ein sú stærsta sem gerð hefur verið á Íslandi á þessu sviði. Úrtakið er gríðarlega stórt og hefst gagnasöfnun á þessu ári.

„Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að hafa þessar tölur svo hægt sé að fara í markvissa stefnumótun innan málaflokksins. Þá getum við séð hvort ákveðin inngrip skili árangri auk þess sem mikilvægt er að vita hvar Ísland stendur, landið sem kallað er jafnréttisparadís.“

Aðspurð hvar Ísland standi samanborið við önnur ríki í þessum efnum, segir Drífa tölurnar vera örlítið hærri hér á landi en víða annars staðar í Evrópu. Þar spili ef til vill „norræna þversögnin“ inn í.
„Því upplýstari sem konur eru um rétt sinn, því fleiri konur tilkynna kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Því er talan á Norðurlöndunum oft hærri en annars staðar. Þetta kallast „norræna þversögnin“. Í sumum löndum er það ekki endilega álitið ofbeldi ef eiginmaður tekur sér kynlíf hjá konunni sinni. Það þykir hans réttur og því væri það ekki endilega flaggað sem ofbeldi í nánu sambandi. Ymislegt spilar því inn í þessar tölur.“

Lítil börn fæðast ekki sem ofbeldisfólk

Drífa JónasdóttirÁ meðan Drífa starfaði sem verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu fór hún fyrir rannsókn sem kannaði persónueinkenni og hegðun ofbeldismanna í nánum samböndum. Innt eftir því hvernig megi ná betur til gerenda, segir Drífa mikilvægast að rjúfa „ofbeldishringinn“ sem þrifist hefur í samfélaginu of lengi.

„Börn fæðast ekki sem lítið ofbeldisfólk sem hugsar: „Ég hlakka mikið til að eyða mínu lífi í að beita maka minn og börn ofbeldi.“ Samfélagið býr til einstaklinga sem beita ofbeldi, sama hvort það eru karlar eða konur, og ofbeldi líðst inn á heimilum margra barna á Íslandi. Það eru yfir þrettán þúsund tilkynningar til barnaverndar á þessu ári, sem er mikil aukning frá 2019. Ein kona kemur á Landspítala í Fossvogi annan hvern dag með áverka eftir heimilisofbeldi –það eru eingöngu konur sem segja frá því að maki sinn hafi veitt þeim áverka. Lögreglan fer í yfir tvö þúsund útköll á ári vegna heimilisofbeldis og ágreinings. Inni á þeim heimilum eru börn. Yfir hundrað börn dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra og öll koma þau vegna heimilisofbeldis. Ég held að aðalmálið séað rjúfa þennan ofbeldishring. Það að hafa alist upp við ofbeldi er ekki afsökun, en það er útskýring,“ segir Drífa.

Heilbrigðisráðherra ákvað síðasta vor að láta móta og innleiða samræmt verklag fyrir heilbrigðisstofnanir vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis. Drífa var fengin til að leiða það verkefni. Spurð hvort slíkt verklag hefði ekki þegar átt að vera til og í notkun, segir Drífa að það sé vissulega sérstakt að ekkert skýrt verklag hafi verið til er varðar mótttöku þolenda heimilisofbeldis fram að þessu.
„Það er auðvitað vilji innan heilbrigðiskerfisins til að gera vel og fólk reynir að gera sem mest fyrir hvern og einn þolanda. En væri ég hjúkrunarfræðingur eða læknir, þá mundi ég vilja geta tekið upp lista með leiðbeiningum um hvernig sé best að þjónusta þennan einstakling. Líkt og margir innan lögreglunnar og heilbrigðiskerfisins hafa bent á, þá eru oft sömu einstaklingarnir að koma aftur og aftur og lögreglan að fara ítrekað inn á sömu heimilin. Lögreglan innleiddi verklag í heimilisofbeldismálum árið 2014  sem hefur gefið góða raun. Þá er eftir atvikum, gerandinn tekinn út af heimilinu, þolandinn færður upp á slysadeild og barnaverndarnefnd hlúir að börnunum. Eðli svona verklags er að það sé ekki bundið persónulegu mati, heldur séu skýrar reglur um inngrip.“

Með heimilisofbeldi á heilanum

Aðspurð segir Drífa ýmislegt hafa breyst til batnaðar í viðhorfum fólks til málaflokksins og nefnir sem dæmi þá viðhorfsbreytingu að heimilisofbeldi sé ekki lengur einkamál heimilisins.

„Ég er kannski með heimilisofbeldi á heilanum og fylgist með öllum fréttum, reglugerðum og lagabreytingum í þessum efnum. Mér finnst margt hafa breyst til batnaðar, bæði í viðhorfi fólks, lögum og verkferlum. Vitundarvakning hefur átt sér stað. Heimilisofbeldi er ekki einkamál heimilisins þegar það kostar samfélagið marga tugi milljarða á ári, fólk lendir á örorku og börnin eru traumatíseruð fyrir lífstíð. Hvernig er það ekki vandamál samfélagsins alls?“

Hvaða breytingar mundir þú vilja sjá í nánustu framtíð?

„Ég vil að fólk hætti að vera vont við hvert annað. Að fólk hætti að beita börnin sín ofbeldi og börn hætti að beita foreldra sína ofbeldi og að pör hætti að slást. Þá er alveg sama hver birtingarmynd ofbeldisins er, hvort það sé líkamlegt, andlegt eða fjárhagslegt. En ég held að við séum á réttri leið þó breytingarnar gerist hægt. Samtalið er mikilvægt í þessu. Ungir krakkar eru að ræða ofbeldi og jafnrétti, það er mikilvægt að halda þeim upplýstum um  hvað þyki eðlilegt – ekki bara benda á það sem er óeðlilegt, heldur  sýna þeim hvað flokkast sem eðlileg samskipti og fjölskyldulíf. Þá meina ég ekki að sýna þeim fjölskyldur baðaðar í einhyrningaryki þar sem allir eru alltaf glaðir, heldur raunsanna mynd þar sem pör sýna hvoru öðru virðingu og tala saman af virðingu.“

Hvað mundirðu vilja gefa næstu kynslóð svo hún þurfi ekki að hjakkast í sama fari í sinni jafnréttisbaráttu?

„Lausn að því að rjúfa þennan ofbeldishring. Ég held að það sé örugglega lykillinn í þessu. Það þarf snemmtæka íhlutun, samþættingu fagstétta, betra flæði milli fagstétta og þannig rjúfa ofbeldishringinn.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Drífu í heild sinni hér að neðan. 

Related Posts